JÚLÍDAGAR 2012
8.7. SUNNUDAGUR
Hlýtt og gott veður. Mestur hiti 15°. Síðla dags kom rigning. Sindri var svo heppinn að vera búinn að slá lóðina. Nýja sláttuvélin munar öllu.
Í dag fór ég á hátíðarsamkomu á Alþingi ásamt fjölda kvenna sem setið hafa á Alþingi. Tilefnið er að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi árið 1922 og sat til 1930. Ásta R. Jóhannesdóttir forseti Alþingis ávarpaði konurnar, Kristín Ástgeirsdóttir flutti skemmtilegt erindi um æviskeið Ingibjargar og þá einkun um reynslu hennar sem þingkona í hópi karlanna, Helga Guðrún Jónasdóttir flutti einnig erindi, og Margrét Pálmadóttir stjórnaði Kvennakórnum Vox feminae, sem söng nokkur lög. Að því loknu biðu okkar síðan veitingar, og var gaman að hitta konurnar, sem ég þekki margar frá fyrri tíð.
9.7. MÁNUDAGINN
Veðrið var í rauninni gott í dag þrátt fyrir hvassviðri. Sjórinn er úfur og sjófuglarnir virðast skemmta sér við slíkar aðstæður. Sólin skein glatt í dag og hvassa veðrið var hlýtt. Mestur hiti mældist 15°.
10.7. ÞRIÐJUDAGUR
Enn skín sólin og himinninn heiðríkur frá morgni til kvölds. Dálítið hvasst, en hlýtt. Mestur hiti mældist 16°. Og kvöldið er oft svo ótrúlega fallegt. Dýrðin, dýrðin, eins og blessuð lóan segir.
11.7. MIÐVIKUDAGUR
Veðurstofan fullyrðir að mestur hiti í dag hafi verið 16°. Ekki get ég neitað því, en það er svo hlýtt flest alla daga að ég hef undrað mig á því að ekki væri sagður meiri hiti.
Pétur og Marcela buðu okkur til kvöldmatar, og fengum við aldeilis góðan kvöldverð eins og búast mátti við. Ekki var síður gaman að sjá hvernig þau eru búin að hreiðra um sig. Þau eru fjarska ánægð með íbúðina og hafa mjög gaman af að koma sér fyrir. Og nú er væntanlegt barn eftir 6-7 mánuði. Ekkert er merkilegra en að sjá og kynnast ungu barni. Við höfum verið svo lánsöm með öll þessi fallegu og vel gerðu barnabörn okkar, sem fagna má á degi hverjum. Við hlökkum til að sjá nýunda barnabarnið. Lífið getur sannarlega verið skemmtilegt.
12.7. FIMMTUDAGUR
Hlýtt og gott veður. Mestur hiti mældist 16°. Síðla dags hvarf sólin fyrir þéttum skýjum. Það stóð ekki lengi, himinninn varð heiður og sólin skein fram eftir.
Var orðin áhyggjufull yfir stóru hvönnunum, sem ég óttaðist að gerðu óskunda, en vissi ekki hvort þetta væri bjarnakló, tröllahvönn eða hestahvönn. Steinunn Árnadóttir garðyrkjustjóri var svo væn að líta á hvannirnar og sagði bjarnaklóna ekki hjá okkur og óþarfi að hafa of miklar áhyggjur. Fegin er ég.
13.7. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður í dag, en sólin skein ekki. Mestur hiti mældist 16°.
Snælda og Snepla, kisurnar þeirra Sindra og Breka, áttu erfiðan dag. Þær voru geldar á Dýraspíalanum í Víðidalnum í morgum. Það stóð alltaf til, því ekki væri hægt að hlaða upp fleiri kisum. Þær voru ósköp vesælar litlu krílin, þegar þær komu heim, varla gangfærar, ringlaðar, og listarlausar. Þær verða orðnar brattari á morgun.
14.7. LAUGARDAGUR
Ágætt hlýtt veður. Mestur hiti mældist 13°.
Snælda og Snepla jafna sig óðum. Þær háma í sig matinn sinn og svolgra í sig vatn. Þær verða reyndar að bíða ögn eftir að komast út, en þetta er allt á góðri leið. Sindri og Breki eru á staðnum og gæta vel að kisunum sínum.