Pólitíska þvargið á ís

Einhver mest notaða klisja stjórnmálamanna er á þá leið að ein vika sé löng í pólitík og er þá átt við að margt geti breyst í stjórnmálunum á einni viku. Nú er ekki ólíklegt að atburðir næstu viku gætu orðið til að sanna þessa útjöskuðu klisju. Ég ætla að hafa það í huga þegar ég loks fletti blöðum og skanna netsíður eftir heila viku í skíðabrekkunum í Madonna á Ítalíu, en þar ætla ég hreinsa hugann af pólitísku þvargi og reyna að stilla mig um að fara á netkaffistofu.

Hvernig verður svo staðan eftir viku? Verður Margrét Sverrisdóttir orðin varaformaður Frjálslyndra eða verður hún komin í undirbúning framboðs með Kristni Gunnarssyni? Verður hún komin í 2. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi eða verður hún komin í slagtog með Ómari Ragnarssyni & co? Eða hefur hún þegið 5. sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður? Svei mér ef ég veðja ekki á það síðasttalda.

Og hvað gerir Magnús Þór ef hann tapar varaformannsslagnum? Renna þá ekki fylgismenn hans saman við karlana í Nýju afli og etja kappi í kosningunum við liðið í gamla aflinu? Raunar er útilokað að skilja þetta endemis rugl í þessum litla flokki og ekki bætir skilninginn að lesa ruddalegt þruglið á heimasíðum Margrétar og Magnúsar.

Ekki virðist mjög líklegt að botn verði kominn í framboðstunnu öryrkja og eldri borgara á þessari einu viku. Mjög skiljanlegt er að þar fæðist hugmyndir um framboð sem hafa raunar verið á flögri í þeim röðum lengi. Óánægja þessara hópa með kjör sín og aðstæður hefur magnast jafnt og þétt og eðlilegt að framboðsleiðin sé mörgum ofarlega í huga. En klúðrið sem nú blasir við lofar ekki góðu. Svo virðist sem enn og aftur snúist málið um persónur, en ekki málefni, og ef báðir hópar ætla að bjóða fram lista um allt land er viðbúið að eftirtekjan verði rýr.

En ég ætla sem sagt hvorki að láta framboðsraunir öryrkja og eldri borgara né forystuslag Frjálslyndra trufla brekkusveiflurnar í Madonna næstu vikuna, en geri því skóna að hafa nóg að lesa í fjölmiðlunum að liðinni viku.