Morgunblaðið kvatt án tára

Um nokkurra ára skeið hef ég verið áskrifandi að Morgunblaðinu og líkað yfirleitt þokkalega, stundum þó illa. Meðvituð um eigendur og ritstjóra kemur umfjöllun blaðsins þó sjaldnast á óvart. Frábærar myndir RAX og nokkra góða greinaflokka, t.d. um virkjun auðlinda, kunni ég vel að meta. Sömuleiðis stöku minningargreinar, sudokuþrautir og Kalvin & Hobbes! Þá minnist ég þess að hafa fengið ágæta fyrirgreiðslu blaðsins í þau skipti sem ég hef óskað eftir birtingu eigin greina, sem var reyndar nokkuð oft á árum áður.

Þannig er ekki hægt að segja annað en að samband okkar og samskipti hafi gengið bara vel og friðsamlega. Þangað til nýjustu eigendur fengu æðiber í rassinn og lentu út í eintómt rugl og vitleysu. Það var að vísu svolítið gaman í örfáa daga, sérstaklega að hlusta á rökstuðning aðaleigandans, Óskars Magnússonar(ætli hann sé ekki formaður stjórnar blaðsins?), í Kastljósi fyrir því að ráða Davíð Oddsson sem ritstjóra blaðsins. Hann var svo kyndugur á svip og í orðum að hann virtist í rauninni vera að grínast.

Fljótlega varð mér ljóst að þetta var ekki eintómt grín. Eigendur Morgunblaðsins virðast ekki sjá neitt athugavert við það að ráða að blaðinu mann sem ber að margra dómi meginábyrgð á kollsteypu samfélagsins. Mann, sem hefur ráðið nánast lögum og lofum hér á landi undanfarna 2 – 3 áratugi, innleitt óbeislaða frjálshyggju og einkavæðingu með hörmulegum afleiðingum. Mann, sem aldrei gengst við mistökum, heldur þvær hendur sínar af meiri elju en sjálfur Pílatus forðum daga. Hvernig túlkar slíkur maður hvað felst í mikilvægum gildum eins og siðferði, trúverðugleika og lítillæti.

Ég sagði upp áskriftinni að Morgunblaðinu. Ég gat ekki hugsað mér að styrkja slíka vitleysu. Líklega hafa æði margir gert slíkt hið sama og eigendum og ritstjórum ekki litist á blikuna því skömmu síðar barst mér eftirfarandi bréf:

Reykjavík, 30. september 2009.

Ágæti áskrifandi.

Við undirritaðir, sem nýlega höfum tekið við ritstjórn Morgunblaðsins, bindum góðar vonir við störf á þeim vettvangi. Það er einlægur ásetningur okkar að Morgunblaðið verði áfram það vandaða og góða dagblað sem það hefur verið áratugum saman og við munum leggja okkur alla fram um að það markmið náist. Við vitum og viljum að áskrifendur og lesendur blaðsins hafi mikið um það að segja, hvernig til tekst. Þar sem þú hefur sagt upp áskrift þinni nýlega viljum við tryggja að þú getir lagt eigið mat á hvernig blaðið þróast. Höfum við ákveðið að gefa þér kost á að fá blaðið, þér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga um áframhaldandi áskrift, út október mánuð. Viljirðu ekki þiggja þetta boð biðjum við þig vinsamlega að láta okkur vita á netfangið askrift@mbl.is eða hringja í 569-1122. Ef þig langar að koma á framfæri athugasemdum um blaðið og okkar störf þá bendum við á netfangið ritstjorar@mbl.is.

Með góðum kveðjum,

Haraldur Johannessen

Davíð Oddsson

Ég fann mig knúna til að kvitta fyrir þetta merkilega bréf með eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi í dag:

Til Davíðs Oddssonar og Haraldar Johannessen

Ágætu ritstjórar.

Dæmalaust er nú hugulsamt af ykkur að senda mér bréf með sérstöku boði um ókeypis lestur Morgunblaðsins í heilan mánuð. Mér hreinlega volgnar um hjartarætur af umhyggjusemi ykkar.

Sérstaka athygli vekur föðurleg áminning ykkar, sem felst í eftirfarandi setningu í bréfi ykkar: “Þar sem þú hefur sagt upp áskrift þinni nýlega viljum við tryggja að þú getir lagt eigið mat á hvernig blaðið þróast. Höfum við ákveðið að gefa þér kost á að fá blaðið, þér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga um áframhaldandi áskrift, út október mánuð”.

Nú er það svo að ég tel mig ekki þurfa að njóta þessarar umhyggju, enda virðist hún reist á röngum forsendum. Það er nefnilega ekki fátækt, sem rak mig til þess að segja upp áskrift að Morgunblaðinu, heldur koma þar við sögu ýmis gildi, sem ég tel skipta miklu, svo sem siðferði, trúverðugleiki og hæfilegt lítillæti.

Ég hef þegar lagt eigið mat á þróun mála á Morgunblaðinu. Í samræmi við það afþakka ég þetta höfðinglega boð.

Með kveðju,

Kristín Halldórsdóttir

Fornuströnd 2

170 Seltjarnarnesi

Sumarið er búið

Í darraðardansi haustlægðanna er ekki hjá því komist að viðurkenna að sumarið er búið. Vetur gamli gæti jafnvel bankað upp á innan fárra vikna. Svona er lífið.

Sumarið 2009 var með miklum ágætum, enda nýt ég bæði vors og sumars ævinlega frá upphafi til enda. Birtan og hlýindin hrekja burt ergelsi og áhyggjur. Skrokknum líður mun betur í sumarsólinni en vetrarmyrkrinu og mörg skemmtileg verkefni kalla eitt af öðru. Og best af öllu er að þeysa á hesti um landið á björtum sumardögum.

