Flugdrekahlauparinn

Ég fer sjaldan í bíó. Í gær sá ég þó frábæra kvikmynd, Flugdrekahlauparann. Og það rifjaðist upp fyrir mér að það er ekki galið að bregða sér í bíó síðdegis á virkum degi. Þá er lítil barátta um sætin, áhorfendur fáir og ekkert sem hindrar mann í að njóta myndarinnar.

Í þetta sinn voru áhorfendur 10 – 15 talsins. Ekki var okkur hlíft við hrútleiðinlegum auglýsingum og kynningum á væntanlegum myndum áður en aðalmyndin var sýnd. Hávaðinn er ferlegur meðan á þessum auglýsingum og kynningum stendur og það flögraði að mér að yfirgefa salinn. Loksins hófst þó sagan um flugdrekahlauparann í Kabúl.

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Khaled Hosseini. Bókin snart mig djúpt líkt og flesta sem lesa hana og ég hikaði satt að segja við að sjá myndina. Sagan er óvenjuleg og vel sögð. Hún bæði gleður og hryggir og situr lengi í huganum. Frásögnin er svo lifandi og örlög þeirra skipta lesandann máli. Ég óttaðist að kvikmyndatjaldið gæti ekki skilað sömu áhrifum.

Galdur kvikmyndarinnar var ekki sami og bókarinnar. Myndin er lengri en kvikmyndir yfirleitt eru. Þó vantaði ýmislegt í sögu Hosseinis. Það vantaði margt í makalausri uppbyggingu sögunnar og ótal atriði sem skiptu máli til skilnings. En meginatriði sögunnar komust til skila og engum óþarfa troðið inn í söguþráðinn. Ég naut myndarinnar. Var fegin hversu lítið bar á áhrifum bandarískrar kvikmyndahefðar.

Einhvers staðar las ég allharða gagnrýni á þessa kvikmynd. Hún endaði á ósk þess efnis að vonandi yrði ekki reynt að koma nýjustu sögu Hosseinis, Þúsund bjartar sólir, á kvikmyndatjaldið. Eftir þessa reynslu hef ég ekki áhyggjur af því.

Sögur Khaled Hosseinis eru ótrúlega magnaðar. Hann hlífir ekki lesandanum við skelfilegum aðstæðum og ótrúlegri grimmd. En hann leyfir okkur líka að kynnast góðu fólki og gleymir aldrei voninni.