Bill Clinton ku hafa hellt úr skálum visku sinnar vítt og breitt um heiminn allar götur síðan hann var hæstráðandi í Hvíta húsinu. Ekki var það þó ókeypis fyrir þá sem á hlýddu því hann mun hafa fengið greitt fyrir viskuhellinginn 3.8 milljarða króna á síðustu 8 árum og þar með lagt drýgstan hlut allra tekna til bús þeirra Clintonhjóna á þeim tíma. Þetta upplýsir Morgunblaðið í dag og ekki ástæða til að rengja það. Því miður fylgja ekki upplýsingar um innihald þessa mikla ræðuflóðs, en það hlýtur að vera stórmerkilegt úr því það er talið svo mikils virði.
Bandarískur blaðamaður spurði mig eitt sinn hvað ég ætlaði að taka mér fyrir hendur þegar ég hætti á þingi og þótti ég greinilega harla óforsjál að vera ekki með það á hreinu. Þú gætir áreiðanlega haft nóg að gera við að ferðast um heiminn og halda fyrirlestra, sagði hann. Ég tók þessu sem brandara, en svo kynntist ég svolitlum anga af þess konar atvinnustarfsemi, þótt ekki jafnaðist það á við framtak fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Kvennalistinn vakti á sínum tíma gríðarlega athygli og forvitni víða um lönd og bárust okkur boðin í hrönnum um að senda fulltrúa á ráðstefnur og fundi til að kynna þetta fyrirbæri. Stórfenglegasta boðið kom frá kvennasamtökum í Minnisota, World Wide Women, sem óskuðu eftir að fá til sín 4 konur til að ferðast um ríkið í hálfan mánuð og segja frá starfi Kvennalistans á Íslandi. Slíku tilboði var náttúrulega ekki hægt að hafna og ég var svo lánsöm að vera meðal þeirra útvöldu.
Þetta var heilmikið ferðalag og sífellt gist á nýjum og nýjum stöðum. Oftast vorum við tvær og tvær saman, en stundum allar fjórar á stærstu fundunum. Við heimsóttum framhaldsskóla og háskóla, ráðstefnur og fundi af öllum stærðum og gerðum, sögðum frá og svöruðum spurningum. Þetta var slík rússíbanareið að a.m.k. ég gaf mér ekki tíma til að velta fyrir mér hvernig þessi samtök, sem virtust reyndar ekki fjölmenn né umfangsmikil, færu að því að fjármagna þetta allt saman.
Að ferðalokum buðu þessar yndislegu konur okkur að borða á litlum vinalegum stað í Minneappolis og var glatt á hjalla yfir vel heppnaðri aðgerð. Ekki einasta voru þær hæstánægðar með hvernig til tókst með kynningu á kvenfrelsisbaráttunni á Íslandi, heldur kom í ljós að verkefnið hafði skilað þó nokkrum hagnaði. Þær höfðu sem sagt tekið greiðslu fyrir ræðuhöldin okkar úti um borg og bý. Það var nýtt fyrir okkur sem vorum því vanastar að líta á það sem skyldu eða jafnvel heiður að koma fram þar sem við vorum beðnar.
Þessi merkilega reynsla varð þó ekki til þess að ég hellti mér út í fyrirlestraferðalög um heiminn þegar þingmennskunni lauk, enda hætt við að fjölskyldubuddan hefði ekki fitnað á borð við Clintonsjóðinn.
Nú veit ég ekki hvort mörg dæmi eru um íslenska fyrirlesara sem drýgt geta tekjur sínar á þennan hátt. Maður heyrir helst af ræðuhöldum Ólafs Ragnars í útlöndum, kannski fær hann borgað fyrir þau meira en hótel og veislumat. Hvað vitum við um það? Bill Clinton er hins vegar örugglega ekkert einsdæmi í Bandaríkjunum. En að hagnaður þeirrar vinnu teljist í milljörðum á nokkrum árum er athyglisvert. Það hvarflar svona að manni hvort hann taki alltaf við greiðslunni með góðri samvisku.