“Rask í Þingvallaþjóðgarði” segir á forsíðu 24 stunda í dag og meðfylgjandi mynd sýnir ekki beint snyrtimennsku eða virðingu við þjóðgarðinn. Í fréttinni segir m.a. “Mikið rask er nú vegna framkvæmda á vegum eins sumarhúsaeigandans á vatnsbakkanum innan þjóðgarðsins, rétt sunnan við Valhöll og Þingvallabæinn. Þar hefur m.a. verið sprengdur stallur í bergið við vatnsbakkann.”
Þetta er auðvitað vont mál og lýsandi dæmi um frekju og tillitsleysi þess sem leyfir sér að haga sér á þennan hátt í þjóðgarðinum á Þingvöllum, einum helgasta stað landsins. Sigurður Oddsson þjóðgarðsvörður segir það stefnu Þingvallanefndar að fækka sumarhúsum í þjóðgarðinum, en nefndina skorti fé til að fylgja stefnunni eftir. Það er örugglega satt og rétt, en meiri undrun vekur að nefndin hafi ekki ráð til að stöðva framkvæmdir af því tagi sem lýst er í fréttinni.
Ný lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum voru sett fyrir tæpum 4 árum, þ.e. 1. júní 2004. Þar stendur m.a. eftirfarandi í 5.grein:
“Óheimilt er að gera nokkurt jarðrask eða reisa mannvirki innan þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að fengnu samþykki Þingvallanefndar og tekur bann þetta m.a. til húsabygginga, vegagerðar, lagningar raf-og símalína, borunar eftir vatni, töku jarðefna og vinnslu auðlinda úr jörðu og ræktunarframkvæmda. Þingvallanefnd er heimilt að binda samþykki á framkvæmdum innan þjóðgarðsins þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg vegna friðunar samkvæmt lögum þessum.”
Ég sé ekki betur en að texti 5. greinar geri Þingvallanefnd kleift að koma í veg fyrir spjöll á borð við þau sem nú er verið að vinna í þjóðgarðinum. Sigurður Oddsson gefur hins vegar til kynna að vandi Þingvallanefndar sé peningaleysi, hún þurfi meira fé á fjárlögum til að geta keypt upp sumarhús innan þjóðgarðsins. Vissulega þarf að vinna markvisst að því máli, en ekki er síður brýnt að halda í hemilinn á framkvæmdamönnum sem bera ekki skynbragð á söguleg og náttúruleg verðmæti og telja sig geta gengið um helgasta reit þjóðarinnar eins og sína eigin prívat eign.
Þingvallanefndin er ekki vandanum vaxin að láta slíkt framferði viðgangast í þjóðgarðinum á Þingvöllum.