Nú verða umhverfismálin ekki þögguð niður

Framboðslistar VG í Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur voru kynntir og samþykktir einróma á sameiginlegum fundi kjördæmanna þriggja í sal Menntaskólans í Kópavogi 14. febrúar sl. Það var skemmtileg stund. Salurinn þéttsetinn og andi samheldni, bjartsýni og baráttugleði sveif yfir vötnum. Listarnir endurspegla aukna breidd í hreyfingunni og vaxandi tiltrú kjósenda.

Mér varð hugsað átta ár aftur í tímann, þegar við vorum harla fá og lítt skipulögð að strekkjast við að fylla framboðslista hinnar nýju hreyfingar um land allt. Ekki síst var róðurinn erfiður í Reykjaneskjördæmi sem þá var og hét. Þar þurfti nú heldur betur að þrýsta á fólk að gefa kost á sér, jafnvel snúa blíðlega upp á einn og einn handlegg, og þar mátti finna bæði hjón og mæðgin á listanum. Trú á þetta nýja framboð mældist ekki í mörgum prósentum, í Reykjaneskjördæmi byrjuðum við með innan við 2% fylgi.

Kosningabaráttan var býsna erfið þessar vikur á útmánuðum 1999 og þurfti að glíma við bæði tortryggni og beinan fjandskap, ekki síst vegna þess að ýmsum þótti þessi vinstrigræna hreyfing spilla uppfyllingu draumsins um samfylkingu gjörvallra vinstri manna í landinu. Erfiðast fannst mér þó að skynja áhugaleysi bæði kjósenda og hinna flokkanna á umhverfis- og náttúruverndarmálum. Þau komust varla á dagskrá hvernig sem við reyndum. Í kosningunum 2003 tók ekki mikið betra við. Frambjóðendur VG komu nokkuð móðir til leiks eftir harða baráttu undangenginna ára gegn virkjunum við Eyjabakka og Kárahnjúka og stóðu þar einir gegn öllum hinum flokkunum. Þreyta og vonbrigði eftir þau átök settu mark sitt á kosningabaráttuna vorið 2003.

Nú er hins vegar öldin önnur. Málefni umhverfis og náttúruverndar eru í brennidepli og æ fleiri skynja mikilvægi þeirra fyrir nútíð og framtíð þessa lands og raunar heimsins alls. Allir flokkar reyna nú að sýna lit í þessum efnum, jafnvel núverandi stjórnarflokkar reyna að láta sem þeir bjóði upp á stefnu í umhverfismálum, sem verður þó býsna ótrúverðug í ljósi verka þeirra. Meðan þeir setja stóriðju- og stórvirkjanastefnu öllu ofar í atvinnumálum hljóma yfirlýsingar um umhverfisvitund og náttúruvernd eins og lélegir brandarar. Og enn verður ekki annað séð en að ráðamenn þessara flokka trúi því að venjulegt íslenskt rok sjái um að eyða loftslagsmengun og öðrum leiðindum og því óþarfi að bregðast við með einhverjum aðgerðum. Stefna þessara flokka er innantómt orðagjálfur.

En hvað sem því líður er ljóst að umhverfismál og náttúruvernd verða á dagskrá í kosningabaráttunni að þessu sinni. Þau verða ekki þögguð niður eins og raunin varð í kosningabaráttunni 1999 og aftur 2003. Vinstri græn hafa staðið vaktina frá upphafi og nú stefnir í að þau uppskeri eins og þau hafa sáð til.