Hamfarir á Norðurlandi

SEPTEMBERDAGAR 2012

8.9. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag. Mestur hiti 9°.

Á Bakkatjörn úir og grúir af máfum. Ekki hef ég á móti þeim, en því miður fækkar þar með fuglum af ýmsu tagi. Sá þar fáeinar gæsir og nokkrar endur í morgun, en máfarnir voru miklu fleiri. Vonandi gengur fuglunum betur að sinna ungunum sínum á Bakkatjörninni næsta sumar.

9.9. SUNNUDAGUR

Bærilega tók veðrið á móti okkur í morgun. En um miðjan daginn tóku rigningar við, einmitt þegar við Jónas vorum komin á Kaldbak til að fylgja tveimur hestum í jörðina. Katrín og Kristján komu skömmu síðar.

Það er alltaf erfitt að sjá á eftir okkar góðu hestum, en ég hugga mig við að það gerir maður einmitt þeirra vegna svo að þeim líði ekki illa þegar ellin hefur tekið völd. Nú var orðið ljóst að tveir hestanna okkar ættu ekki góða daga næsta vetur. Kári var orðinn gamall og þreyttur, 26 ára. Garpur var mikill skeiðgarpur á sinni tíð, en virtist ekki njóta lífsins þegar hann var ekki lengur á skeiðinu. Hann var orðinn 22 ára. Katrín kann að hjálpa blessuðum hestunum inn í eilífðina fljótt og án þjáninga.

10.9. MÁNUDAGUR

Hvasst var í allan dag, en ekki bar á rigningu, hvað þá snjó. Við getum ekki kvartað hér á höfuðborgarsvæðinu, en versta verðið var fyrir norðan og er enn. Staurar brotnuðu, rafmagnslínur slitnuðu og víða var rafmagnslaust. Þar snjóar mikið og hætt við að bændur verði fyrir miklum skaða.

11.9. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var ágætt hjá okkur í dag. Þurrt og mestur hiti 8°.

Veðrið hefur vissulega skánað eitthvað Norðanlands, en enn er erfið færð og víða ófærð. Ekki er heldur alls staðar búið að lagfæra rafmagnsleysið, sem er mjög erfitt alls staðar. Ástandið er mun verra en í fyrstu var talið á Norðausturlandi og engan veginn ljóst hversu mikið sauðfé hefur tapast. Virðist sem umfang vandans sé mun meira en áður var talið. Enn er unnið hörðum höndum við að bjarga fé undan snjó með aðstoð manna í Björgunarsveitunum.

12.9. MIÐVIKUDAGUR

Talsvert hefur rignt í dag, en reyndar mældist mesti hiti 9°.

Enn er unnið að því að grafa fé úr fönn á mörgum stöðum fyrir norðan. Margir leggja sitt af mörkum, Björgunarsveitir, Hjálparsveitir skáta og fjölmargir sjálfboðaliðar.

13.9. FIMMTUDAGUR

Það rigndi hressilega í morgun og öðru hverju í dag.

Ég fylgist oft á dag með upplýsingunum í http://www.641.is/. Þar eru sagðar fréttir úr Þingeyjarsýslu, og þessa dagana er sagt frá hvernig gengur að bjarga fénu. Fólk er orðið afar þreytt og vonlítið að það geti bjargað nema litlum hluta fjárins. Rafmagn er nú víðast komið í notkun, en mikil vinna eftir við lagfæringar. Tré hafa farið illa víða og girðingar eru ónýtar á morgum stöðum. Þetta er skelfilegt ástand.

14.9. FÖSTUDAGUR

Enn rignir hann hér í dag, en hitinn mældist mestur 10°. Vonandi fer að batna verulega Norðanlands.