Við vorum mikið á Kaldbak og fórum marga góða reiðtúra um landareignina. Riðum einnig um lendur Þverspyrnu og skemmtum okkur vel. Vorum því vel búin undir hestaferðina kringum Heklu sem sagt er lítillega frá hér fyrr í minnisbókinni.

Við fórum ýmsa lystitúra út frá Kaldbak á góðviðrisdögum í sumar enda stutt að fara á jeppanum á marga fallega staði í nágrenninu. Mesta ævintýrið var að komast í Veiðivötnin sem við höfum lengi ætlað okkur að sjá. Og þvílík dýrð. Við fórum vítt og breitt um svæðið í yndislegu veðri, sólskini og logni svo að fjöll og hólar stóðu á höfði í vötnunum. Þessu svæði er erfitt að lýsa. Eina leiðin er að sjá með eigin augum.

Ágústmánuði eyddi ég svo til öllum í Varmahlíð. Nýt þess alltaf mjög að dveljast þar á æskuheimilinu og vitja gamalla róta. Kári, Sindri og Breki nutu lífsins með mér fyrri hluta mánaðarins. Þeim þykir vænt um staðinn og hlakka alltaf mikið til sumardvalar þar. Við heimsóttum Fuglasafn Sigurgeirs á Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit sem opnað var fyrir ári. Merkilegt safn í afar fallegu umhverfi. Við skoðuðum einnig Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli og dóluðum lengi í sundlaug bæjarins sem er einhver besta sundlaug landsins. Annars vorum við mest heima í Reykjadalnum og fórum þar í sund á hverjum einasta degi. Ekki í kot vísað.

Jónas dvaldist nokkra daga í Varmahlíð. Fengum þá hellirigningu annan hvern dag og sól og heiðríkju hina dagana sem við nýttum vel. Við gerðum góða ferð alla leið í Herðubreiðarlindir og þaðan í Öskju. Óskaplega falleg leið, en stundum seinfarin eins og gengur víða í óbyggðum. Máttum reyna hið sama þegar við fórum hringinn í Mývatnssveit, Hólasand til hálfs, þaðan á Þeystareyki, yfir Reykjaheiði til Húsavíkur og heim í Reykjadal. Mjög skemmtileg leið í björtu veðri.

Svana og Þorsteinn komu síðustu vikuna í ágúst og þá voru nú berin aldeilis farin að spretta. Við tíndum heilmikið af berjum bæði í Reykjadal og í Fellsskógi næst Fremstafelli. Í Fellsskógi er heilt ævintýri að sitja í brekkunum upp af Skjálfandafljóti og horfa yfir Þingey og Fossselsskóginn handan fljótsins. Bæði bláber og aðalbláber finnast þarna á hverri þúfu. Alltaf er gaman að geta flutt svolítið af berjum úr þessum gnægtabrunni suður yfir fjöllin og gefa öðrum að smakka nýtínd gæðaber og sultu.

Víkingur kvaddur

Það fjölgar í Torfholti í Kaldbakslandi niður undir Kluftánni. Víkingur minn var felldur 22. ágúst og heygður þar við hlið Stígs og Kóngs. Þá var einnig felldur Skrímnir, hestur Ástu systurdóttur Katrínar. Hann gekk með okkar hestum í nokkur ár og var ætlunin að hann gæti gagnast börnum. Hann reyndist liðónýtt reiðhross, hreyfði sig ekki úr sporunum ef einhver var á baki, vildi bara eiga náðuga daga og fékk það svikalaust.

Víkingur var fæddur 1987, faðir Leó Stóra-Hofi, ff. Dreyri frá Álfsnesi, fm. Litla-Jörp Reykjum. Móðir Víkings var Nös á Grund í Vestur-Hópi og foreldrar hennar bæði Hindisvíkurhross. Þess má geta að það er Víkingur sem ég held utan um á forsíðu heimasíðunnar og hefði reyndar gjarna mátt sjást betur.

Við keyptum Víking 1992 af Sturlu, Keldunesi í Axarfirði. Jónas átti leið þar um í hestaferð og fékk að prófa hann, leist vel á gripinn og samdi um kaup á honum með þeim fyrirvara að mér líkaði hann. Skömmu seinna fór ég í Keldunes og mátti þá raunar bíða alllengi og spjalla við húsfreyju þar til Sturla birtist loks með Víking í taumi og hefur væntanlega riðið úr honum mestu lætin. Mér leist vel á hestinn og kaupin voru gerð.

Víkingur reyndist hins vegar lengi vel nokkuð villtur og ódæll. Hann kom ólmur og fnæsandi af hestaflutningabílnum og sýndi af sér ýmsa óþekkt fyrsta árið. Honum leist ekkert á sig í Víðidalnum og rauk þar oftar en einu sinni. Tamningamenn sáu Jónas glíma við hestinn og héldu að honum væri eitthvað illa við mig þegar hann sagði þeim að þetta ætti að verða minn reiðhestur.

Til að byrja með höfðum við þann háttinn á að Jónas teymdi Víking frá húsi í Víðidalnum, en hann sleit sig frá honum a.m.k. einu sinni nánast hvert eitt sinn sem við fórum í reiðtúr og hljóp montinn og glæstur aftur heim að húsi. Hann komst þó ekki upp með það, var alltaf sóttur aftur, og að hálfnaðri leið tók ég við, reið honum heim og gætti þess vel að vera aftan við traustan hest. Loks náðum við fullkomnum sáttum og Víkingur reyndist mér afar vel.

