Alltaf á móti!

“Það er sama hversu hlutirnir verða vel gerðir, Vinstri grænir munu alltaf verða á móti. Þetta er höggvið í stein: Vinstri grænir munu segja nei. Þeir munu ekki segja pass, þeir munu segja nei við öllum breytingum á rekstrarformi. Þeir munu fela sig á bak við þetta: Það er ekki nægilega mikið samráð, þetta er ekki nægilega vel undirbúið. Þetta er alltaf það sama.” Þannig mælti menntamálaráðherra í umræðum á Alþingi 5. mars sl. Málefnalegt? Ojæja.

Vinstri græn eru oft látin hafa það óþvegið við umfjöllun mála á Alþingi. Þau eru sífellt á verði gagnvart stefnumálum ríkisstjórnarinnar og ráðherrar finna rækilega fyrir því. Þeir vildu vafalaust fá meiri frið til að framkvæma sína stefnu og losna við að svara gagnrýni stjórnarandstöðu á sínar gjörðir.

Fyndnast er þó að lesa þá tegund gagnrýni í Morgunblaðinu á Vinstri græn sem felst í því að VG skuli ekki gagnrýna nógsamlega ráðherra Samfylkingarinnar. Vinstri græn láti þá vaða uppi í hverju málinu á fætur öðru, hlífi þeim í umhverfismálum, gagnrýni máttleysislega heimsóknaræði utanríkisráðherra og þar fram eftir götunum. Augljóslega eru Moggamenn hundfúlir með framgöngu Samfylkingarinnar og fá útrás gremju sinnar á Vinstri grænum sem þar eru í hlutverki Albaníu.

Þingmenn Vinstri grænna hafa frá upphafi rækt skyldur sínar ósvikið. Þeir hafa staðið vaktina og gert sitt til að fá málin skoðuð frá öllum hliðum. Þeir hafa lagt áherslu á málefnalega gagnrýni og umfjöllun, en vissulega oft verið nokkuð vægðarlausir í málflutningi.

Málflutningur Vinstri grænna fer augljóslega oft í taugarnar á ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Þeir eiga stundum í vandræðum með að svara gagnrýni VG og enda ósjaldan með því að steyta hnefa og brýna raust og segja Vinstri græn alltaf á móti öllu. Nema hvað? Hugsjónir og stefnumál Vinstri grænna eiga sjaldan samleið með ríkisstjórn og stjórnarflokkum og ekki að undra þótt reynt sé að leiðrétta kúrsinn.

Það verður gaman að heyra í þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í alvöru stjórnarandstöðu þegar Vinstri græn verða ráðandi afl í ríkisstjórn. Þá munu hlutverkin snúast við og sjálfstæðismenn væntanlega “alltaf á móti”.