Friðurinn úti?

Það er mikill lúxus að geta brugðið sér dag hvern í notalega sundlaug, synt í vel volgu og mjúku vatni og látið líða úr sér í heitum potti, jafnvel nuddpotti. Hvarvetna erlendis er vatnið hins vegar kalt og hart og sundlaugarmenning með allt öðrum brag.

Vatnið í sundlauginni á Seltjarnarnesi er mjög sérstakt, það kemur beint úr borholum á svæðinu og er að einhverju leyti sjávarblandað. Af þeim sökum er léttara að synda í þessari sundlaug en víðast hvar annars staðar. Miklar lagfæringar fóru fram á aðstöðunni 2005 til 2006 og var sundlaugin lokuð í heila 7 mánuði, en var opnuð örskömmu fyrir bæjarstjórnarkosningar þótt sitthvað væri reyndar þá enn ógert. Máttu fastagestir reyna að sætta sig við ýmsa kosti hjá nágrönnum okkar í Reykjavík og jafnvel víðar meðan þessi langa lokun stóð yfir.

Fastagestirnir skiluðu sér ekki allir aftur, en sjálf var ég ósköp fegin að komast aftur á gamla staðinn þótt ýmislegt væri breytt og ekki allt betra en áður og sumt raunar furðu misheppnað. Sem dæmi má nefna rennibraut eina mikla sem gnæfir upp fyrir alla veggi, en er svo ólánlega hönnuð að krakkar eiga beinlínis erfitt með að nota hana. Og til hvers er þá leikurinn gerður? Besta viðbótin er hins vegar stór og góður nuddpottur sem gott er að liggja í að loknu sundi.

Yfirleitt er ósköp notalegt að sækja sundlaugina “mína”. Viðmót starfsfólks er hlýlegt, sjaldan er óþægilega margt fólk í lauginni og yfirleitt friðsælt á staðnum, ekkert útvarp glymjandi eða annað sem truflar. Þannig á þetta að vera og yfirleitt kemst ekki annað að en vellíðan að heimsókn lokinni.

Í gær var ekki jafn notaleg aðkoma og venjulega því mættir voru á svæðið traktorar og gröfur og starfsfólkið sagði mér að nú væri að hefjast umbylting jarðvegs og vísuðu á bls. 31 í Morgunblaðinu. Og mikið rétt, þar blasti við tölvuteiknuð mynd af því sem koma skal, þ.e. heilsuræktarstöð World Class, stöð sem á að rúma ríflega tvö þúsund manns. Sjálfsagt verða einhverjir kátir að fá þarna aðstöðu fyrir sitt sprikl og hopp, færibandahlaup og teygjur, en ég sé fram á ófriðlega daga næstu mánuði og jafnvel ár.

Þarna mun sem sagt rísa 1.530 fermetra heilsuræktarstöð á stað þar sem mér finnst reyndar lítið pláss fyrir slíkt hús og altént ljóst að ekki verður mikið pláss fyrir annað en bílastæði með tilheyrandi umferð í kringum þetta ferlíki. Er þetta endilega nauðsynlegt?

Í morgun var búið að rústa skemmtilega rjóðrinu við innganginn í sundlaugina, þar sem Nes-hlauparagengið er vant að teygja sig og beygja fyrir og eftir hlaupin. Fallegu tréin sem smáfuglarnir hafa sótt í lágu eins og hráviði í drullunni sem komin var um allt og groddalegir vinnubílar óku um svæðið. Hávaðinn af þessu öllu saman spillti friðsældinni eftirsóknarverðu og notalegheitin í sundlauginni “minni” voru ekki söm og venjulega. Og hvað svo þegar ferlíkið er risið og umferðin tekur völdin? Skyldi friðurinn vera endanlega úti?