Víkingur var fallegur hestur sem allir tóku eftir. Jarpur með geysiþykkt og mikið fax og tagl, fasmikill, viljugur, kröftugur og úthaldsgóður, mjúkur töltari, en brotnaði oftast í brokk þegar hann hægði á. Bestur var hann á mjög hægu eða mjög hröðu tölti. Hann var mjög góður ferðahestur og ólatur að hlaupa fyrir ef á þurfti að halda. Mér telst svo til að við höfum farið saman í a.m.k. 25 hestaferðir þessi ár sem hann var í essinu sínu.

Það þurfti að kunna lagið á Víkingi, því kynntust þeir sem fengu hann að láni sem voru reyndar fáir. Þeir fengu nefnilega flugferð til jarðar ef þeir gættu ekki að sér. Hann var þó alls ekki hrekkjóttur, heldur einkar kraftmikill, snöggur upp á lagið og lítið fyrir hangs. Þegar komið var á bak honum vildi hann drífa sig af stað og þá var eins gott að vera reiðubúin. Hann rumdi af ákafa og það gekk stundum mikið á fyrsta sprettinn.

Vorið 2005 fann ég að Víkingur var ekki eins og hann átti að sér. Hann vantaði kraft og úthald, hélt ekki gamalkunnum hraða og bað um fet. Myndataka sýndi að hann væri illa spattaður, yrði að fá algjöra hvíld í a.m.k. ár og e.t.v. yrði hann ekki til reiðar framar. Það var mér mikið áfall og ég grét ofan í faxið á mínum góða vini. Eftir árs hvíld var hann aftur myndaður og skoðaður í bak og fyrir og ljóst varð að bata fengi hann ekki.

Víkingur naut frelsis í Kaldbakslandi með hinum hestunum næstu fjögur árin og virtist líða ágætlega. Hann var alla sína tíð fremur feitlaginn og fitnaði úr hófi fram þegar hann var ekki lengur notaður til reiðar. Það var honum til baga. Í sumar var orðið ljóst að tími hans væri liðinn. Hann var orðinn alltof feitur og þungur fyrir sína veiku fætur, hann hafði gránað mikið og feldurinn tapað glansinum.

Ég hef kvatt sérstakan kafla í minni hestamennsku og sakna míns góða vinar.

Heklu notið á allar hliðar

Hestaferð sumarsins er nú að baki og skilur eftir góðar minningar. Að þessu sinni var tekinn stór og mikill hringur um Heklu og hennar notið á allar hliðar. Lagt var upp frá Kaldbak, gist í Helgaskála, því næst Hólaskógi, svo Landmannahelli, Fossi og endað í Bolholti. Reyndar fengu aðeins hrossin gistingu á Fossi, við hin gistum 2 nætur í Bolholti hjá Fanneyju og Finni.

Ferðin hófst með talsverðum gassagangi. Hrossin voru ekki öll alveg tilbúin að fara á virðulegum gangi yfir ásana niður að Stóru-Laxá og lentum við Fanney í miklum loftköstum niður síðustu brekkurnar. Sem betur fór héldumst við á baki og höfðum bara gaman af. Fljótlega róaðist stóðið og tók upp betri siði, lestaðist fallega og hagaði sér yfirleitt með sóma. Stöku sinnum tók þó hópurinn upp á því að vilja fara í aðra átt en mannfólkið, en það tilheyrir bara í slíkum ferðum og veitir mikla útrás þeim sem hafa gaman af smölun.

Hestar Jónasar, Logi, Garpur, Djarfur og Léttir, og mínir, Gaukur, Prins og Stormur, stóðu sig með prýði. Hins vegar lentum við nú í fyrsta skipti í slíkri ferð í því að einn þeirra, Prinsinn, fékk hrossasótt. Sem betur fór gerðist það ekki fyrr en síðasta daginn. Sprauta fannst í meðfylgjandi sjúkrakassa og hljóp Prins með heim í Bolholt. Þar kom í ljós að hann var enn illa haldinn, en fljótt gekk að fá dýralækni að Bolholti. Charlotta Oddsdóttir dýralæknir á Hellu kom og gerði nauðsynlegar ráðstafanir og virtist Prins jafna sig alveg næstu daga.

Veðrið var yfirleitt með ágætum, en með ýmsu móti eins og gengur. Stundum var breyskjuhiti, einu sinni hellirigning, oft sterkur vindur með tilheyrandi moldroki sem setti mark sitt á andlit knapanna. Þannig er nú bara Ísland.

Við vorum 12 talsins, 11 knapar og kokkurinn/trússarinn ómissandi, sjálfur Sigfús Almarsson. Auk okkar Jónasar voru Finnur Guðsteinsson, sem hafði veg og vanda af undirbúningi og stjórnun, Fanney Sigurðardóttir, Þóra Jónsdóttir, Sigrún frænka hennar (úbs, veit ekki föðurnafnið) Guðrún Geirsdóttir, María Ellingsen, Einar Árnason, Guðjón Aðalsteinsson og Jónas R. Jónsson. Öll frábærir félagar sem sannarlega lögðu sitt af mörkum til að tryggja bæði mannfólki og hrossum góða og skemmtilega ferð.

Sulta kom og Sulta fór

Fyrir 16 árum stökk falleg lítil kisa inn um gluggann á bílskúrnum okkar og ákvað að eiga þar heima. Bílskúrinn sá hefur aldrei hýst bíl þau 30 ár sem hann hefur staðið undir húsinu okkar á Fornuströnd 2. Hann breyttist smám saman í geymslurými, en þó fyrst og fremst í íverustað af ýmsu tagi. Þar var t.d. eitt sinn samkomustaður skáta og fyrr en varði tóku við hávaðasamar hljómsveitaræfingar, jafnvel eitt kærustuparið bjó þar um hríð. Þannig nýtti yngri kynslóðin skúrinn og bætti smám saman umhverfi og aðstæður.

