Kóngur fallinn

Kóngur var felldur 9. október. Hann var kominn á 30. aldursár og mjög farinn að daprast, ekki síst eftir fráfall Stígs, sem lagðist niður á Kaldbakstún og dó í júlí sl. Þeir félagarnir voru samferða í 20 ár og stóð alltaf til að þeir fengju að verða samferða inn í eilífðina. Veturinn hefði orðið Kóngi erfiður, ekki síst þar sem félagi hans var ekki lengur til staðar. Því var ekki um annað að ræða en að hjálpa honum yfir landamærin.

Kóngur hafði þá merkilegu stöðu í hrossahópnum okkar að vera fyrsti og elsti hestur fjölskyldunnar. Hann fæddist 1979, móðir Blanda Blönduósi, faðir Þráður frá Nýjabæ og föðurfaðir Sörli frá Sauðárkróki. Kóngur var myndarlegur hestur, sótrauður, glófextur og stjörnóttur.

Dóra, upphafsmanneskja hestamennskunnar í fjölskyldunni, eignaðist Kóng 1987, en hann var reiðhestur Jónasar í fjölmörgum langferðum. Hann var traustur ferðahestur, nokkuð grófur og hastur á brokkinu, en tölti ágætlega. Bestur var hann á hægu og afar virðulegu tölti. Það kallast að kasta toppi. Jónas sagði gjarna að hann tölti eins hægt og hann komst upp með án þess að stoppa og hefði sómt sér vel í lífverði konungs.

Kóngur og Stígur fengu frí frá hestaferðum fyrir níu árum og nutu góðs atlætis í Kaldbakslandi meðan heilsan leyfði. Kóngur var heygður í Torfholti við hlið Stígs. Það er sjónarsviptir að þeim félögum.