Allar hestaferðir eru skemmtilegar og minnisstæðar hver á sinn hátt. Veðrið ræður miklu, landslagið, reiðgöturnar, félagsskapurinn og umfram allt hestarnir, allt þetta skiptir miklu máli. Hestaferð ársins í ár hafði hins vegar sérstaka þýðingu fyrir mig, þar sem nú var farið um sveitir Suður-Þingeyjarsýslu.
Ræturnar sögðu til sín þegar sveitirnar heilsuðu hver af annarri í sínu fegursta skarti. Stanslaust góðviðri lék við okkur og moldargötur í kílómetra tali buðu upp á þægilegan gang og oftar en ekki hlemmiskeið. Mér þótti vænt um hvað æskuslóðirnar tóku vel á móti ferðafélögunum og fannst ég bera dálitla ábyrgð á því sem þeir fengu að sjá og reyna.
Auk okkar Jónasar voru í hópnum þau Finnur og Fanney, Ævar, Ingibjörg og Edda, Guðjón S., Lóa, Þóra og Ingólfur. Auður tengdamóðir Ingólfs var með okkur fyrri vikuna og Guðlaug konan hans þá seinni. Guðjón Ármann og Guðný komust ekki með í ferðina, en Árni Þórður bróðir Guðjóns, Ylfa dóttir Árna og Þóra systir þeirra bræðra voru með okkur fyrri vikuna. Snilldarkokkurinn Fúsi var svo að sjálfsögðu mikilvægasti og vinsælasti maðurinn í hópnum.
Við lögðum upp frá Laufási í Grýtubakkahreppi 28. júlí og riðum einkar skemmtilega leið suður með Fnjóská vestan ár gegnum Skuggabjargaskóg og Melaskóg að Draflastöðum þar sem við gistum. Hrossin rákust vel og það var heilt ævintýri að fara gegnum þetta skóglendi sem er fáum þekkt. Bæði hestum og knöpum þótti nóg um hitann og moldrykið og áttum við eftir að kynnast því hvoru tveggja enn frekar næstu daga.
Daginn eftir var farið yfir Fnjóská og riðið eftir bökkunum austan ár, því næst gegnum Vaglaskóg og Þórðarskóg og alla leið í Sörlastaði í Timburvalladal, þar sem hestamenn í Létti hafa athvarf fyrir hesta og menn. Þar var glaðsinna fólk á fleti fyrir og undi mannskapurinn við söng og spjall fram eftir kvöldi. Þarna er útsýni mjög fallegt og ekki spillti sólroðinn himinninn.
Þriðja daginn var farið upp í Hellugnúpsskarð, þaðan yfir fellið og niður að Stóruvöllum í Bárðardal. Þetta var torfarin leið og ekki bætti hitinn úr skák sem reyndist ýmsum erfiður. Aðrir létu hitann ekki á sig fá og notuðu tækifærið að ná sér í væna sólbrúnku. Frá Stóruvöllum lá leiðin yfir Skjálfandafljótsbrúna sem skalf og nötraði undan hófataki hestanna og ekki laust við að færi um suma þegar timburfjalirnar virtust ætla að sporðreisast. Hestarnir fengu haga í Víðikeri, en mannskapurinn gisti í Kiðagili.
Fjórða daginn lá leiðin upp með Suðurá að Flesju þar sem við bjuggum um okkur í gangnamannakofum. Flest riðum við svo einhesta inn í Suðurárbotna og skoðuðum þar sem uppsprettur árinnar spýtast fram í fljótið. Hestarnir voru ljónfjörugir á bakaleiðinni, og í grasinu við kofana á Flesju beið okkar listilegur matur, gítarspil, söngur og glaðværð sem hljómaði vel í fjallasalnum.
