SEPTEMBERDAGAR 2012
1.9. LAUGARDAGUR
Mörgu þarf að sinna eftir heimkomuna. Fyrsta verkið var náttúrlega að sinna hestunum. Það var gaman að hitta blessaða hestana og sjá hvað þeir eru vel á sig komnir. Höfðu enda getað hvílt sig vel og lengi eftir tveggja vikna ferðalagið yfir Kjöl fram og til baka. Birkir á Hæli tók undan hestunum, en það er meira en við getum gert. Allt gekk það vel, þótt mikil rigning helltist öðru hverju yfir okkur.
2.9. SUNNUDAGUR
Góður dagur, sól og blíða. Ég tók mig til og krafsaði öll ósköp í öllum beðum, sem voru orðin ansi rytjuleg. Þó höfðu Marcela og Pétur greinilega bjargað nokkru. Og Marcela gætti að inniblómunum. Mátti þar þekkja handbrögðin hjá henni.
3.9. MÁNUDAGUR
Vaknaði við rok og rigningu. Þannig var veðrið allan daginn. Við brugðum okkur í hádegismat í Sjávargrillið á Skólavörðustíg 14 og vorum þar fyrst á ferð. Stuttu síðar varð uppi fótur og fit því eitthvað hafði komið fyrir í eldhúsinu og varð hreinlega að loka staðnum eitthvað fram eftir degi. En við ein vorum svo heppin að maturinn okkar var tilbúin og dæmalaust góður eins og alltaf hjá Sjávargrillinu.
4.9. ÞRIÐJUDAGUR
Rækilega blés vindurinn með morgninum, en þegar leið að hádegi var allt í góðu. Ég tók aðra rispu í beðunum og fyllti poka af ansi dapurlegum stórum stönglum og illa förnum blómum. Ég fór með pokana miklu í Sorpu og fannst ég hafa verið svo dugleg að ég kom við í Hagkaupum og keypti mína uppáhalds köku: Myllu pecan pie! Veðrið var glimrandi fínt og ég var fegin að taka mér hvíld. Fékk mér ljúfan blund í góða veðrinu. Má víst búast við slagviðri á morgun, svo að um er að gera að njóta þess besta sem veðurguðirnir bjóða upp á.
5.9. MIÐVIKUDAGUR
Ausandi rigning í allan dag. Mestur hiti 9°. Sportistarnir létu ekki rigninguna miklu hindra sig í hlaupum hér á sjávarbakkanum. Sumir eru hraustari en aðrir.
6.9. FIMMTUDAGUR
Dálítið rysjótt veðrið í dag. Nokkuð var gott öðru hverju, en svo rauk upp vindurinn fyrr en varði og svolítil rigning í ofanálag.
Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingurinn, rithöfundurinn, ljósmyndarinn og náttúruverndarinn, var kvaddur í dag í Dómkirkjunni. Þar var þéttskipað, enda Guðmundur mörgum kær. Hann gerði fjöldamörgum ljóst hver okkar siðferðileg skylda er gagnvart unhverfinu. Honum eigum við mikið að þakka. Stórkostlegar bækur hans í bókahillum okkar, Perlur, Ströndin, Hálendið, Fuglar, eru mikið notaðar. Einstakur maður Guðmundur. Hann gleymist ekki.
7.9. FÖSTUDAGUR
Fallegur föstudagur. Heiðríkt í háloftum og skikkanlegur vindur. Mestur hiti 8°.