Loksins tókst okkur að ná í hestana. Við höfum ekki komist upp á Kaldbak síðan um miðjan janúar vegna ófærðar. Snjór var orðinn mikill og sums staðar nánast að kaffæra girðingar. Ásgeir fyrrum bóndi á Kaldbak, sem nú býr á Flúðum, þurfti að beita ýmsum ráðum til að koma heyi til hrossahópsins. Hann fékk aðstoð manna með stóra bíla og a.m.k. eitt sinn varð hann að fá aðstoð manna á vélsleðum. Hrossum er hins vegar meinilla við vélsleða og þegar þessi skrímsli birtust með trutti og látum tók hestastóðið strikið upp allar brekkur.
Fyrir nokkru gerði hellirigningu og minnkaði þá snjórinn til muna, vegurinn upp eftir varð fær venjulegum jeppum og m.a.s. með hestakerru í eftirdragi. Fórum við 21. febrúar í skínandi fallegu veðri og sóttum 3 hesta, Djarf, Garp og Storm. Allir eru þeir mjög hnjóskaðir og verða ekki reiðfærir næstu vikur, meðan þetta er að lagast. Aftur fórum við upp eftir í gær og sóttum þá Gauk, Létti og Prins. Fleiri getum við ekki tekið á hús í bili.
Nokkrir hestanna eru í gerði við braggann á Kaldbak og komast þar inn til að éta. Þar eru elstu hestarnir tveir, Kóngur og Stígur, trippi og meri frá Ævari. Þá bættum við tveimur frá okkur við í gær, þeim Loga og Prúði sem þurfa að geta komist í gott skjól ef illa viðrar. Álmur, Kári, Víkingur og Skrímnir virðast í ágætu standi og eru með stóðinu.
Þessi vetur hefur verið afleitur fyrir útigangshesta, miklar rigningar og hvassviðri á haustmánuðum, síðan frost og snjór. Eitt sinn fór frostið niður í 20 stig. Okkur var ekki rótt meðan veður voru sem verst. Nú er búið að koma öllum hestunum vel fyrir, dagarnir lengjast í sífellu og óhætt að fara að láta sig dreyma um hestaferð næsta sumars.