Moli

Ég missti lítinn vin í gærkvöldi. Ekki bara ég, heldur öll fjölskyldan. Þessi vinur hét Moli. Silkiterrier, tæplega þriggja ára, fallegur og yndislega mjúkur. Hann var einkar notalegur og kúrði gjarna hjá mér þegar ég lagði mig. Dóra mín átti hann, en við tókum hann að okkur fyrir ári þegar hún fór til náms í Flórída.

Moli var algjör orkubolti, var ótrúlega snöggur í hreyfingum, hoppaði margfalda hæð sína eftir dóti þegar við lékum við hann og vildi helst hlaupa um eins og hvirfilvindur. Við gátum auðvitað ekki leyft honum að hlaupa frjáls um hér á Seltjarnarnesi með götur og bílaumferð á alla vegu. Þegar hann komst í sveitina var hann hins vegar í essinu sínu að fá að hlaupa um frjáls og elta nefið sitt um hæðir og hóla.

Moli fékk vissulega mikla hreyfingu þótt hann yrði að vera bundinn í ól hér í þéttbýlinu. Þeir Jónas fóru í langa morgungöngu nánast hvern dag og ég fór með hann í margar ferðir um Valhúsahæð og sjávarbakkana í vondu sem góðu veðri. Hann gat líka verið hér innan garðveggja og haft sína hentisemi þar, leikið sér með fótbolta og stolist til að grafa svolítið í blómabeðin.

En Moli litli elskaði frelsið og langaði alltaf að hlaupa um óhindraður. Hann var furðu sterkur þessi litli orkubolti og við þurftum að halda fast í ólina hans í göngutúrum. Enn frekar þurfti að gæta þess vel að hann slyppi ekki út þegar gengið var um útidyrnar. Því miður brustu stundum allar varúðarreglur og oft skall hurð nærri hælum.

Í gærkvöldi gerðist það sem við höfðum lengi óttast. Moli sá dyragætt opnast og skaust eins og eldibrandur út í frelsið. Það varð honum dýrkeypt. Við hlupum strax þrjú á eftir honum, en í þetta sinn tókst ekki að afstýra slysi. Moli varð fyrir bíl á Norðurströndinni og dó í fanginu á mér á leiðinni á Dýraspítalann. Litli orkuboltinn okkar galt fyrir frelsisþrána með lífi sínu.

Hér ríkir því sorg og söknuður. Sindri og Breki áttu bágt með að skilja og meðtaka vonsku heimsins, en eftir að hafa fengið tölvupóst frá mömmu í Flórída hugga þeir sig við að líklega hafi Moli bara átt að eiga þennan tíma með okkur og núna geti hann hlaupið frjáls um eins og eldibrandur þar sem engir bílar eru fyrir honum. Við fundum líka lítinn gamlan bangsa, gulan og brúnan eins og Moli var, sá hefur nú fengið nafnið Moli, og Breki er sannfærður um að sálin hans Mola sé komin í þennan bangsa. Barnshugurinn geymir margar dýrmætar lausnir.

Ruddalegt rask í þjóðgarði

“Rask í Þingvallaþjóðgarði” segir á forsíðu 24 stunda í dag og meðfylgjandi mynd sýnir ekki beint snyrtimennsku eða virðingu við þjóðgarðinn. Í fréttinni segir m.a. “Mikið rask er nú vegna framkvæmda á vegum eins sumarhúsaeigandans á vatnsbakkanum innan þjóðgarðsins, rétt sunnan við Valhöll og Þingvallabæinn. Þar hefur m.a. verið sprengdur stallur í bergið við vatnsbakkann.”

Þetta er auðvitað vont mál og lýsandi dæmi um frekju og tillitsleysi þess sem leyfir sér að haga sér á þennan hátt í þjóðgarðinum á Þingvöllum, einum helgasta stað landsins. Sigurður Oddsson þjóðgarðsvörður segir það stefnu Þingvallanefndar að fækka sumarhúsum í þjóðgarðinum, en nefndina skorti fé til að fylgja stefnunni eftir. Það er örugglega satt og rétt, en meiri undrun vekur að nefndin hafi ekki ráð til að stöðva framkvæmdir af því tagi sem lýst er í fréttinni.

Ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum voru sett fyrir tæpum 4 árum, þ.e. 1. júní 2004. Þar stendur m.a. eftirfarandi í 5.grein:

“Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar og tekur bann þetta m.a. til húsabygginga, vegagerðar, lagningar raf-og símalína, borunar eftir vatni, töku jarðefna og vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmda. Þingvallanefnd er heimilt að binda samþykki á framkvæmdum innan þjóðgarðsins þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg vegna friðunar samkvæmt lögum þessum.”

