Hugsað til Óla afa

OKTÓBERDAGAR 2012

13.10. LAUGARDAGUR

Það var gott að koma heim og jafna sig eftir góða viku í Berlín, og þá var nú gott að komast í sundlaugina.

Veðrið var dálítið úfið í dag, hvasst og rigning með köflum.

Miðvikudaginn 10. varð Kári 16 ára. Í dag var haldin afmælisveisla á Birkigrund 42, og við vorum auðvitað fegin að missa ekki af veislunni, nýkomin heim. Þar voru kræsingar góðar og gaman að hitta gesti og heimafólk.

14.10. SUNNUDAGUR

Veðrið var gott í dag, þótt ekki sé beint hlýtt. Sem betur fór var ekki hvasst og sólin leyfði sér að skína.

15.10. MÁNUDAGUR

Gluggaveðrið bregst ekki. Ljómandi fallegt og ekkert óhóflega hvasst. Hitinn fór meira að segja upp í 7°.

16.10. ÞRIÐJUDAGUR

Dýrðlegur dagur. Þegar næturfrostið lét undan var gott að koma út þótt hitinn kæmist ekki hærra en 5° þennan dag. Himinninn var heiðríkur og logn fram að miðjum degi. Getur ekki betra verið um miðjan október.

Ég gekk um Kotagrandann í þessu fallega veðri og hugsaði til Óla afa, sem var jarðsettur í dag. Ólafur G. Jónsson hét hann, en í okkar hópi kallaðist hann Óli afi. Hann var seinni eiginmaður Önnu, móður Jónasar. Þau bjuggu lengi í New York og voru svo góð að bjóða öllum börnum okkar til sín. Þau fóru til þeirra hvert fyrir sig, þegar þau voru á fermingaraldri. Það var hverju þeirra mikið ævintýri, sem engum gleymist og eru öll mjög þakklát fyrir. Anna lést 1976, en Óli afi hætti ekki að taka á móti börnunum okkar. Óli var svo lánsamur að eignast vinkonu síðar, sem reyndist honum vel og tók ekki síður vel á móti krökkunum. Gerður Jóhannesdóttir Torberg heitir konan, en er alltaf kölluð Systa. Óli og Systa hafa nú alllengi búið í Florida og hafa átt þar góð ár.

17.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt er veðrið, en ekki sérlega notalegt utan dyra í hvassviðrinu. Mestur hiti mældist 4°.

18.10. FIMMTUDAGUR

Sólin skein í dag frá morgni til kvölds, en mestur hiti var ekki meiri en 3°.

Við brugðum okkur á Kaldbak að líta eftir hestunum. Þeir tóku okkur vel og fengu mola úr vasa á meðan við athuguðum hvernig þeim liði. Þeir virtust allir vel á sig komnir, enda góðar aðstæður og yfirleitt ágætt veðurfar til þessa. Alltaf notalegt að sjá þeim líða vel.

19.10. FÖSTUDAGUR

Kalt er veðrið þessa dagana, en fallegt er horfa út um gluggana. Heiðríkjan og blessuð sólin sjá um það. Merkilegast í þessum kulda finnst mér hvað blómin eru enn litfögur og falleg. Sérstaklega stjúpur og fjólur eru sannarlega furðu brattar þótt frostið kæli talsvert um nætur.