Pétur var húsráðandi í bílskúrnum þegar kisa litla stökk inn um gluggann og hann tók henni vel. Hann skýrði hana Rabbarbarasultu í höfuðið á afar vinsælum sultukrukkum sem geymdar voru í hillum þar niðri, en stytti nafnið fljótlega í Sultu. Við vissum aldrei hvaðan hún Sulta litla kom eða hvort einhver átti þetta djásn. En hún fékk mat og allt það atlæti sem hún kærði sig um.

Áður en langt um leið kom í ljós að Sulta var ekki bara að hugsa um sjálfa sig því hún þurfti gott pláss fyrir stóra fjölskyldu. Nokkrum vikum eftir fyrstu heimsókn hennar kom hún sér vel fyrir í kassanum sínum og gaut þar heilum 6 kettlingum. Þetta var glæsilegur hópur sem gaman var að fylgjast með. Í fyllingu tímans tókst að koma þeim flestum fyrir hjá góðu fólki. Tveir urðu þó eftir hjá okkur. Annar þeirra varð fyrir bíl, en hinn er enn hjá okkur og fékk það virðulega nafn Víkingur sem ég gruna að tengist frekar bjór en ribbaldahætti fornmanna. Hann hefur reynst afar notalegur og góður heimilisköttur.

Þegar á leið var ljóst að Sulta kaus að vera út af fyrir sig, hafði takmarkaðan áhuga á afkvæmum sínum og kærði sig ekkert um aðra ketti svona yfirleitt. Hún hélt þó tryggð við götuna og betlaði mat víðar en hjá okkur. Fljótlega valdi hún að eiga heima hjá góðu fólki hér ofar í götunni, sem ætlaði reyndar alls ekki að taka hana inn til sín. En Sulta þráaðist við, svaf oftast úti í garðinum og betlaði á dyraþrepinu þar til þetta ágæta fólk stóðst hana ekki lengur. Þar var vel um hana hugsað, en okkur til ánægju kom hún alltaf öðru hverju í heimsókn til okkar og þáði mjólkursopa og fleira gott. En hún vildi ekki fyrir nokkurn mun leika við son sinn.

Sulta var falleg kisa, brún- og svartbröndótt, afskaplega nett og fyrirferðarlítil, varkár og tortryggin, jafnvel feimin. Hún var með minnstu loppur sem ég hef séð á ketti og lét aldrei til sín heyra, heldur straukst allt í einu við fætur manns og horfði biðjandi eftir góðgæti í skál. Fallegi feldurinn hennar lét á sjá síðastliðinn vetur, varð þvældur og úfinn og glansinn fór af. Hún var augljóslega að nálgast ævilokin enda líklega orðin 17 ára. Það er nú ókosturinn við blessuð heimilisdýrin, þau lifa yfirleitt svo miklu skemur en mannfólkið.

Nú hefur Sulta ekki látið sjá sig í marga daga og finnst hvorki á Fornuströnd 2 né 14. Eins og svo margir kettir gera þegar stundin nálgast hefur hún vafalaust fundið sér stað til að kveðja þennan heim og óvíst að við finnum þann góða stað nokkurn tíma. Við verðum bara að treysta því að nú líði henni vel.

Vígsluathöfn á Fornuströndinni

Mitt í allri ólgunni vegna bankahruns og krónufalls var efnt til sérstæðrar hjónavígslu hér á Fornuströndinni. Brúðguminn var hann Pétur okkar og brúðurin Miriam Pacheco Melasqez frá Perú, kölluð Marcela.

Pétur og Marcela kynntust árið 2005 þegar Pétur fór sína heimsreisu að loknu námi í tölvunarfræði. Þau hittust í rútu, þar sem Marcela var við leiðsögn, og töluðu mikið saman. Þau viðhéldu kynnum sínum með tölvusambandi og heimsóknum á báða bóga og létu ekki fjarlægðina spilla sambandinu. Marcela kom svo til okkar í desember sl. og sunnudaginn 11. janúar hétu þau hvort öðru tryggð.

Vígsluathöfnin var mjög sérstæð og falleg. Svokallaður athafnarstjóri á vegum Siðmenntar stýrði hátíðlegri persónulegri giftingarathöfn. Athafnarstjórinn heitir Steinar Harðarson og starfar eins og Pétur hjá Vinnueftirliti ríkisins. Hann fór með texta á íslensku og Dóra las þýðingu textans á spænsku. Sérvalin tónlist hljómaði úr tölvu.

Eingöngu fjölskyldan var viðstödd, þ.e. við Jónas, börn okkar, tengdabörn og barnabörn. Sindri, Auður og Kári stjórnuðu tölvutónlistinni, Kristín og Breki færðu hjónunum hringana.

Eftir athöfnina nutum við sameiginlegrar máltíðar sem endaði með ljúffengri og fallega skreyttri súkkulaðitertu. Á henni var skrautritað: Til hamingju Pétur og Marcela.

Það fylgir sögunni að vígsluathöfn Siðmenntar er ekki lögfesting og því þurfa pörin að láta lögfesta giftinguna hjá sýslumanni. Það gerðu Pétur og Marcela að sjálfsögðu og þótti reyndar ekki mikið til koma. Eitthvað rámar okkur Jónas í þá snautlegu athöfn borgarfógeta sem við gengumst undir fyrir margt löngu. Það er mikil framför fyrir pör sem ekki kæra sig um kirkjulega giftingarathöfn, að kostur sé á fallegri athöfn eins og þeirri sem við urðum vitni að 11. janúar sl.