Ég sé ekki betur en að texti 5. greinar geri Þingvallanefnd kleift að koma í veg fyrir spjöll á borð við þau sem nú er verið að vinna í þjóðgarðinum. Sigurður Oddsson gefur hins vegar til kynna að vandi Þingvallanefndar sé peningaleysi, hún þurfi meira fé á fjárlögum til að geta keypt upp sumarhús innan þjóðgarðsins. Vissulega þarf að vinna markvisst að því máli, en ekki er síður brýnt að halda í hemilinn á framkvæmdamönnum sem bera ekki skynbragð á söguleg og náttúruleg verðmæti og telja sig geta gengið um helgasta reit þjóðarinnar eins og sína eigin prívat eign.

Þingvallanefndin er ekki vandanum vaxin að láta slíkt framferði viðgangast í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

Svo dýr voru þau orð

Bill Clinton ku hafa hellt úr skálum visku sinnar vítt og breitt um heiminn allar götur síðan hann var hæstráðandi í Hvíta húsinu. Ekki var það þó ókeypis fyrir þá sem á hlýddu því hann mun hafa fengið greitt fyrir viskuhellinginn 3.8 milljarða króna á síðustu 8 árum og þar með lagt drýgstan hlut allra tekna til bús þeirra Clintonhjóna á þeim tíma. Þetta upplýsir Morgunblaðið í dag og ekki ástæða til að rengja það. Því miður fylgja ekki upplýsingar um innihald þessa mikla ræðuflóðs, en það hlýtur að vera stórmerkilegt úr því það er talið svo mikils virði.

Bandarískur blaðamaður spurði mig eitt sinn hvað ég ætlaði að taka mér fyrir hendur þegar ég hætti á þingi og þótti ég greinilega harla óforsjál að vera ekki með það á hreinu. Þú gætir áreiðanlega haft nóg að gera við að ferðast um heiminn og halda fyrirlestra, sagði hann. Ég tók þessu sem brandara, en svo kynntist ég svolitlum anga af þess konar atvinnustarfsemi, þótt ekki jafnaðist það á við framtak fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Kvennalistinn vakti á sínum tíma gríðarlega athygli og forvitni víða um lönd og bárust okkur boðin í hrönnum um að senda fulltrúa á ráðstefnur og fundi til að kynna þetta fyrirbæri. Stórfenglegasta boðið kom frá kvennasamtökum í Minnisota, World Wide Women, sem óskuðu eftir að fá til sín 4 konur til að ferðast um ríkið í hálfan mánuð og segja frá starfi Kvennalistans á Íslandi. Slíku tilboði var náttúrulega ekki hægt að hafna og ég var svo lánsöm að vera meðal þeirra útvöldu.

Þetta var heilmikið ferðalag og sífellt gist á nýjum og nýjum stöðum. Oftast vorum við tvær og tvær saman, en stundum allar fjórar á stærstu fundunum. Við heimsóttum framhaldsskóla og háskóla, ráðstefnur og fundi af öllum stærðum og gerðum, sögðum frá og svöruðum spurningum. Þetta var slík rússíbanareið að a.m.k. ég gaf mér ekki tíma til að velta fyrir mér hvernig þessi samtök, sem virtust reyndar ekki fjölmenn né umfangsmikil, færu að því að fjármagna þetta allt saman.

Að ferðalokum buðu þessar yndislegu konur okkur að borða á litlum vinalegum stað í Minneappolis og var glatt á hjalla yfir vel heppnaðri aðgerð. Ekki einasta voru þær hæstánægðar með hvernig til tókst með kynningu á kvenfrelsisbaráttunni á Íslandi, heldur kom í ljós að verkefnið hafði skilað þó nokkrum hagnaði. Þær höfðu sem sagt tekið greiðslu fyrir ræðuhöldin okkar úti um borg og bý. Það var nýtt fyrir okkur sem vorum því vanastar að líta á það sem skyldu eða jafnvel heiður að koma fram þar sem við vorum beðnar.

Þessi merkilega reynsla varð þó ekki til þess að ég hellti mér út í fyrirlestraferðalög um heiminn þegar þingmennskunni lauk, enda hætt við að fjölskyldubuddan hefði ekki fitnað á borð við Clintonsjóðinn.

