Beðið eftir gæðaskopi

Af áralöngum vana horfi ég enn á Spaugstofuna og þrjóskast við að vonast eftir gæðaskopi. Þeir spaugfélagar eru bara svo ótrúlega misgóðir og reyndar því miður oftar lélegir en góðir nú orðið.

Ég held að mig misminni ekki að þeir hafi verið ólíkt betri fyrr á árum. Kannski eru þeir bara orðnir leiðir á verkefninu. Kannski nenna þeir ekki lengur að leggja sig fram. M.a.s. mistökin sem koma í lok þáttarins bera það með sér að það eru ekki einu sinni mistök, heldur eru þeir að búa til fíflagang sem sjaldnast er fyndinn. Stundum hvarflar að manni að þeir séu einir um að hlæja að vitleysunni.

Í nánast hverjum þætti sækir bjánahrollurinn að þegar Örn rekur við eða Pálmi mígur eða Karl Ágúst þarf hvatningu á klósettinu. Kannski eru slíkir kúk- og pissbrandarar ætlaðir börnum og unglingum, en ég efa stórlega að þeir falli í kramið hjá nokkrum. Líklega er staðreyndin einfaldlega sú að þeim sjálfum finnist þetta fyndið, svo hallærislegt sem það er.

Verst er að þeir virðast eiga bunka af “bröndurum” að grípa til í hallæri. Þessi innskot eru svo útjöskuð og leiðinleg að það er með ólíkindum. Í hvert sinn sem birtist enn eitt dæmið um “manninn á bak við..” þetta og hitt hugsar maður í örvæntingu hvort þessi bunki fari ekki að klárast. Atvinnuspaugarar ættu að vita hvenær nóg er komið.

Svo gerist það eitt og eitt kvöld að spaugfélagar bjóða upp á þessa líka fínu skemmtun í anda páskaþáttarins sællar minningar og þá er augljóst að þeir vanda sig og hafa gaman af því sem þeir gera. En það er því miður sjaldgæft.

Æ oftar kemur það fyrir að ég hugsa sem svo meðan ég horfi á Spaugstofuna að tímanum væri betur varið við annað. Enn er það þó svo að ég sest við skjáinn á laugardagskvöldi í þeirri von að nú komi góði þátturinn. Svei mér ef ég nenni því oftar.