Kóngur fallinn

Kóngur var felldur 9. október. Hann var kominn á 30. aldursár og mjög farinn að daprast, ekki síst eftir fráfall Stígs, sem lagðist niður á Kaldbakstún og dó í júlí sl. Þeir félagarnir voru samferða í 20 ár og stóð alltaf til að þeir fengju að verða samferða inn í eilífðina. Veturinn hefði orðið Kóngi erfiður, ekki síst þar sem félagi hans var ekki lengur til staðar. Því var ekki um annað að ræða en að hjálpa honum yfir landamærin.

Kóngur hafði þá merkilegu stöðu í hrossahópnum okkar að vera fyrsti og elsti hestur fjölskyldunnar. Hann fæddist 1979, móðir Blanda Blönduósi, faðir Þráður frá Nýjabæ og föðurfaðir Sörli frá Sauðárkróki. Kóngur var myndarlegur hestur, sótrauður, glófextur og stjörnóttur.

Dóra, upphafsmanneskja hestamennskunnar í fjölskyldunni, eignaðist Kóng 1987, en hann var reiðhestur Jónasar í fjölmörgum langferðum. Hann var traustur ferðahestur, nokkuð grófur og hastur á brokkinu, en tölti ágætlega. Bestur var hann á hægu og afar virðulegu tölti. Það kallast að kasta toppi. Jónas sagði gjarna að hann tölti eins hægt og hann komst upp með án þess að stoppa og hefði sómt sér vel í lífverði konungs.

Kóngur og Stígur fengu frí frá hestaferðum fyrir níu árum og nutu góðs atlætis í Kaldbakslandi meðan heilsan leyfði. Kóngur var heygður í Torfholti við hlið Stígs. Það er sjónarsviptir að þeim félögum.

Á þingeyskum moldargötum

Allar hestaferðir eru skemmtilegar og minnisstæðar hver á sinn hátt. Veðrið ræður miklu, landslagið, reiðgöturnar, félagsskapurinn og umfram allt hestarnir, allt þetta skiptir miklu máli. Hestaferð ársins í ár hafði hins vegar sérstaka þýðingu fyrir mig, þar sem nú var farið um sveitir Suður-Þingeyjarsýslu.

Ræturnar sögðu til sín þegar sveitirnar heilsuðu hver af annarri í sínu fegursta skarti. Stanslaust góðviðri lék við okkur og moldargötur í kílómetra tali buðu upp á þægilegan gang og oftar en ekki hlemmiskeið. Mér þótti vænt um hvað æskuslóðirnar tóku vel á móti ferðafélögunum og fannst ég bera dálitla ábyrgð á því sem þeir fengu að sjá og reyna.

Auk okkar Jónasar voru í hópnum þau Finnur og Fanney, Ævar, Ingibjörg og Edda, Guðjón S., Lóa, Þóra og Ingólfur. Auður tengdamóðir Ingólfs var með okkur fyrri vikuna og Guðlaug konan hans þá seinni. Guðjón Ármann og Guðný komust ekki með í ferðina, en Árni Þórður bróðir Guðjóns, Ylfa dóttir Árna og Þóra systir þeirra bræðra voru með okkur fyrri vikuna. Snilldarkokkurinn Fúsi var svo að sjálfsögðu mikilvægasti og vinsælasti maðurinn í hópnum.

Við lögðum upp frá Laufási í Grýtubakkahreppi 28. júlí og riðum einkar skemmtilega leið suður með Fnjóská vestan ár gegnum Skuggabjargaskóg og Melaskóg að Draflastöðum þar sem við gistum. Hrossin rákust vel og það var heilt ævintýri að fara gegnum þetta skóglendi sem er fáum þekkt. Bæði hestum og knöpum þótti nóg um hitann og moldrykið og áttum við eftir að kynnast því hvoru tveggja enn frekar næstu daga.

Daginn eftir var farið yfir Fnjóská og riðið eftir bökkunum austan ár, því næst gegnum Vaglaskóg og Þórðarskóg og alla leið í Sörlastaði í Timburvalladal, þar sem hestamenn í Létti hafa athvarf fyrir hesta og menn. Þar var glaðsinna fólk á fleti fyrir og undi mannskapurinn við söng og spjall fram eftir kvöldi. Þarna er útsýni mjög fallegt og ekki spillti sólroðinn himinninn.

Þriðja daginn var farið upp í Hellugnúpsskarð, þaðan yfir fellið og niður að Stóruvöllum í Bárðardal. Þetta var torfarin leið og ekki bætti hitinn úr skák sem reyndist ýmsum erfiður. Aðrir létu hitann ekki á sig fá og notuðu tækifærið að ná sér í væna sólbrúnku. Frá Stóruvöllum lá leiðin yfir Skjálfandafljótsbrúna sem skalf og nötraði undan hófataki hestanna og ekki laust við að færi um suma þegar timburfjalirnar virtust ætla að sporðreisast. Hestarnir fengu haga í Víðikeri, en mannskapurinn gisti í Kiðagili.

Fjórða daginn lá leiðin upp með Suðurá að Flesju þar sem við bjuggum um okkur í gangnamannakofum. Flest riðum við svo einhesta inn í Suðurárbotna og skoðuðum þar sem uppsprettur árinnar spýtast fram í fljótið. Hestarnir voru ljónfjörugir á bakaleiðinni, og í grasinu við kofana á Flesju beið okkar listilegur matur, gítarspil, söngur og glaðværð sem hljómaði vel í fjallasalnum.