Nú veit ég ekki hvort mörg dæmi eru um íslenska fyrirlesara sem drýgt geta tekjur sínar á þennan hátt. Maður heyrir helst af ræðuhöldum Ólafs Ragnars í útlöndum, kannski fær hann borgað fyrir þau meira en hótel og veislumat. Hvað vitum við um það? Bill Clinton er hins vegar örugglega ekkert einsdæmi í Bandaríkjunum. En að hagnaður þeirrar vinnu teljist í milljörðum á nokkrum árum er athyglisvert. Það hvarflar svona að manni hvort hann taki alltaf við greiðslunni með góðri samvisku.

“Þeir hafa vitið sem verja það”

Prins Kraflarsson verður seint talinn til liprustu gæðinga, en hann er duglegur ferðahestur. Ég puða við að liðka hann nánast daglega um þessar mundir, en gengur ekki of vel. Við fórum enn einn túrinn í gær, fyrst nokkra hringi kringum minnsta gerðið á svæðinu og brugðum okkur svo í sæmilega rösklegan reiðtúr, svokallaðan trippahring.

Ég hleypti Prinsinum á stökk sem oft hefur gefist vel til að liðka sporin, en þá urðum við fyrir því óláni að vinstri ístaðsólin slitnaði. Væntanlega hefði ég hangið á baki ef við hefðum ekki verið á harðastökki, en raunin varð að ég lá eftir í vegarkantinum þegar Prinsinn hljóp heim að húsi með flaksandi hnakkinn.

Þetta var reyndar ansi óþægileg bylta sem bitnaði á ýmsum pörtum líkamans. Notkun reiðhjálms sannaði hins vegar rækilega gildi sitt. Ég man ekki einu sinni til þess að hafa rekið hausinn í harða götuna, en brotinn og beyglaður hjálmurinn talar sínu máli.

Rifjast nú upp fyrir mér tilraunir mínar forðum daga á Alþingi til að fá samþykkt lög um hjálmaskyldu. Nokkrir þingmenn studdu það mál, en aldrei fékkst það afgreitt. Málið var sent til umsagnar og nokkuð rætt í fjölmiðlum. Sérkennilegast þóttu mér viðbrögð Kristins Guðnasonar á Skarði, áhrifamanns í félagasamtökum hestamanna um árabil, sem hæddist að tillögunni og spurði hvort lögreglan ætti að vera á sprettinum um fjöll og firnindi til að tryggja að menn væru með hjálm á hausnum.

Lög um hjálmanotkun í reiðmennsku hafa ekki litið dagsins ljós og enn sjást alltof margir með óvarið höfuð, ekki síst tamningamenn sem sumir telja sig líklega svo klára að þeir þurfi ekki á slíku að halda. En “þeir hafa vitið sem verja það”, segir málshátturinn og mun ég nú kaupa nýjan hjálm og glaðbeitt halda áfram að verja það sem eftir er í mínum kolli.

Varmahlíð bjargað?

Í dag er ástæða til að fagna. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur úrskurðað í kærumáli okkar systra vegna breytingar á deiliskipulagi í landi Laugaskóla sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti sl. sumar og virti gjörsamlega að vettugi allar athugasemdir okkar systkina í Varmahlíð. Ég lýsti málavöxtum og tilraunum til að gæta réttar okkar í tveimur pistlum í þessari minnisbók 5. 7. 2007 undir eftirfarandi fyrirsögnum: “Sótt að Varmahlíð” og “Bitur reynsla í Reykjadal”.

Afgreiðsla sveitarstjórnar í júní 2007 var mikið áfall. Við reyndumst þó eiga hauka í horni þar sem eru þau Björn Þ. Guðmundsson prófessor og Þórunn Bragadóttir frænka okkar. Björn benti okkur á leið til að stöðva málið og kæra til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og tók að sér að fylgja málinu eftir. Nefndin kvað upp úrskurð sinn í dag á þann veg að samþykkt sveitarstjórnar skuli felld úr gildi.

Úrskurðurinn er mikið fagnaðarefni. Málinu er þó ekki þar með lokið. Yfirvöld Laugaskóla og sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gætu vissulega reynt að gera aðra tilraun til að breyta deiliskipulaginu og koma fyrir húsum framan við Varmahlíð.Við munum nú leita leiða til að tryggja eftir megni að það gerist ekki.

Hér fer á eftir úrskurður nefndarinnar:

65/2007 Laugar

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Björn Þ. Guðmundsson hdl., f.h. S og K, eigenda 2/3 hluta fasteignarinnar Varmahlíðar í Reykjadal, Þingeyjarsveit, samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytingu á deiliskipulagi hluta lands Laugaskóla í Reykjadal.

