SEPTEMBERDAGAR 2012
15.9. LAUGARDAGUR
Fallegt og allgott veður í dag. Mestur hiti mældist 7°.
16.9. SUNNUDAGUR – DAGUR ÍSLENSKRAR NÁTTÚRU
Gaman að fá gott veður á þessum sérstaka degi, en því miður var það ekki alls staðar jafn gott. Hér skein sólin og hitinn mældist mest um 7 stig.
Í tilefni dagsins brugðum við okkur á Þingvöll. Í himinblámanum skartaði gulur víðirinn, berjalyngið fagurrautt og trén að mestu græn. Þar var svo yndislega fallegt að ég var dáleidd.
17.9. MÁNUDAGUR
Fallegt veður og nokkuð gott. Mestur hiti mældist 8°.
18.9. ÞRIÐJUDAGUR
Yndislega fallegur dagur í dag. Skínandi heiðríkur allan daginn, og lítt blés vindur. Hitinn mældist 8°. Sjálfri fannst mér miklu hlýrra, en veðurfræðingarnir hljóta að vita betur.
Það var margt manna á Kotagranda í góðviðrinu og fallegt um að litast. Ekki hefur fjölgað öndum né gæsum á Bakkatjörninni. Máfarnir ráða þar ríkjum. Mér sýnist þeir flestir bjartmáfar eða hvítmáfar, en ég er ekki nógu glúrin að geta fullyrt þetta.
Gat naumast hætt að horfa á næturhimininn áður en ég skreið í rúmið mitt. Skínandi stjörnur blikkuðu vingjarnlega til mín. Fegurð himinsins er margbreytilegur.
19.9. MIÐVIKUDAGUR
Mikið var dagurinn fallegur. Heiðríkur himinn allan daginn og blankalogn fram yfir miðjan dag. Þá fyrst hreyfðist vindur. Mestur hiti mældist 8° eins og síðustu daga.
Síðla kvölds horfðum við á leiftrandi norðurljós og stjörnur himinhvolfsins.
20.9. FIMMTUDAGUR
Gott og fallegt veður í dag. Mestur hiti mældist 8°. En nú má víst búast við breytilegri átt og heldur hlýrra veðri og vonandi betra á Norðurlandi.
21.9. FÖSTUDAGUR
Hann er ansi blautur þessi dagur. Mikil rigning. Mestur hiti 10°.