“Sæl eru þau hjörtu er sigri ná”

JÚLÍDAGAR 2012

14. – 28.

Fátt er skemmtilegra en að fara í hestaferðir. Við Jónas gátum ekki nægilega sinnt slíku síðustu tvö árin, fyrra árið vegna veikinda hesta, það síðara vegna veikinda Jónasar. En nú var svo sannarlega að því komið þetta árið. Og nú dugði ekki minna en hálfsmánaðar hestaferð.

Hjalti Gunnarsson, “Kóngurinn á Kjóastöðum”, hefur árum saman staðið fyrir hestaferðum frá Kjóastöðum til Skagafjarðar og aftur til Kjóastaðar, sem er skammt frá Geysi á aðra hönd og Gullfossi á hina. Hjalti fékk Kóngsnafnið fyrir 5 árum þegar ljóst var að hann hefði stjórnað þessum ferðum yfir Kjöl í ríflega 100 skipti. Þeir eru ekki margir sem hafa komið slíku í verk.

Við Jónas höfum farið Kjöl oftar en einu sinni og alltaf þótt einkar gaman að fara ýmsar leiðir þar um. Þar kom nú í þetta sinn að við gerðumst rekstrarfólk ásamt nokkrum öðrum, enda veitir ekki af 6–8 í mannskapinn þegar reka þarf meira en 100 lausum hestum réttar leiðir. Allmikið gekk á marga dagana og sjaldnast voru rólegheit. Oftast var farið á harðaspretti. En það var yfirleitt alltaf ótrúlega gaman.

Talsverður hópur erlends fólks hefur ákaflega gaman af þessum hestaferðum og njóta góðs aðstoðarfólks. Merkilegt reyndar að erlendir karlmenn eru þar sárafáir. Konurnar eru langflestar og eru yfirleitt mjög ánægðar, að minnsta kosti á Kili. Sumar reyndust engir viðvaningar og þótti mikið púður í að taka þátt í rekstrinum.

Ég var með Gauk, Prins, Storm og Breka. Þeir stóðu sig glimrandi vel, og merkilegast var að finna fjörið í nýliðanum Breka, sem ég hafði ekki búist við. Nær að segja að hann hafi flogið en hlaupið. Jónas var með Loga, Djarf, Létti og Dug. Djarfur fékk bólgu í fót og varð því að láta hlaupin duga og virtist ekki verða illt af. Hinir voru góðir að vanda, og Dugur sannaði dugnað sinn. Við erum lánsöm með hestana okkar.

Við gistum á nokkrum stöðum auk Kjóastöðum, í Árbúðum, Hveravöllum, Ströngukvísl, Galtará og Lauftúni. Slökuðum einn dag eftir fyrri vikuna og fórum vítt og breytt um Skagafjörðinn, þ.e.a.s. við, en ekki hrossin, sem kunnu vel að meta að geta hvílt sig eftir hlaupin og búið sig undir næsta sprett.

Þessi ágæta hestaferð milli Langjökuls og Hofsjökuls, milli stórbrotinna fjalla og hamra, lækjardraga og áa, stundum ógnandi. Allt kallar á hesta og menn. Þetta er upplifun, og sú upplifun gleymist ekki.

“Sæl eru þau hjörtu er sigri ná

og svala í náttúrunni innri þrá”

segir Hákon Aðalsteinsson í ljóði sínu um Fjallgönguna. Hann hefur rétt að mæla.