Þriðji eigandi Varmahlíðar, H, bróðir kærenda, leggst ekki gegn kæru þessari. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar. Þá setja og kærendur fram kröfu um greiðslu málskostnaðar.

Í kæru kemur fram að hún sé sett fram til að rjúfa kærufrest og frekari rök boðuð síðar.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til lögmanns kærenda, dags. 30. júlí 2007, var bent á að svo virtist sem hin kærða ákvörðun hefði ekki tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og væri því ekki kæranleg til nefndarinnar.

Með bréfi lögmanns kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2007, óskaði hann þess að litið yrði á erindi hans sem nýja kæru þar sem nú lægi fyrir að umrædd ákvörðun hefði verið birt hinn 3. ágúst 2007. Var þess jafnframt farið á leit að kærumálið yrði ekki tekið fyrir fyrr en frekari greinargerð bærist nefndinni. Barst úrskurðarnefndinni erindi frá lögmanninum hinn 27. ágúst 2007 þar sem sett voru fram rök kærenda í málinu.

Ekki hafa verið hafnar neinar framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hefur komið fram að þær séu yfirvofandi. Hafa því ekki verið skilyrði til að úrskurða til bráðabirgða um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málavextir:

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Þingeyjarsveitar hinn 29. mars 2007 var eftirfarandi fært til bókar í tilefni af tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem gerð hafði verið á árinu 2001 fyrir hluta af landi Laugaskóla í Reykjadal: “Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum. Erindið er samþykkt eins og það kemur fyrir á teikningu … Sá fyrirvari er gerður á samþykkt erindisins að sveitarfélagið sjái ekki um gatnagerð á svæðinu nema sérstaklega sé um það samið.” Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar hinn 12. apríl 2007 var m.a. eftirfarandi fært til bókar: “Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 29. mars. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu nefndarinnar á liðum 1 til 3 og felur sveitarstjóra að afla gagna, þar sem það á við, og auglýsa … breytingar á deiliskipulagi … við Framhaldsskólann á Laugum í samræmi við fyrirmæli í lögum.” Í auglýsingu er birtist um tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla sagði m.a: “Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar, samþykkti á fundi sínum þann 12. apríl 2007, að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum. Um er að ræða breytingu þar sem tvær nýjar lóðir fyrir einbýlishús (B8 og B9) eru skipulagðar.” Gerðu kærendur athugasemdir við tillöguna er aðallega lutu að grenndarsjónarmiðum.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 18. júní 2007 var eftirfarandi fært til bókar:

“Breyting á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum. Breytingartillagan var send til birtingar í Lögbirtingarblaðinu 25. apríl (útgáfud. 30. apríl). Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl og í Hlaupastelpunni 2. maí. Frestur til að gera athugasemdir rann út 12. júní og barst ein athugasemd frá eigendum Varmahlíðar … Athugasemdin gengur út á að verði tvær nýjar lóðir skipulagðar á því svæði sem um ræðir muni það rýra verulega gildi lóðar og húss Varmahlíðar sem hefur staðið í rúm 70 ár. Þá er rætt um að svipmót byggðarinnar muni gjörbreytast með húsbyggingum á umræddu svæði og útsýni frá Varmahlíð muni skerðast. Þá nefna eigendurnir að fullyrt hafi verið þegar húsin merkt B5 og B6 voru byggð að ekki yrði byggt ofar í landi Laugaskóla.

Vandséð er að gildi lóðar og húss Varmahlíðar rýrni við það að skipulagðar verði tvær nýjar lóðir og byggð á þeim einlyft hús, þar sem gólfkóti verður um 8 m lægri en í Varmahlíð. Þá er byggingareitur a.m.k. 8 m frá lóðarmörkum. Ekki verður hjá því komist að bygging tveggja einbýlishúsa breyti ásýnd og umhverfi. Ugglaust mun útsýni skerðast eitthvað frá því sem nú er úr Varmahlíð, en slíkt hefur gerst á umliðnum árum m.a. með skógrækt. … Nefndin mælist til að sveitarstjórn staðfesti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta og auglýsi hana í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni athugun Skipulagsstofnunar.”

Á fundi sveitarstjórnar hinn 21. júní 2007 var framangreind tillaga umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkt með eftirfarandi bókun: “Sveitarstjórn samþykkir tillöguna að breytingu á deiliskipulagi við Framhaldsskólann á Laugum samhljóða og felur sveitarstjóra að sjá um gildistöku hennar.”

