Slappleiki og metnaðarleysi

Í útvarpslögum frá árinu 2000 er m.a. fjallað um skyldur útvarpsstöðva í sérstökum kafla og hljóða fyrstu 2 greinar þess kafla svo:

IV. kafli. Skyldur útvarpsstöðva.

7. gr. Dagskrárframboð.

Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.

Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.

Í reglugerð1) skal það nánar skilgreint hvað telst vera evrópskt efni.

1)Rg. 911/2000.

8. gr. Tal og texti á íslensku.

Efni á erlendu máli, sem sýnt er á sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.

Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Þau eiga ekki heldur við þegar útvarpsstöð hefur fengið leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, sbr. 1. mgr.

Svo er nú það og spurningin stóra hvernig ljósvakamiðlarnir skilja þessi lagaákvæði, hvort þeir yfirleitt skilja þau eða brjóta þau einfaldlega viljandi.

Ef litið er yfir dagskrárkynningar sjónvarpsstöðvanna í dag er nokkuð ljóst að fyrirmæli laganna um “..að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu” eru þverbrotin, þótt að vísu skorti nokkuð á að yfirleitt sé hægt að gera sér grein fyrir hvað er verið að kynna og hvaðan það kemur. Sjónvarp Ríkisútvarpsins virðist þó í góðum málum, enda kynning þess miklum mun skýrari og ítarlegri en annarra stöðva. Reyndar er ekki ljóst hvaðan sumir dagskrárliðir fyrir kvölddagskrá eru ættaðir, en eftir kvöldfréttir er aðeins einn þáttur bandarískur, hinir eru frá Bretlandi og Þýskalandi. Heiti dagskrárliða eru á íslensku með erlenda heitið innan sviga. Og skilur þar rækilega á milli RÚV og annarra miðla. Dagskrárkynningar allra hinna stöðvanna sýna einfaldlega slappleika og metnaðarleysi.

Stöð tvö auglýsir sína dagskrárliði óútskýrða í belg og biðu, að mestu leyti framhaldsþætti og að því er virðist að stærstum hluta bandaríska. Nánast hver einasti dagskrárliður er með ensku heiti og ekki talin ástæða til að þýða það á íslensku né heldur að láta neytendur vita hvað þar er á ferðinni. Einn liður ber ítalska heitið “Viola bacia tutti” og er það reyndar íslenskað samviskusamlega auk þess að tekið er fram að hér sé um rómantíska ítalska vegamynd að ræða.

Stöð tvö bíó íslenskar ekki einn einasta titil þeirra mynda sem boðið er upp á og engar aðrar upplýsingar um þær að hafa. Sama er að segja um dagskrána á Skjá einum, hver einasti liður með enskum titli og að því er virðist hver einasti frá Ameríku. Ekki er fjölbreytninni fyrir að fara. Lágkúran ræður ríkjum.

Þetta er engin undantekning, svona var þetta í gær og svona verður þetta örugglega á morgun. Svona hefur þetta verið í langan, langan tíma og öllum virðist vera sama. Nú segir að vísu ekki í lagatextanum að íslenska skuli heiti dagskrárliða, en liggur það ekki einfaldlega í hlutarins eðli miðað við ákvæðin um tal og texta á íslensku? Og hvers vegna eru engar kröfur gerðar til stöðvanna að þær a.m.k. reyni að fara eftir lögum um framboð dagskrárefnis?

Um skyldur hljóðvarpsstöðva segir ekki margt sérstaklega, en um þær gildir auðvitað hið sama, að “Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.” Með það í huga er varla hlustandi á nokkra einustu hljóðvarpsstöð aðra en rás 1 á RÚV – og reyndar Rás 2 á stundum.