Góð vika í Berlín

OKTÓBERDAGAR 2012

5-12

Eldsnemma að morgni 5. október var flogið til Berlínar. Flughræðsla mín var ekki verri en svo að ég svaf næstum alla leiðina. Og fegin var ég að hvílast á hóteli sem heitir Gat Point Charlie. Gott hótel á góðum stað og ekki of dýrt.

Mig hafði lengi langað að koma til Berlínar á þennan merkilega stað. Jónas stúderaði þar við háskóla fyrir 50 árum og ekki fengi ég betri leiðsögumann. Við þrömmuðum vítt og breytt um borgina og nutum þess vel þótt ganglimirnir væru satt að segja harla aumir að kvöldi. Sem betur fer er mjög gott og þægilegt að nota strætisvagna og lestir í Berlín. Fyrstu tvo dagana var talsverð rigning öðru hverju, og þá var gott að fá sér sæti í strætisvagni og kynna sér umhverfið úr hásæti.

Margt athyglisvert er að sjá í Berlín. Alexanderplatz, Brandenburger Gate, Soni Center á Potsdamer Platz, stórkostlegar kirkjur, minjasöfn, dýragarðar o.s.frv. Og að sjálfsögðu fórum við í háskólann sem Jónas sótti fyrir hálfri öld! Þar var gaman að ganga um.

Ekki má gleyma að við áttum erindi í Sendiráð Íslands. Var okkur þar vel tekið og gaman að sjá hvernig þessi híbýli eru. Starfsmenn eru þarna 8 talsins, en við hittum þar aðeins konur, hressar og elskulegar.

Vikan í Berlín var mjög ánægjuleg. Þegar við komum heim föstudaginn 12., fann ég hvað útsýni er mikils virði. Útsýnið í Berlín er engin víðátta, enda mest á flötu. Hús og aðrar byggingar, flestar háar, þurfa að hafa sitt svæði, og lítið opnast fjær. Það skiptir svo miklu að sjá vítt um land og fjöll. Það vantar ekki hér.