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 5. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi:

“Vísað er til erindis Þingeyjarsveitar, dags. 22. júní 2007, þar sem breyting á deiliskipulagi í landi Laugaskóla, Reykjadal, er send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn 21. júní 2007 ásamt umsögn sveitastjóra um framkomnar athugasemdir, dags. 10. júní. Málsmeðferð var skv. 1. mgr. 26 gr. skipulags- og byggingarlaga.

Breytingin felst í að bætt er við tveimur nýjum lóðum fyrir einbýlishús. Ekki er til svæðis- eða aðalskipulag fyrir svæðið.

Deiliskipulagsbreytingin er sett fram á uppdrætti í mkv. 1:1000, dags. 8. mars 2007, og er greinargerð á uppdrætti.

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og telur að áður en birt verði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda þurfi sveitarstjórn að gera grein fyrir því hvernig gert er ráð fyrir þróun á Laugaskólasvæðinu í tillögu að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar. Ljóst þarf að vera að deiliskipulag þetta sé í samræmi við stefnu aðalskipulagsins sem nú er í vinnslu. Stofnunin bendir jafnframt á að leita þarf umsagnar Fornleifaverndar varðandi fornleifar og einnig vantar yfirlitsmynd eða útdrátt úr landakorti til glöggvunar á staðsetningu svæðisins.”

Í bréfi sveitarstjóra til Skipulagsstofnunar, dags. 30. júlí 2007, segir m.a. eftirfarandi:

“Eins og fram kemur í bréfi yðar er unnið að gerð aðalskipulags í Þingeyjarsveit. Af ýmsum ástæðum hefur vinnan tekið lengri tíma en vonir stóðu til. Eigi að síður er ljóst að á Laugaskólasvæðinu verða stofnanir (skóla- og íþróttamannvirki) sem og íbúðarhús eins og eru á svæðinu nú. Á því svæði sem breytingin á deiliskipulaginu tekur til, hljóta að verða íbúðarhús enda íbúðarhús allt um kring.

Sveitarstjórn hefur í raun, þ.e. við deiliskipulagsgerð árið 2000/2001 markað þá stefnu og núverandi sveitarstjórn einnig með samþykkt þeirrar breytingar á deiliskipulaginu sem um ræðir.”

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjóra, dags. 10. ágúst 2007, segir m.a. eftirfarandi:

“Með bréfi Þingeyjarsveitar, dags. 30. júlí 2007, er gerð grein fyrir ofangreindum athugasemdum stofnunarinnar og gerir Skipulagsstofnun ráð fyrir því að mörkuð verði stefna um framtíð Laugaskólasvæðisins í aðalskipulagi því sem nú er í vinnslu.

Skipulagsstofnun hefur yfirfarið framlögð gögn og gerir ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.”

Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar fyrir hluta úr landi Laugaskóla birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. ágúst 2007.

Skutu kærendur ákvörðuninni um deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:

Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekki liggi fyrir aðalskipulag Þingeyjarsveitar og þ.m.t. þess svæðis er hin kærða ákvörðun taki til. Deiliskipulagsbreytingin sé það veruleg að hún sé aðalskipulagsskyld og raunar viðurkenni sveitarstjórn að svo sé með tilvísun til 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Þá sé bent á að sveitarstjórn hafi ekki sent kærendum svör við athugasemdum þeim er settar hafi verið fram á auglýsingartíma tillögunnar, sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Málsrök Þingeyjarsveitar:

Af hálfu sveitarstjórnar er látið nægja að vísa í fyrirliggjandi gögn í málinu.

Niðurstaða:

Í máli þessu er deilt um gildi breytingar á deiliskipulagi er sett var á árinu 2001 fyrir hluta úr landi Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit. Felur breytingin það í sér að aukið er við áður deiliskipulagt svæði og tveimur byggingarlóðum fyrir einbýlishús komið fyrir við suðausturhorn þess, utan marka hins fyrra deiliskipulags. Aðkomuvegur að þessum lóðum liggur við suðausturhorn fyrra skipulagssvæðis, og að hluta til innan marka þess, en engar aðrar breytingar er að sjá innan marka fyrra skipulags. Fram kom í auglýsingu sveitarstjórnar á tillögu að umræddri skipulagsbreytingu, að málsmeðferð væri í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar segir að ákveði sveitarstjórn að breyta deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Sveitarstjórn getur þó, samkvæmt 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með skipulags- og byggingarlögum, auglýst tillögu að deiliskipulagi að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag.

