Prins Kraflarsson verður seint talinn til liprustu gæðinga, en hann er duglegur ferðahestur. Ég puða við að liðka hann nánast daglega um þessar mundir, en gengur ekki of vel. Við fórum enn einn túrinn í gær, fyrst nokkra hringi kringum minnsta gerðið á svæðinu og brugðum okkur svo í sæmilega rösklegan reiðtúr, svokallaðan trippahring.
Ég hleypti Prinsinum á stökk sem oft hefur gefist vel til að liðka sporin, en þá urðum við fyrir því óláni að vinstri ístaðsólin slitnaði. Væntanlega hefði ég hangið á baki ef við hefðum ekki verið á harðastökki, en raunin varð að ég lá eftir í vegarkantinum þegar Prinsinn hljóp heim að húsi með flaksandi hnakkinn.
Þetta var reyndar ansi óþægileg bylta sem bitnaði á ýmsum pörtum líkamans. Notkun reiðhjálms sannaði hins vegar rækilega gildi sitt. Ég man ekki einu sinni til þess að hafa rekið hausinn í harða götuna, en brotinn og beyglaður hjálmurinn talar sínu máli.
Rifjast nú upp fyrir mér tilraunir mínar forðum daga á Alþingi til að fá samþykkt lög um hjálmaskyldu. Nokkrir þingmenn studdu það mál, en aldrei fékkst það afgreitt. Málið var sent til umsagnar og nokkuð rætt í fjölmiðlum. Sérkennilegast þóttu mér viðbrögð Kristins Guðnasonar á Skarði, áhrifamanns í félagasamtökum hestamanna um árabil, sem hæddist að tillögunni og spurði hvort lögreglan ætti að vera á sprettinum um fjöll og firnindi til að tryggja að menn væru með hjálm á hausnum.
Lög um hjálmanotkun í reiðmennsku hafa ekki litið dagsins ljós og enn sjást alltof margir með óvarið höfuð, ekki síst tamningamenn sem sumir telja sig líklega svo klára að þeir þurfi ekki á slíku að halda. En “þeir hafa vitið sem verja það”, segir málshátturinn og mun ég nú kaupa nýjan hjálm og glaðbeitt halda áfram að verja það sem eftir er í mínum kolli.