Mikil dýrð og fegurð blasti við þegar farið var daginn eftir á léttu spori niður með Sellandafjalli. Þar kom Arngrímur Geirsson til móts við okkur og vísaði veginn niður í Mývatnssveit. Hestarnir fengu stærðar haga í landi Álftagerðis, en við bjuggum um okkur í gistiheimili á Skútustöðum. Nokkrir úr hópnum fóru að sækja bílana sem skildir voru eftir í Laufási í byrjun ferðar, en við hin fengum lítinn tíma til að hvílast og hlakka til kvöldverðarins því okkur bárust þær fréttir að hestarnir væru sloppnir úr haganum og roknir út í buskann. Varð uppi fótur og fit og við æddum í leit að hestunum, sem höfðu skellt sér yfir Kráká heimamönnum til mikillar furðu, sögðu það aldrei hafa gerst, en trúlega hefðu þeir ærst vegna bitmýs sem kom undir kvöldið í árásarhug. Fljótlega sáum við til hestanna og reyndum að nálgast þá, en þeir voru trylltir og tóku engum sönsum. Næstu fjórar klukkustundir fóru í æsilegan eltingarleik um holt og móa og gekk á ýmsu. Lenti undirrituð m.a. í djúpum grasi huldum pytti þegar minnst varði, en til marks um hlýindin var ég orðin skraufþurr að leikslokum. Loksins náðist að smala hrossunum saman á hentugum stað hjá Gautlöndum. Einn hestanna hafði þá orðið viðskila við stóðið og æddi villtur og trylltur út og suður. Við Jónas fórum að leita hans og fundum hann örvinglaðan í girðingarhorni, einan og yfirgefinn. Virtist hann harla feginn að sjá okkur og leyfði mér fúslega að beisla sig og teyma. Hann var greinilega mjög þreyttur og ráðvilltur eftir hamaganginn, en léttist heldur betur í spori þegar hann sá loks til félaga sinna. Þeim var svo snúið í rétta átt og fór Arngrímur fyrir hópnum sem rekinn var heim í Álftagerði og fékk nú minni og öruggari haga. Maturinn hjá Fúsa bar ekki merki þess að hafa orðið að bíða okkar í marga klukkutíma. Verður þetta kvöld örugglega oft rifjað upp.

Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir rólegum næsta degi sem kom sér vel eftir lætin kvöldið áður. Þó fórum við í einhesta reiðtúr með Arngrími, sem rekur hestaleigu ásamt Gígju konu sinni, og sýndi hann okkur margt forvitnilegt. Hápunkturinn var að feta í fótspor þeirra sem fyrr á árum fluttu brennistein yfir Mývatn á völdum stað milli bakka. Á þeim tíma voru engir vegir og allt flutt á hestum, sem þá gegndu öðru hlutverki en nú til dags. Vatnið náði vel hálfa leið upp á hestbakið, en botnin var mjúkur. Mývargurinn var í miklum ham og einkennilegt að sjá hvernig hann þeyttist um í skýjum og strókum. Um kvöldið var grillað og borðað úti í félagsskap þeirra ágætu hjóna Gígju Sigurbjörnsdóttur og Arngríms í Álftagerði. Margar sögur voru sagðar og sungið af hjartans lyst við undirleik gítars og harmonikku.

Sjöunda daginn dró úr hitanum, hann “datt niður fyrir 20 stig” eins og Arngrímur orðaði það. Riðið var í Gautlönd og upp í Gautlandaheiði að Sandfelli, suður með Sandvatni og þaðan af lengra. Snerum svo við og riðum sem leið lá niður í Stöng þar sem við fengum næturhaga fyrir hrossin hjá Ásmundi ferðabónda. Síðla dags rigndi nokkuð, en það hafði lítil áhrif á langþurran jarðveginn og síst moldargöturnar góðu.

Daginn eftir fórum við svokallaðan Akureyrarveg yfir heiðarnar norður og vestur af Stöng og var gaman að sjá út Reykjadalinn frá þeim sjónarhóli. Komið er niður hjá Arndísarstöðum í Bárðardal og þaðan fórum við í Fosshól þar sem við fengum að girða af grösugan næturhaga fyrir hestana með aðgangi að góðum læk. Við héldum hins vegar yfir Fljótsheiðina og bjuggum um okkur í Þinghúsinu á Breiðumýri, þar sem við gistum þrjár nætur í góðu yfirlæti.

Næsta dag riðum við niður með Skjálfandafljóti að vestan gegnum Fellsskóg og síðan upp með fljótinu austan megin og gegnum Fossselsskóg. Nokkuð erfitt var sums staðar að komast gegnum Fellsskóg, en mjög fallegt að sjá yfir fljótið með Þingey, Barnafoss og Ullarfoss. Þegar komið var að hliðinu inn í landareign Vaðsbæja blasti við okkur skilti þar sem lýst var banni við umferð hesta og stakk það í stúf við greinilega merkta hestaleið á nýútgefnu korti. Höfðum við reyndar frétt af því að umferð hesta væri illa séð á þessum slóðum, en þegar komið var út úr landi Vaðsbæja beið okkar fljótlega annað skilti þar sem við vorum boðin velkomin í Fossselsskóg. Við riðum svo suður að gamla Fljótsheiðarveginum og niður að Einarsstöðum þar sem hestarnir fengu góðar móttökur og fengu að hvíla sig þar í látlausri blíðunni allan næsta dag.

Hestarnir voru vel hvíldir og léttir í spori þegar við lögðum upp frá Einarsstöðum 7. ágúst, riðum yfir Reykjadalsá og út með Vatnshlíðinni. Ömurlegt var að sjá hvernig skógurinn þar er að grotna niður, illa bitinn og umhirðulaus. Á þeirri leið hvekktist hestur undir Lóu, sem flaug af og braut fingur á vinstri hendi. Var þá gott að hafa Ingólf lækni sem bjó vel um brotið og Lóa reið áfram með okkur þennan dag þótt hún yrði síðan að sleppa frekari reiðmennsku að ráði lækna á Húsavík. Við riðum yfir Laxá og áðum í Hraunsrétt í Aðaldal sem verið er að gera upp og merkilegt að skoða. Þá lögðum við á hina mögnuðu Hvammsheiði sem býður upp á mikla skemmtireið. Þar sat ég Gauk lengst af leiðarinnar og sá var ekki að spara sig. Haga fyrir hestana fengum við hjá Atla á Laxamýri, en sjálf gistum við næstu tvær nætur í Ljósvetningabúð í Köldu-Kinn.