Fyrir liggur að hvo

rki er til staðar staðfest aðalskipulag Þingeyjarsveitar né svæðisskipulag umrædds svæðis. Ekki voru því skilyrði til þess að gera deiliskipulag með stoð í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga fyrir það svæði, sem aukið var við áður deiliskipulagt svæði, með hinni kærðu ákvörðun. Ekki hefur heldur komið fram að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða skipulags- og byggingarlaga við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Verður og að telja að afmörkun hins nýja deiliskipulagssvæðis hafi ekki verið í samræmi við ákvæði um deiliskipulag í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Loks verður ekki séð að athugasemdum kærenda hafi verið svarað af hálfu sveitarstjórnar svo sem áskilið er í 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar áfátt og að auki skorti hana viðhlítandi lagastoð. Verður hún því felld úr gildi.

Kærendur hafa í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum. Verður ekki talið að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð. Verður kröfu kærenda um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Samþykkt sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 21. júní 2007 um breytt deiliskipulag hluta lands Laugaskóla í Reykjadal, Þingeyjarsveit, er felld úr gildi.

Kröfu kærenda um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Alltaf á móti!

“Það er sama hversu hlutirnir verða vel gerðir, Vinstri grænir munu alltaf verða á móti. Þetta er höggvið í stein: Vinstri grænir munu segja nei. Þeir munu ekki segja pass, þeir munu segja nei við öllum breytingum á rekstrarformi. Þeir munu fela sig á bak við þetta: Það er ekki nægilega mikið samráð, þetta er ekki nægilega vel undirbúið. Þetta er alltaf það sama.” Þannig mælti menntamálaráðherra í umræðum á Alþingi 5. mars sl. Málefnalegt? Ojæja.

Vinstri græn eru oft látin hafa það óþvegið við umfjöllun mála á Alþingi. Þau eru sífellt á verði gagnvart stefnumálum ríkisstjórnarinnar og ráðherrar finna rækilega fyrir því. Þeir vildu vafalaust fá meiri frið til að framkvæma sína stefnu og losna við að svara gagnrýni stjórnarandstöðu á sínar gjörðir.

Fyndnast er þó að lesa þá tegund gagnrýni í Morgunblaðinu á Vinstri græn sem felst í því að VG skuli ekki gagnrýna nógsamlega ráðherra Samfylkingarinnar. Vinstri græn láti þá vaða uppi í hverju málinu á fætur öðru, hlífi þeim í umhverfismálum, gagnrýni máttleysislega heimsóknaræði utanríkisráðherra og þar fram eftir götunum. Augljóslega eru Moggamenn hundfúlir með framgöngu Samfylkingarinnar og fá útrás gremju sinnar á Vinstri grænum sem þar eru í hlutverki Albaníu.

Þingmenn Vinstri grænna hafa frá upphafi rækt skyldur sínar ósvikið. Þeir hafa staðið vaktina og gert sitt til að fá málin skoðuð frá öllum hliðum. Þeir hafa lagt áherslu á málefnalega gagnrýni og umfjöllun, en vissulega oft verið nokkuð vægðarlausir í málflutningi.

Málflutningur Vinstri grænna fer augljóslega oft í taugarnar á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeir eiga stundum í vandræðum með að svara gagnrýni VG og enda ósjaldan með því að steyta hnefa og brýna raust og segja Vinstri græn alltaf á móti öllu. Nema hvað? Hugsjónir og stefnumál Vinstri grænna eiga sjaldan samleið með ríkisstjórn og stjórnarflokkum og ekki að undra þótt reynt sé að leiðrétta kúrsinn.

Það verður gaman að heyra í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í alvöru stjórnarandstöðu þegar Vinstri græn verða ráðandi afl í ríkisstjórn. Þá munu hlutverkin snúast við og sjálfstæðismenn væntanlega “alltaf á móti”.

Flugdrekahlauparinn

Ég fer sjaldan í bíó. Í gær sá ég þó frábæra kvikmynd, Flugdrekahlauparann. Og það rifjaðist upp fyrir mér að það er ekki galið að bregða sér í bíó síðdegis á virkum degi. Þá er lítil barátta um sætin, áhorfendur fáir og ekkert sem hindrar mann í að njóta myndarinnar.

Í þetta sinn voru áhorfendur 10 – 15 talsins. Ekki var okkur hlíft við hrútleiðinlegum auglýsingum og kynningum á væntanlegum myndum áður en aðalmyndin var sýnd. Hávaðinn er ferlegur meðan á þessum auglýsingum og kynningum stendur og það flögraði að mér að yfirgefa salinn. Loksins hófst þó sagan um flugdrekahlauparann í Kabúl.