Mikil dýrð og fegurð blasti við þegar farið var daginn eftir á léttu spori niður með Sellandafjalli. Þar kom Arngrímur Geirsson til móts við okkur og vísaði veginn niður í Mývatnssveit. Hestarnir fengu stærðar haga í landi Álftagerðis, en við bjuggum um okkur í gistiheimili á Skútustöðum. Nokkrir úr hópnum fóru að sækja bílana sem skildir voru eftir í Laufási í byrjun ferðar, en við hin fengum lítinn tíma til að hvílast og hlakka til kvöldverðarins því okkur bárust þær fréttir að hestarnir væru sloppnir úr haganum og roknir út í buskann. Varð uppi fótur og fit og við æddum í leit að hestunum, sem höfðu skellt sér yfir Kráká heimamönnum til mikillar furðu, sögðu það aldrei hafa gerst, en trúlega hefðu þeir ærst vegna bitmýs sem kom undir kvöldið í árásarhug. Fljótlega sáum við til hestanna og reyndum að nálgast þá, en þeir voru trylltir og tóku engum sönsum. Næstu fjórar klukkustundir fóru í æsilegan eltingarleik um holt og móa og gekk á ýmsu. Lenti undirrituð m.a. í djúpum grasi huldum pytti þegar minnst varði, en til marks um hlýindin var ég orðin skraufþurr að leikslokum. Loksins náðist að smala hrossunum saman á hentugum stað hjá Gautlöndum. Einn hestanna hafði þá orðið viðskila við stóðið og æddi villtur og trylltur út og suður. Við Jónas fórum að leita hans og fundum hann örvinglaðan í girðingarhorni, einan og yfirgefinn. Virtist hann harla feginn að sjá okkur og leyfði mér fúslega að beisla sig og teyma. Hann var greinilega mjög þreyttur og ráðvilltur eftir hamaganginn, en léttist heldur betur í spori þegar hann sá loks til félaga sinna. Þeim var svo snúið í rétta átt og fór Arngrímur fyrir hópnum sem rekinn var heim í Álftagerði og fékk nú minni og öruggari haga. Maturinn hjá Fúsa bar ekki merki þess að hafa orðið að bíða okkar í marga klukkutíma. Verður þetta kvöld örugglega oft rifjað upp.
Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir rólegum næsta degi sem kom sér vel eftir lætin kvöldið áður. Þó fórum við í einhesta reiðtúr með Arngrími, sem rekur hestaleigu ásamt Gígju konu sinni, og sýndi hann okkur margt forvitnilegt. Hápunkturinn var að feta í fótspor þeirra sem fyrr á árum fluttu brennistein yfir Mývatn á völdum stað milli bakka. Á þeim tíma voru engir vegir og allt flutt á hestum, sem þá gegndu öðru hlutverki en nú til dags. Vatnið náði vel hálfa leið upp á hestbakið, en botnin var mjúkur. Mývargurinn var í miklum ham og einkennilegt að sjá hvernig hann þeyttist um í skýjum og strókum. Um kvöldið var grillað og borðað úti í félagsskap þeirra ágætu hjóna Gígju Sigurbjörnsdóttur og Arngríms í Álftagerði. Margar sögur voru sagðar og sungið af hjartans lyst við undirleik gítars og harmonikku.
Sjöunda daginn dró úr hitanum, hann “datt niður fyrir 20 stig” eins og Arngrímur orðaði það. Riðið var í Gautlönd og upp í Gautlandaheiði að Sandfelli, suður með Sandvatni og þaðan af lengra. Snerum svo við og riðum sem leið lá niður í Stöng þar sem við fengum næturhaga fyrir hrossin hjá Ásmundi ferðabónda. Síðla dags rigndi nokkuð, en það hafði lítil áhrif á langþurran jarðveginn og síst moldargöturnar góðu.
Daginn eftir fórum við svokallaðan Akureyrarveg yfir heiðarnar norður og vestur af Stöng og var gaman að sjá út Reykjadalinn frá þeim sjónarhóli. Komið er niður hjá Arndísarstöðum í Bárðardal og þaðan fórum við í Fosshól þar sem við fengum að girða af grösugan næturhaga fyrir hestana með aðgangi að góðum læk. Við héldum hins vegar yfir Fljótsheiðina og bjuggum um okkur í Þinghúsinu á Breiðumýri, þar sem við gistum þrjár nætur í góðu yfirlæti.
Næsta dag riðum við niður með Skjálfandafljóti að vestan gegnum Fellsskóg og síðan upp með fljótinu austan megin og gegnum Fossselsskóg. Nokkuð erfitt var sums staðar að komast gegnum Fellsskóg, en mjög fallegt að sjá yfir fljótið með Þingey, Barnafoss og Ullarfoss. Þegar komið var að hliðinu inn í landareign Vaðsbæja blasti við okkur skilti þar sem lýst var banni við umferð hesta og stakk það í stúf við greinilega merkta hestaleið á nýútgefnu korti. Höfðum við reyndar frétt af því að umferð hesta væri illa séð á þessum slóðum, en þegar komið var út úr landi Vaðsbæja beið okkar fljótlega annað skilti þar sem við vorum boðin velkomin í Fossselsskóg. Við riðum svo suður að gamla Fljótsheiðarveginum og niður að Einarsstöðum þar sem hestarnir fengu góðar móttökur og fengu að hvíla sig þar í látlausri blíðunni allan næsta dag.