Ætlunin var að ríða daginn eftir gegnum Aðaldalshraun niður á Sandsbæina og þaðan á brúna yfir í Kinn. Ekki hugnaðist sú fyrirætlun öllum húsráðendum sem við þurftum leyfi hjá til að fara um hlað og var þá tekið til þess ráðs að þeysast til baka suður Hvammsheiði og yfir Laxá, þaðan til vesturs og upp hjá Mýlaugsstöðum, yfir heiðina og niður hjá Rauðu-Skriðu, þaðan á brúna yfir Skjálfandafljót og í haga hjá Baldvini í Torfunesi. Hann er þar með mikið ræktunarstarf og sífellt að byggja meira upp. Var gaman að skoða starfsemina og hitta tamningamenn hans. Einn þeirra er Benedikt Arnbjörnsson frá Bergsstöðum, hann reið með okkur þennan dag og fylgdi okkur áleiðis einnig næsta dag. Þorvar frændi minn Þorsteinsson starfar einnig fyrir Baldvin og er m.a. þekktur fyrir sýningar á glæsihestinum Blæ. Þarna sáum við stóðhestinn Mátt sem er afar fallegur og á væntanlega eftir að gera garðinn frægan.

Síðasta daginn í hnakk fengum við fylgd áleiðis upp frá Torfunesi þar til Benedikt treysti okkur til að rata upp í Gönguskarð og yfir í Fnjóskadalinn. Þrátt fyrir ruglingslegar götur og sums staðar erfitt yfirferðar vegna grjóthnullunga var mjög gaman og fallegt að fara þessa leið um skarðið. Ferðin með reksturinn niður brekkurnar að Þverárrétt reyndist nokkuð æsileg, en slysalaus sem betur fór. Þaðan fórum við yfir Fnjóská og riðum nú aftur gegnum Skuggabjargaskóg og að Laufási þar sem ferðin hófst 13 dögum fyrr. Þar hvíldu hrossin sig heilan sólarhring í blíðunni áður en flutningabíllinn sótti þá og kom þeim í heimahaga.

Nú erum við þá aldeilis búin að skoða Þingeyjarsýslurnar rækilega af hestbaki, Norðursýsluna í fyrra og Suðursýsluna í ár. Norðursýslan kom að ýmsu leyti á óvart, en reiðgöturnar í Suðursýslunni slógu allt út. Við vorum líka sérlega heppin með veðrið allan tímann, þótt mývargurinn væri óneitanlega erfiður förunautur og hitinn stundum fullmikill fyrir hesta og menn. Það rigndi aldrei á okkur í hnakk og þótti sumum það með ólíkindum.

Öll ferðin var í rauninni stórkostleg frá upphafi til enda og erfitt að segja til um eitt atvik eða reynslu sem standi upp úr. Fallegt landslag, frábært veður og góðar reiðgötur skora hátt. Mörg okkar kynnu að nefna reið gegnum alla skógana sex sem skemmtilega og óvenjulega reynslu í okkar skógfátæka landi. Sérstök reynsla var að ösla yfir Mývatn og þá ekki síður reiðin gegnum Gönguskarð.

Blessaðir hestarnir brugðust heldur ekki vonum og kunnu enda vel að meta þingeysku moldargöturnar, sem verða lengi í minnum ferðalanga. Í mínum huga eru tveir sprettir efstir á blaði. Stormur dró ekki af sér á leiðinni ofan frá upptökum Suðurár niður á Flesju og hefur aldrei verið betri. Þar var boðið upp á gleði og mýkt, vilja og hraða. Og sama er að segja um þrotlausa þeysireið Gauks eftir Hvammsheiðinni. Ekki leiðinlegt að rifja upp slíka reynslu.

Síðasta verk Stígs

Stígur hét fyrsti hesturinn sem ég eignaðist. Fallegur hestur, kraftmikill og duglegur, með þægilegt brokk og reyndist vel í langferðum. Þessi elska lagðist niður á Kaldbakstún í góðviðrinu 6. júlí sl. og reis ekki upp aftur. Það var hans síðasta verk. Líklega fékk hann hjartaslag, orðinn 28 vetra og saddur lífdaga. Hann var heygður í Torfholti.

Stígur kom til okkar árið 1988, f. 1980, hét upphaflega Stóri-Jarpur, dökkjarpur og myndarlegur hestur. Stígur var undan Perlu frá Vík og Létti frá Vík. Faðir Léttis var Úlfsstaða-Blakkur og móðir Blesa í Flatatungu. Faðir Perlu var Svaði frá Kirkjubæ og móðir Perla frá Rauðhálsi. Ekki kunni ég nógu vel í upphafi að meðhöndla Stíg og lærði ekki almennilega að láta hann tölta fyrr en Helgi Leifur hafði tuktað hann svolítið til og kennt mér á hann. Hann var nokkuð þungur í taumi og enginn eðlistöltari, en gat vel tölt með nokkurri fyrirhöfn.

Stígur var mikill karakter og þurfti að umgangast hann með virðingu. Hann hafði þann sið að ýta rösklega við mér með hausnum þegar ég var að leggja á hann og stússa kringum hann eins og hann vildi segja mér að gjöra svo vel og taka eftir honum og koma fram við hann á tilhlýðilegan hátt. Hann var foringi í sér og passaði vel upp á sinn hóp í langferðum, stuggaði ákveðinn við hestum sem ekki tilheyrðu hans hópi.