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Khaled Hosseini. Bókin snart mig djúpt líkt og flesta sem lesa hana og ég hikaði satt að segja við að sjá myndina. Sagan er óvenjuleg og vel sögð. Hún bæði gleður og hryggir og situr lengi í huganum. Frásögnin er svo lifandi og örlög þeirra skipta lesandann máli. Ég óttaðist að kvikmyndatjaldið gæti ekki skilað sömu áhrifum.

Galdur kvikmyndarinnar var ekki sami og bókarinnar. Myndin er lengri en kvikmyndir yfirleitt eru. Þó vantaði ýmislegt í sögu Hosseinis. Það vantaði margt í makalausri uppbyggingu sögunnar og ótal atriði sem skiptu máli til skilnings. En meginatriði sögunnar komust til skila og engum óþarfa troðið inn í söguþráðinn. Ég naut myndarinnar. Var fegin hversu lítið bar á áhrifum bandarískrar kvikmyndahefðar.

Einhvers staðar las ég allharða gagnrýni á þessa kvikmynd. Hún endaði á ósk þess efnis að vonandi yrði ekki reynt að koma nýjustu sögu Hosseinis, Þúsund bjartar sólir, á kvikmyndatjaldið. Eftir þessa reynslu hef ég ekki áhyggjur af því.

Sögur Khaled Hosseinis eru ótrúlega magnaðar. Hann hlífir ekki lesandanum við skelfilegum aðstæðum og ótrúlegri grimmd. En hann leyfir okkur líka að kynnast góðu fólki og gleymir aldrei voninni.

Beðið eftir gæðaskopi

Af áralöngum vana horfi ég enn á Spaugstofuna og þrjóskast við að vonast eftir gæðaskopi. Þeir spaugfélagar eru bara svo ótrúlega misgóðir og reyndar því miður oftar lélegir en góðir nú orðið.

Ég held að mig misminni ekki að þeir hafi verið ólíkt betri fyrr á árum. Kannski eru þeir bara orðnir leiðir á verkefninu. Kannski nenna þeir ekki lengur að leggja sig fram. M.a.s. mistökin sem koma í lok þáttarins bera það með sér að það eru ekki einu sinni mistök, heldur eru þeir að búa til fíflagang sem sjaldnast er fyndinn. Stundum hvarflar að manni að þeir séu einir um að hlæja að vitleysunni.

Í nánast hverjum þætti sækir bjánahrollurinn að þegar Örn rekur við eða Pálmi mígur eða Karl Ágúst þarf hvatningu á klósettinu. Kannski eru slíkir kúk- og pissbrandarar ætlaðir börnum og unglingum, en ég efa stórlega að þeir falli í kramið hjá nokkrum. Líklega er staðreyndin einfaldlega sú að þeim sjálfum finnist þetta fyndið, svo hallærislegt sem það er.

Verst er að þeir virðast eiga bunka af “bröndurum” að grípa til í hallæri. Þessi innskot eru svo útjöskuð og leiðinleg að það er með ólíkindum. Í hvert sinn sem birtist enn eitt dæmið um “manninn á bak við..” þetta og hitt hugsar maður í örvæntingu hvort þessi bunki fari ekki að klárast. Atvinnuspaugarar ættu að vita hvenær nóg er komið.

Svo gerist það eitt og eitt kvöld að spaugfélagar bjóða upp á þessa líka fínu skemmtun í anda páskaþáttarins sællar minningar og þá er augljóst að þeir vanda sig og hafa gaman af því sem þeir gera. En það er því miður sjaldgæft.

Æ oftar kemur það fyrir að ég hugsa sem svo meðan ég horfi á Spaugstofuna að tímanum væri betur varið við annað. Enn er það þó svo að ég sest við skjáinn á laugardagskvöldi í þeirri von að nú komi góði þátturinn. Svei mér ef ég nenni því oftar.

Er velviljinn að súrna?

Yfirleitt er ég stolt og ánægð með að vera Íslendingur, en stundum skammast ég mín sárlega fyrir þjóðernið. Við erum svo lánsöm að hingað kemur fólk frá ýmsum löndum til að starfa hér um stundarsakir þegar á þarf að halda og er hagur beggja. Aðrir setjast að til frambúðar og festa hér rætur.