Hestarnir voru vel hvíldir og léttir í spori þegar við lögðum upp frá Einarsstöðum 7. ágúst, riðum yfir Reykjadalsá og út með Vatnshlíðinni. Ömurlegt var að sjá hvernig skógurinn þar er að grotna niður, illa bitinn og umhirðulaus. Á þeirri leið hvekktist hestur undir Lóu, sem flaug af og braut fingur á vinstri hendi. Var þá gott að hafa Ingólf lækni sem bjó vel um brotið og Lóa reið áfram með okkur þennan dag þótt hún yrði síðan að sleppa frekari reiðmennsku að ráði lækna á Húsavík. Við riðum yfir Laxá og áðum í Hraunsrétt í Aðaldal sem verið er að gera upp og merkilegt að skoða. Þá lögðum við á hina mögnuðu Hvammsheiði sem býður upp á mikla skemmtireið. Þar sat ég Gauk lengst af leiðarinnar og sá var ekki að spara sig. Haga fyrir hestana fengum við hjá Atla á Laxamýri, en sjálf gistum við næstu tvær nætur í Ljósvetningabúð í Köldu-Kinn.
Ætlunin var að ríða daginn eftir gegnum Aðaldalshraun niður á Sandsbæina og þaðan á brúna yfir í Kinn. Ekki hugnaðist sú fyrirætlun öllum húsráðendum sem við þurftum leyfi hjá til að fara um hlað og var þá tekið til þess ráðs að þeysast til baka suður Hvammsheiði og yfir Laxá, þaðan til vesturs og upp hjá Mýlaugsstöðum, yfir heiðina og niður hjá Rauðu-Skriðu, þaðan á brúna yfir Skjálfandafljót og í haga hjá Baldvini í Torfunesi. Hann er þar með mikið ræktunarstarf og sífellt að byggja meira upp. Var gaman að skoða starfsemina og hitta tamningamenn hans. Einn þeirra er Benedikt Arnbjörnsson frá Bergsstöðum, hann reið með okkur þennan dag og fylgdi okkur áleiðis einnig næsta dag. Þorvar frændi minn Þorsteinsson starfar einnig fyrir Baldvin og er m.a. þekktur fyrir sýningar á glæsihestinum Blæ. Þarna sáum við stóðhestinn Mátt sem er afar fallegur og á væntanlega eftir að gera garðinn frægan.
Síðasta daginn í hnakk fengum við fylgd áleiðis upp frá Torfunesi þar til Benedikt treysti okkur til að rata upp í Gönguskarð og yfir í Fnjóskadalinn. Þrátt fyrir ruglingslegar götur og sums staðar erfitt yfirferðar vegna grjóthnullunga var mjög gaman og fallegt að fara þessa leið um skarðið. Ferðin með reksturinn niður brekkurnar að Þverárrétt reyndist nokkuð æsileg, en slysalaus sem betur fór. Þaðan fórum við yfir Fnjóská og riðum nú aftur gegnum Skuggabjargaskóg og að Laufási þar sem ferðin hófst 13 dögum fyrr. Þar hvíldu hrossin sig heilan sólarhring í blíðunni áður en flutningabíllinn sótti þá og kom þeim í heimahaga.
Nú erum við þá aldeilis búin að skoða Þingeyjarsýslurnar rækilega af hestbaki, Norðursýsluna í fyrra og Suðursýsluna í ár. Norðursýslan kom að ýmsu leyti á óvart, en reiðgöturnar í Suðursýslunni slógu allt út. Við vorum líka sérlega heppin með veðrið allan tímann, þótt mývargurinn væri óneitanlega erfiður förunautur og hitinn stundum fullmikill fyrir hesta og menn. Það rigndi aldrei á okkur í hnakk og þótti sumum það með ólíkindum.
Öll ferðin var í rauninni stórkostleg frá upphafi til enda og erfitt að segja til um eitt atvik eða reynslu sem standi upp úr. Fallegt landslag, frábært veður og góðar reiðgötur skora hátt. Mörg okkar kynnu að nefna reið gegnum alla skógana sex sem skemmtilega og óvenjulega reynslu í okkar skógfátæka landi. Sérstök reynsla var að ösla yfir Mývatn og þá ekki síður reiðin gegnum Gönguskarð.
Blessaðir hestarnir brugðust heldur ekki vonum og kunnu enda vel að meta þingeysku moldargöturnar, sem verða lengi í minnum ferðalanga. Í mínum huga eru tveir sprettir efstir á blaði. Stormur dró ekki af sér á leiðinni ofan frá upptökum Suðurár niður á Flesju og hefur aldrei verið betri. Þar var boðið upp á gleði og mýkt, vilja og hraða. Og sama er að segja um þrotlausa þeysireið Gauks eftir Hvammsheiðinni. Ekki leiðinlegt að rifja upp slíka reynslu.