Vígsluathöfn á Fornuströndinni

Mitt í allri ólgunni vegna bankahruns og krónufalls var efnt til sérstæðrar hjónavígslu hér á Fornuströndinni. Brúðguminn var hann Pétur okkar og brúðurin Miriam Pacheco Melasqez frá Perú, kölluð Marcela.

Pétur og Marcela kynntust árið 2005 þegar Pétur fór sína heimsreisu að loknu námi í tölvunarfræði. Þau hittust í rútu, þar sem Marcela var við leiðsögn, og töluðu mikið saman. Þau viðhéldu kynnum sínum með tölvusambandi og heimsóknum á báða bóga og létu ekki fjarlægðina spilla sambandinu. Marcela kom svo til okkar í desember sl. og sunnudaginn 11. janúar hétu þau hvort öðru tryggð.

Vígsluathöfnin var mjög sérstæð og falleg. Svokallaður athafnarstjóri á vegum Siðmenntar stýrði hátíðlegri persónulegri giftingarathöfn. Athafnarstjórinn heitir Steinar Harðarson og starfar eins og Pétur hjá Vinnueftirliti ríkisins. Hann fór með texta á íslensku og Dóra las þýðingu textans á spænsku. Sérvalin tónlist hljómaði úr tölvu.

Eingöngu fjölskyldan var viðstödd, þ.e. við Jónas, börn okkar, tengdabörn og barnabörn. Sindri, Auður og Kári stjórnuðu tölvutónlistinni, Kristín og Breki færðu hjónunum hringana.

Eftir athöfnina nutum við sameiginlegrar máltíðar sem endaði með ljúffengri og fallega skreyttri súkkulaðitertu. Á henni var skrautritað: Til hamingju Pétur og Marcela.

Það fylgir sögunni að vígsluathöfn Siðmenntar er ekki lögfesting og því þurfa pörin að láta lögfesta giftinguna hjá sýslumanni. Það gerðu Pétur og Marcela að sjálfsögðu og þótti reyndar ekki mikið til koma. Eitthvað rámar okkur Jónas í þá snautlegu athöfn borgarfógeta sem við gengumst undir fyrir margt löngu. Það er mikil framför fyrir pör sem ekki kæra sig um kirkjulega giftingarathöfn, að kostur sé á fallegri athöfn eins og þeirri sem við urðum vitni að 11. janúar sl.