Moli

Ég missti lítinn vin í gærkvöldi. Ekki bara ég, heldur öll fjölskyldan. Þessi vinur hét Moli. Silkiterrier, tæplega þriggja ára, fallegur og yndislega mjúkur. Hann var einkar notalegur og kúrði gjarna hjá mér þegar ég lagði mig. Dóra mín átti hann, en við tókum hann að okkur fyrir ári þegar hún fór til náms í Flórída.

Moli var algjör orkubolti, var ótrúlega snöggur í hreyfingum, hoppaði margfalda hæð sína eftir dóti þegar við lékum við hann og vildi helst hlaupa um eins og hvirfilvindur. Við gátum auðvitað ekki leyft honum að hlaupa frjáls um hér á Seltjarnarnesi með götur og bílaumferð á alla vegu. Þegar hann komst í sveitina var hann hins vegar í essinu sínu að fá að hlaupa um frjáls og elta nefið sitt um hæðir og hóla.

Moli fékk vissulega mikla hreyfingu þótt hann yrði að vera bundinn í ól hér í þéttbýlinu. Þeir Jónas fóru í langa morgungöngu nánast hvern dag og ég fór með hann í margar ferðir um Valhúsahæð og sjávarbakkana í vondu sem góðu veðri. Hann gat líka verið hér innan garðveggja og haft sína hentisemi þar, leikið sér með fótbolta og stolist til að grafa svolítið í blómabeðin.

En Moli litli elskaði frelsið og langaði alltaf að hlaupa um óhindraður. Hann var furðu sterkur þessi litli orkubolti og við þurftum að halda fast í ólina hans í göngutúrum. Enn frekar þurfti að gæta þess vel að hann slyppi ekki út þegar gengið var um útidyrnar. Því miður brustu stundum allar varúðarreglur og oft skall hurð nærri hælum.

Í gærkvöldi gerðist það sem við höfðum lengi óttast. Moli sá dyragætt opnast og skaust eins og eldibrandur út í frelsið. Það varð honum dýrkeypt. Við hlupum strax þrjú á eftir honum, en í þetta sinn tókst ekki að afstýra slysi. Moli varð fyrir bíl á Norðurströndinni og dó í fanginu á mér á leiðinni á Dýraspítalann. Litli orkuboltinn okkar galt fyrir frelsisþrána með lífi sínu.

Hér ríkir því sorg og söknuður. Sindri og Breki áttu bágt með að skilja og meðtaka vonsku heimsins, en eftir að hafa fengið tölvupóst frá mömmu í Flórída hugga þeir sig við að líklega hafi Moli bara átt að eiga þennan tíma með okkur og núna geti hann hlaupið frjáls um eins og eldibrandur þar sem engir bílar eru fyrir honum. Við fundum líka lítinn gamlan bangsa, gulan og brúnan eins og Moli var, sá hefur nú fengið nafnið Moli, og Breki er sannfærður um að sálin hans Mola sé komin í þennan bangsa. Barnshugurinn geymir margar dýrmætar lausnir.