Kvennabaráttan tekur aldrei enda og oft er mæðutónninn yfirgnæfandi í umræðunni. En ekki síðustu daga. Ekki aldeilis.
19. júní minntust landsmenn – einkum konur – þess að þá voru liðin 93 ár síðan íslenskar konur fengu rétt til þátttöku í alþingiskosningum. Að vísu var sá réttur bundinn við 40 ára lágmarksaldur, sem verður okkur endalaust tilefni furðu og hláturs. Jafn réttur karla og kvenna til kosningaþátttöku var svo lögfestur 5 árum síðar eða 1920. Enn þann dag í dag standa konur þó ekki jafnfætis körlum í stjórnmálaþátttöku. 93 ár? Er nema von að blessuð skjaldbakan komi upp í hugann.
Konur minntust þessara tímamóta á ýmsan hátt þetta árið, heiðruðu hver aðra og þær sem ruddu brautina. Samverustund við þvottalaugarnar í Laugardalnum hefur fest sig í sessi á þessum degi og höfðar til fjölmargra. Og þótt heyra mætti fyrrnefndan mæðutón í viðtölum í tilefni dagsins bar meira á baráttuanda og gleðibragði.
Daginn eftir létu konur til sín taka á eftirminnilegan hátt þegar þær stóðu fyrir söfnun fjár til styrktar kaupum á sérbúnu tæki til leitar að krabbameini í brjóstum, tæki sem kosta mun ríflega 600 milljónir. Ég sem varla hef nennt að horfa á sjónvarp vikum og mánuðum saman sat sem límd við tækið á föstudagskvöldið. Það var svo ótrúlega gaman að sjá og heyra það sem fram fór. Konur stjórnuðu þættinum, konur sátu við síma og tóku á móti framlögum, konur sögðu frá reynslu sinni af krabbameini, konur skemmtu með spili og söng. Og konur féllust í faðma þegar ljóst var að a.m.k. 35 milljónir höfðu safnast. Frábært framtak, frábær árangur.
Á laugardaginn sýndu landsliðskonur í knattspyrnu hvernig fara á með fótbolta. Ég verð að viðurkenna að ég hafði nett samviskubit yfir því að nenna ekki að fara á völlinn til að sjá og styðja þessar kraftmiklu konur. En þeir sem fóru fengu ósvikna skemmtun. Við hin erum engu að síður afskaplega stolt af glæsilegri frammistöðu “stelpnanna okkar”.
Katrín Jakobsdóttir setti svo punktinn yfir i-ið í þessu kvennastuði að morgni sunnudagsins þar sem hún var gestur þeirra Ævars Kjartanssonar og Ágústar Þórs Árnasonar á Rás 1 í þættinum um framtíð lýðræðis. Þau voru rétt byrjuð að spjalla þegar ég settist undir stýri á heimleið eftir morgunsundið og ég gat ekki vikið frá fyrr en að þætti loknum. Það er alltaf gaman að hlusta á Katrínu. Hún kann þá list að tala skýrt og vafningalaust, er blátt áfram og jákvæð í sinni framsetningu. Þennan þátt má enn heyra á netinu.
Þannig má segja að konur hafi átt sviðið undanfarna fjóra daga og þannig mætti það oftar vera svo.