Stígur hét fyrsti hesturinn sem ég eignaðist. Fallegur hestur, kraftmikill og duglegur, með þægilegt brokk og reyndist vel í langferðum. Þessi elska lagðist niður á Kaldbakstún í góðviðrinu 6. júlí sl. og reis ekki upp aftur. Það var hans síðasta verk. Líklega fékk hann hjartaslag, orðinn 28 vetra og saddur lífdaga. Hann var heygður í Torfholti.
Stígur kom til okkar árið 1988, f. 1980, hét upphaflega Stóri-Jarpur, dökkjarpur og myndarlegur hestur. Stígur var undan Perlu frá Vík og Létti frá Vík. Faðir Léttis var Úlfsstaða-Blakkur og móðir Blesa í Flatatungu. Faðir Perlu var Svaði frá Kirkjubæ og móðir Perla frá Rauðhálsi. Ekki kunni ég nógu vel í upphafi að meðhöndla Stíg og lærði ekki almennilega að láta hann tölta fyrr en Helgi Leifur hafði tuktað hann svolítið til og kennt mér á hann. Hann var nokkuð þungur í taumi og enginn eðlistöltari, en gat vel tölt með nokkurri fyrirhöfn.
Stígur var mikill karakter og þurfti að umgangast hann með virðingu. Hann hafði þann sið að ýta rösklega við mér með hausnum þegar ég var að leggja á hann og stússa kringum hann eins og hann vildi segja mér að gjöra svo vel og taka eftir honum og koma fram við hann á tilhlýðilegan hátt. Hann var foringi í sér og passaði vel upp á sinn hóp í langferðum, stuggaði ákveðinn við hestum sem ekki tilheyrðu hans hópi.
Mér þótti mjög vænt um Stíg minn og gott að sitja hann, þótt ekki væri hann gallalaus. Mér er ljóst að ég hefði getað fengið miklu meira frá honum ef ég hefði lagt mig meira fram, farið með hann á námskeið og lært betri reiðmennsku. Ég var búin að eiga hann alllengi, þegar ég komst að því að fyrri eigendur höfðu ekki ráðið við hann svo að kannski var hann bara harla sáttur við þennan viðvaning sem ég var á þessum tíma. Ég hentist reyndar nokkrum sinnum af baki í okkar samskiptum, en ég get ekki kennt Stíg um það, heldur mínu eigin reynsluleysi og klaufaskap.
Við fórum margar ferðir saman, við Stígur, m.a. yfir Kjöl og Sprengisand. Það var einmitt í Sprengisandsferðinni sem Hinrik Jónsson, sprenglærður og þaulvanur hestamaður, fékk Stíg lánaðan einn drjúgan áfanga. Ég var ekki lítið stolt þegar Hinrik þakkaði mér hestlánið og sagði: “Þetta er alveg magnaður hestur”. Þessi orð glöddu mig mjög og geymdust í huga mér.
Eftir 10 ára þjónustu í ótal hestaferðum um landið bilaði Stígur í fótum, varð hrösull og dugði ekki lengur til ferða, ekki einu sinni stuttra reiðtúra. Hann fékk því að eiga síðustu 9 árin sín náðug í haga. Dró þá úr fasi Stígs og karaktereinkennum, en hann var alltaf glansandi á húð og virtist njóta frelsisins í Kaldbakslandi. Hann gekk oft við taum undir barnabörnunum, hann var svolítið söðulbakaður og þeim fannst gott að sitja hann, þótti raunar enginn hestur betri.
Dóra, upphafsmanneskja hestamennskunnar í fjölskyldunni, eignaðist Kóng 1987. Hann fæddist ári fyrr en Stígur og er því orðinn 29 vetra. Kóngur fékk frí frá hestaferðum á sama tíma og Stígur, þótt hann hefði ekkert bilað á heilsu og virðist enn furðu hraustur. Þeir Stígur og Kóngur hafa því verið samferða öll þessi ár og afskaplega samrýmdir, viku naumast hvor frá öðrum. Nú er Kóngur augljóslega dapur og einmana, saknar vinar í stað. Hann fær bráðum hvíldina og verður heygður hjá Stíg.