Heitur hnúkaþeyr á Norðurlandi eystra

Þá er ég komin á Fornuströndina eftir heilan mánuð á Norðurlandi eystra. Þar áttum við mörg góða daga í Varmahlíðinni okkar í Reykjadalnum. Var mikið gaman að koma á þessar slóðir, en þangað hafði ég ekki komist allar götur síðan í júní 2010.

Við Jónas dvöldum á þessum góða stað allan ágúst. Kristján, Katrín og Kári voru með okkur fyrstu vikuna, og nokkru síðar komu Dóra, Sindri og Breki og voru tvívegis með okkur, þurftu að sinna ýmsu milli heimsókna.

Þarna var frábært að vera eins og alltaf. Við nutum sólar og hlýinda dögum saman. Hitinn var oftsinnis um 20-25 stig, en hitinn var stundum meiri. Einn daginn var mestur hitinn 27 stig. Allmarga daga blés vindurinn ákaft að sunnan, og ekki skorti hitann þá daga. Þetta kallast hnjúkaþeyr.

Eins og venjulega fórum við að skoða okkur um nokkuð víða. Vorum reyndar meira heima í Varmahlíð, enda margt þar við að vera. Við vorum mikið úti við í góða veðrinu og ekki laust við að við urðum bærilega brún og hressileg.

Sundlaugin í Reykjadal er sérlega góð, vel gerð, falleg, hreinleg og vel um hana séð. Við Jónas syntum daglega á morgnana og kunnum vel að meta laugina. Potturinn á túninu við Varmahlíð er minna notaður eftir að nýja sundlaugin kom til, en sum okkar kunna enn vel að meta pottinn góða, sem mamma blessuð lét setja niður á túninu.

Í Varmahlíð truflar ekki hávaði frá útvarpi eða sjónvarpi. Enginn kvartar yfir því. Þar er meira setið yfir bókum og margt annað til afþreyingar. Til dæmis stunduðum við Dóra, Sindri og Breki spilamennsku á kvöldin. Spiluðum aðallega Kana og Tíu og skemmtum okkur konunglega.

Og ekki má gleyma fuglunum sem vöktu okkur snemma á morgnana, glaðir í bragði. Þrestir, maríuerlur, þúfutittlingar og gæsir létu mikið til sín sjást og heyra. Hrossagaukar flugu upp snögglega að vanda, en furðu lítið heyrðist í lóum, spóum og stelkum. Himbrima sá ég ekki, en hann lét eitt kvöldið til sín heyra með sín langdregnu vein og köll. Það var mikil músík.

Því miður komst ég aðeins tvisvar í berjamó. Beið spennt eftir að komast í góðan mó hjá Fremstafelli, en kuldinn síðustu dagana kom í veg fyrir það. Það örlaði á frosti um nætur og snjórinn þakti fjallstoppana.

Hópur þrasta lét morgunkulið ekkert á sig fá. Þeir gæddu sér á rifsberjum og sólberjum kringum Varmahlíð, yfir sig ánægðir. Gaman að fylgjast með þeim. Og eru núna sjálfsagt farnir að éta reyniberin.

Reykjadalurinn kvaddi okkur í ágústlok með ótrúlegri fegurð. Ég er farin að hlakka til að koma aftur í Varmahlíð í júní 2013!