Yfirleitt er ég stolt og ánægð með að vera Íslendingur, en stundum skammast ég mín sárlega fyrir þjóðernið. Við erum svo lánsöm að hingað kemur fólk frá ýmsum löndum til að starfa hér um stundarsakir þegar á þarf að halda og er hagur beggja. Aðrir setjast að til frambúðar og festa hér rætur.
Almennt höfum við tekið innflytjendum vel, en nú virðist velviljinn tekinn að súrna í sumum. Alltof oft heyrum við fréttir af leiðinlegri og jafnvel háskalegri framkomu í garð nýrra Íslendinga. Oftast eru þar drukknir eða dópaðir karlar á ferð, en einnig heyrist af ungum kjánum sem telja sig eiga eitthvað sökótt við útlendinga. Og vont er til þess að vita að unglingar láti hafa sig í hreinan og kláran rasisma á Netinu.
Ég hef ekki ennþá kynnst vondu fólki úr hópi innflytjenda þótt sjálfsagt sé það innan um og saman við eins og í röðum innfæddra. En ég velti því nánast daglega fyrir mér hvers vegna í ósköpunum fólk flytur hingað í frostið og snjóinn, rokið og rigninguna. Mig dauðlangar oft að vinda mér að fólki og spyrja það hvaðan það komi og hvers vegna það valdi Ísland.
Daglega hitti ég fólk af erlendu bergi hér á Seltjarnarnesi. Um daginn fór ég í Björnsbakarí á Nesinu og lenti á spjalli við Ítala. Ég hélt hann yrði kátur að heyra að ég væri nýkomin frá Ítalíu, himinsæl með skíðafæri og fegurð ítalskra Alpa, en hann hafði meiri áhuga á að standa sig við afgreiðsluna og gera sig skiljanlegan. Það gekk prýðilega þótt íslenskan væri ekki upp á marga fiska.
Í Hagkaupum handan götunnar er margt útlendinga. Nafnspjöld afgreiðslufólksins á kössunum sýna nánast eingöngu erlend nöfn og litarhátturinn er oftast dökkur. Allt er þetta fólk elskulegt og þægilegt og talar ágæta íslensku.
Í sundlauginni á Seltjarnarnesi er gott og glaðlegt starfsfólk, þar af a.m.k. þrír útlendingar. Ekki veit ég hvaðan þeir eru ættaðir, enda skiptir það engu í sjálfu sér, en mig dauðlangar oft að spyrja. Það eitt skiptir þó máli að þeir eru glaðværir og þægilegir.
Fólk af erlendu bergi gæti verið Íslendingum fyrirmyndir í þjónustustörfum. Hér er alltof algengt að Íslendingar séu áhugalitlir og stundum hrokafullir gagnvart viðskiptavinum og einnig reyndar sem viðskiptavinir, ætlast til alls af öðrum. Þá skortir þjónustulund. Við mættum líta í eigin barm og koma sómasamlega fram við nýja Íslendinga sem langflestir leggja sig fram við að læra íslensku, aðlagast samfélaginu og vinna því vel.