Mér þótti mjög vænt um Stíg minn og gott að sitja hann, þótt ekki væri hann gallalaus. Mér er ljóst að ég hefði getað fengið miklu meira frá honum ef ég hefði lagt mig meira fram, farið með hann á námskeið og lært betri reiðmennsku. Ég var búin að eiga hann alllengi, þegar ég komst að því að fyrri eigendur höfðu ekki ráðið við hann svo að kannski var hann bara harla sáttur við þennan viðvaning sem ég var á þessum tíma. Ég hentist reyndar nokkrum sinnum af baki í okkar samskiptum, en ég get ekki kennt Stíg um það, heldur mínu eigin reynsluleysi og klaufaskap.

Við fórum margar ferðir saman, við Stígur, m.a. yfir Kjöl og Sprengisand. Það var einmitt í Sprengisandsferðinni sem Hinrik Jónsson, sprenglærður og þaulvanur hestamaður, fékk Stíg lánaðan einn drjúgan áfanga. Ég var ekki lítið stolt þegar Hinrik þakkaði mér hestlánið og sagði: “Þetta er alveg magnaður hestur”. Þessi orð glöddu mig mjög og geymdust í huga mér.

Eftir 10 ára þjónustu í ótal hestaferðum um landið bilaði Stígur í fótum, varð hrösull og dugði ekki lengur til ferða, ekki einu sinni stuttra reiðtúra. Hann fékk því að eiga síðustu 9 árin sín náðug í haga. Dró þá úr fasi Stígs og karaktereinkennum, en hann var alltaf glansandi á húð og virtist njóta frelsisins í Kaldbakslandi. Hann gekk oft við taum undir barnabörnunum, hann var svolítið söðulbakaður og þeim fannst gott að sitja hann, þótti raunar enginn hestur betri.

Dóra, upphafsmanneskja hestamennskunnar í fjölskyldunni, eignaðist Kóng 1987. Hann fæddist ári fyrr en Stígur og er því orðinn 29 vetra. Kóngur fékk frí frá hestaferðum á sama tíma og Stígur, þótt hann hefði ekkert bilað á heilsu og virðist enn furðu hraustur. Þeir Stígur og Kóngur hafa því verið samferða öll þessi ár og afskaplega samrýmdir, viku naumast hvor frá öðrum. Nú er Kóngur augljóslega dapur og einmana, saknar vinar í stað. Hann fær bráðum hvíldina og verður heygður hjá Stíg.

Konur áttu sviðið

Kvennabaráttan tekur aldrei enda og oft er mæðutónninn yfirgnæfandi í umræðunni. En ekki síðustu daga. Ekki aldeilis.

19. júní minntust landsmenn – einkum konur – þess að þá voru liðin 93 ár síðan íslenskar konur fengu rétt til þátttöku í alþingiskosningum. Að vísu var sá réttur bundinn við 40 ára lágmarksaldur, sem verður okkur endalaust tilefni furðu og hláturs. Jafn réttur karla og kvenna til kosningaþátttöku var svo lögfestur 5 árum síðar eða 1920. Enn þann dag í dag standa konur þó ekki jafnfætis körlum í stjórnmálaþátttöku. 93 ár? Er nema von að blessuð skjaldbakan komi upp í hugann.

Konur minntust þessara tímamóta á ýmsan hátt þetta árið, heiðruðu hver aðra og þær sem ruddu brautina. Samverustund við þvottalaugarnar í Laugardalnum hefur fest sig í sessi á þessum degi og höfðar til fjölmargra. Og þótt heyra mætti fyrrnefndan mæðutón í viðtölum í tilefni dagsins bar meira á baráttuanda og gleðibragði.

Daginn eftir létu konur til sín taka á eftirminnilegan hátt þegar þær stóðu fyrir söfnun fjár til styrktar kaupum á sérbúnu tæki til leitar að krabbameini í brjóstum, tæki sem kosta mun ríflega 600 milljónir. Ég sem varla hef nennt að horfa á sjónvarp vikum og mánuðum saman sat sem límd við tækið á föstudagskvöldið. Það var svo ótrúlega gaman að sjá og heyra það sem fram fór. Konur stjórnuðu þættinum, konur sátu við síma og tóku á móti framlögum, konur sögðu frá reynslu sinni af krabbameini, konur skemmtu með spili og söng. Og konur féllust í faðma þegar ljóst var að a.m.k. 35 milljónir höfðu safnast. Frábært framtak, frábær árangur.

Á laugardaginn sýndu landsliðskonur í knattspyrnu hvernig fara á með fótbolta. Ég verð að viðurkenna að ég hafði nett samviskubit yfir því að nenna ekki að fara á völlinn til að sjá og styðja þessar kraftmiklu konur. En þeir sem fóru fengu ósvikna skemmtun. Við hin erum engu að síður afskaplega stolt af glæsilegri frammistöðu “stelpnanna okkar”.

Katrín Jakobsdóttir setti svo punktinn yfir i-ið í þessu kvennastuði að morgni sunnudagsins þar sem hún var gestur þeirra Ævars Kjartanssonar og Ágústar Þórs Árnasonar á Rás 1 í þættinum um framtíð lýðræðis. Þau voru rétt byrjuð að spjalla þegar ég settist undir stýri á heimleið eftir morgunsundið og ég gat ekki vikið frá fyrr en að þætti loknum. Það er alltaf gaman að hlusta á Katrínu. Hún kann þá list að tala skýrt og vafningalaust, er blátt áfram og jákvæð í sinni framsetningu. Þennan þátt má enn heyra á netinu.

Þannig má segja að konur hafi átt sviðið undanfarna fjóra daga og þannig mætti það oftar vera svo.