Um nokkurra ára skeið hef ég verið áskrifandi að Morgunblaðinu og líkað yfirleitt þokkalega, stundum þó illa. Meðvituð um eigendur og ritstjóra kemur umfjöllun blaðsins þó sjaldnast á óvart. Frábærar myndir RAX og nokkra góða greinaflokka, t.d. um virkjun auðlinda, kunni ég vel að meta. Sömuleiðis stöku minningargreinar, sudokuþrautir og Kalvin & Hobbes! Þá minnist ég þess að hafa fengið ágæta fyrirgreiðslu blaðsins í þau skipti sem ég hef óskað eftir birtingu eigin greina, sem var reyndar nokkuð oft á árum áður.
Þannig er ekki hægt að segja annað en að samband okkar og samskipti hafi gengið bara vel og friðsamlega. Þangað til nýjustu eigendur fengu æðiber í rassinn og lentu út í eintómt rugl og vitleysu. Það var að vísu svolítið gaman í örfáa daga, sérstaklega að hlusta á rökstuðning aðaleigandans, Óskars Magnússonar(ætli hann sé ekki formaður stjórnar blaðsins?), í Kastljósi fyrir því að ráða Davíð Oddsson sem ritstjóra blaðsins. Hann var svo kyndugur á svip og í orðum að hann virtist í rauninni vera að grínast.
Fljótlega varð mér ljóst að þetta var ekki eintómt grín. Eigendur Morgunblaðsins virðast ekki sjá neitt athugavert við það að ráða að blaðinu mann sem ber að margra dómi meginábyrgð á kollsteypu samfélagsins. Mann, sem hefur ráðið nánast lögum og lofum hér á landi undanfarna 2 – 3 áratugi, innleitt óbeislaða frjálshyggju og einkavæðingu með hörmulegum afleiðingum. Mann, sem aldrei gengst við mistökum, heldur þvær hendur sínar af meiri elju en sjálfur Pílatus forðum daga. Hvernig túlkar slíkur maður hvað felst í mikilvægum gildum eins og siðferði, trúverðugleika og lítillæti.
Ég sagði upp áskriftinni að Morgunblaðinu. Ég gat ekki hugsað mér að styrkja slíka vitleysu. Líklega hafa æði margir gert slíkt hið sama og eigendum og ritstjórum ekki litist á blikuna því skömmu síðar barst mér eftirfarandi bréf:
Reykjavík, 30. september 2009.
Ágæti áskrifandi.
Við undirritaðir, sem nýlega höfum tekið við ritstjórn Morgunblaðsins, bindum góðar vonir við störf á þeim vettvangi. Það er einlægur ásetningur okkar að Morgunblaðið verði áfram það vandaða og góða dagblað sem það hefur verið áratugum saman og við munum leggja okkur alla fram um að það markmið náist. Við vitum og viljum að áskrifendur og lesendur blaðsins hafi mikið um það að segja, hvernig til tekst. Þar sem þú hefur sagt upp áskrift þinni nýlega viljum við tryggja að þú getir lagt eigið mat á hvernig blaðið þróast. Höfum við ákveðið að gefa þér kost á að fá blaðið, þér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga um áframhaldandi áskrift, út október mánuð. Viljirðu ekki þiggja þetta boð biðjum við þig vinsamlega að láta okkur vita á netfangið askrift@mbl.is eða hringja í 569-1122. Ef þig langar að koma á framfæri athugasemdum um blaðið og okkar störf þá bendum við á netfangið ritstjorar@mbl.is.
Með góðum kveðjum,
Haraldur Johannessen
Davíð Oddsson
Ég fann mig knúna til að kvitta fyrir þetta merkilega bréf með eftirfarandi tölvupósti sem ég sendi í dag:
Til Davíðs Oddssonar og Haraldar Johannessen
Ágætu ritstjórar.
Dæmalaust er nú hugulsamt af ykkur að senda mér bréf með sérstöku boði um ókeypis lestur Morgunblaðsins í heilan mánuð. Mér hreinlega volgnar um hjartarætur af umhyggjusemi ykkar.
Sérstaka athygli vekur föðurleg áminning ykkar, sem felst í eftirfarandi setningu í bréfi ykkar: “Þar sem þú hefur sagt upp áskrift þinni nýlega viljum við tryggja að þú getir lagt eigið mat á hvernig blaðið þróast. Höfum við ákveðið að gefa þér kost á að fá blaðið, þér að kostnaðarlausu og án skuldbindinga um áframhaldandi áskrift, út október mánuð”.
Nú er það svo að ég tel mig ekki þurfa að njóta þessarar umhyggju, enda virðist hún reist á röngum forsendum. Það er nefnilega ekki fátækt, sem rak mig til þess að segja upp áskrift að Morgunblaðinu, heldur koma þar við sögu ýmis gildi, sem ég tel skipta miklu, svo sem siðferði, trúverðugleiki og hæfilegt lítillæti.
Ég hef þegar lagt eigið mat á þróun mála á Morgunblaðinu. Í samræmi við það afþakka ég þetta höfðinglega boð.
Með kveðju,
Kristín Halldórsdóttir
Fornuströnd 2
170 Seltjarnarnesi