Almennt höfum við tekið innflytjendum vel, en nú virðist velviljinn tekinn að súrna í sumum. Alltof oft heyrum við fréttir af leiðinlegri og jafnvel háskalegri framkomu í garð nýrra Íslendinga. Oftast eru þar drukknir eða dópaðir karlar á ferð, en einnig heyrist af ungum kjánum sem telja sig eiga eitthvað sökótt við útlendinga. Og vont er til þess að vita að unglingar láti hafa sig í hreinan og kláran rasisma á Netinu.

Ég hef ekki ennþá kynnst vondu fólki úr hópi innflytjenda þótt sjálfsagt sé það innan um og saman við eins og í röðum innfæddra. En ég velti því nánast daglega fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk flytur hingað í frostið og snjóinn, rokið og rigninguna. Mig dauðlangar oft að vinda mér að fólki og spyrja það hvaðan það komi og hvers vegna það valdi Ísland.

Daglega hitti ég fólk af erlendu bergi hér á Seltjarnarnesi. Um daginn fór ég í Björnsbakarí á Nesinu og lenti á spjalli við Ítala. Ég hélt hann yrði kátur að heyra að ég væri nýkomin frá Ítalíu, himinsæl með skíðafæri og fegurð ítalskra Alpa, en hann hafði meiri áhuga á að standa sig við afgreiðsluna og gera sig skiljanlegan. Það gekk prýðilega þótt íslenskan væri ekki upp á marga fiska.

Í Hagkaupum handan götunnar er margt útlendinga. Nafnspjöld afgreiðslufólksins á kössunum sýna nánast eingöngu erlend nöfn og litarhátturinn er oftast dökkur. Allt er þetta fólk elskulegt og þægilegt og talar ágæta íslensku.

Í sundlauginni á Seltjarnarnesi er gott og glaðlegt starfsfólk, þar af a.m.k. þrír útlendingar. Ekki veit ég hvaðan þeir eru ættaðir, enda skiptir það engu í sjálfu sér, en mig dauðlangar oft að spyrja. Það eitt skiptir þó máli að þeir eru glaðværir og þægilegir.

Fólk af erlendu bergi gæti verið Íslendingum fyrirmyndir í þjónustustörfum. Hér er alltof algengt að Íslendingar séu áhugalitlir og stundum hrokafullir gagnvart viðskiptavinum og einnig reyndar sem viðskiptavinir, ætlast til alls af öðrum. Þá skortir þjónustulund. Við mættum líta í eigin barm og koma sómasamlega fram við nýja Íslendinga sem langflestir leggja sig fram við að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og vinna því vel.

Hestar komnir á hús

Loksins tókst okkur að ná í hestana. Við höfum ekki komist upp á Kaldbak síðan um miðjan janúar vegna ófærðar. Snjór var orðinn mikill og sums staðar nánast að kaffæra girðingar. Ásgeir fyrrum bóndi á Kaldbak, sem nú býr á Flúðum, þurfti að beita ýmsum ráðum til að koma heyi til hrossahópsins. Hann fékk aðstoð manna með stóra bíla og a.m.k. eitt sinn varð hann að fá aðstoð manna á vélsleðum. Hrossum er hins vegar meinilla við vélsleða og þegar þessi skrímsli birtust með trutti og látum tók hestastóðið strikið upp allar brekkur.

Fyrir nokkru gerði hellirigningu og minnkaði þá snjórinn til muna, vegurinn upp eftir varð fær venjulegum jeppum og m.a.s. með hestakerru í eftirdragi. Fórum við 21. febrúar í skínandi fallegu veðri og sóttum 3 hesta, Djarf, Garp og Storm. Allir eru þeir mjög hnjóskaðir og verða ekki reiðfærir næstu vikur, meðan þetta er að lagast. Aftur fórum við upp eftir í gær og sóttum þá Gauk, Létti og Prins. Fleiri getum við ekki tekið á hús í bili.

Nokkrir hestanna eru í gerði við braggann á Kaldbak og komast þar inn til að éta. Þar eru elstu hestarnir tveir, Kóngur og Stígur, trippi og meri frá Ævari. Þá bættum við tveimur frá okkur við í gær, þeim Loga og Prúði sem þurfa að geta komist í gott skjól ef illa viðrar. Álmur, Kári, Víkingur og Skrímnir virðast í ágætu standi og eru með stóðinu.

Þessi vetur hefur verið afleitur fyrir útigangshesta, miklar rigningar og hvassviðri á haustmánuðum, síðan frost og snjór. Eitt sinn fór frostið niður í 20 stig. Okkur var ekki rótt meðan veður voru sem verst. Nú er búið að koma öllum hestunum vel fyrir, dagarnir lengjast í sífellu og óhætt að fara að láta sig dreyma um hestaferð næsta sumars.