Það fjölgar í Torfholti í Kaldbakslandi niður undir Kluftánni. Víkingur minn var felldur 22. ágúst og heygður þar við hlið Stígs og Kóngs. Þá var einnig felldur Skrímnir, hestur Ástu systurdóttur Katrínar. Hann gekk með okkar hestum í nokkur ár og var ætlunin að hann gæti gagnast börnum. Hann reyndist liðónýtt reiðhross, hreyfði sig ekki úr sporunum ef einhver var á baki, vildi bara eiga náðuga daga og fékk það svikalaust.
Víkingur var fæddur 1987, faðir Leó Stóra-Hofi, ff. Dreyri frá Álfsnesi, fm. Litla-Jörp Reykjum. Móðir Víkings var Nös á Grund í Vestur-Hópi og foreldrar hennar bæði Hindisvíkurhross. Þess má geta að það er Víkingur sem ég held utan um á forsíðu heimasíðunnar og hefði reyndar gjarna mátt sjást betur.
Við keyptum Víking 1992 af Sturlu, Keldunesi í Axarfirði. Jónas átti leið þar um í hestaferð og fékk að prófa hann, leist vel á gripinn og samdi um kaup á honum með þeim fyrirvara að mér líkaði hann. Skömmu seinna fór ég í Keldunes og mátti þá raunar bíða alllengi og spjalla við húsfreyju þar til Sturla birtist loks með Víking í taumi og hefur væntanlega riðið úr honum mestu lætin. Mér leist vel á hestinn og kaupin voru gerð.
Víkingur reyndist hins vegar lengi vel nokkuð villtur og ódæll. Hann kom ólmur og fnæsandi af hestaflutningabílnum og sýndi af sér ýmsa óþekkt fyrsta árið. Honum leist ekkert á sig í Víðidalnum og rauk þar oftar en einu sinni. Tamningamenn sáu Jónas glíma við hestinn og héldu að honum væri eitthvað illa við mig þegar hann sagði þeim að þetta ætti að verða minn reiðhestur.
Til að byrja með höfðum við þann háttinn á að Jónas teymdi Víking frá húsi í Víðidalnum, en hann sleit sig frá honum a.m.k. einu sinni nánast hvert eitt sinn sem við fórum í reiðtúr og hljóp montinn og glæstur aftur heim að húsi. Hann komst þó ekki upp með það, var alltaf sóttur aftur, og að hálfnaðri leið tók ég við, reið honum heim og gætti þess vel að vera aftan við traustan hest. Loks náðum við fullkomnum sáttum og Víkingur reyndist mér afar vel.
Víkingur var fallegur hestur sem allir tóku eftir. Jarpur með geysiþykkt og mikið fax og tagl, fasmikill, viljugur, kröftugur og úthaldsgóður, mjúkur töltari, en brotnaði oftast í brokk þegar hann hægði á. Bestur var hann á mjög hægu eða mjög hröðu tölti. Hann var mjög góður ferðahestur og ólatur að hlaupa fyrir ef á þurfti að halda. Mér telst svo til að við höfum farið saman í a.m.k. 25 hestaferðir þessi ár sem hann var í essinu sínu.
Það þurfti að kunna lagið á Víkingi, því kynntust þeir sem fengu hann að láni sem voru reyndar fáir. Þeir fengu nefnilega flugferð til jarðar ef þeir gættu ekki að sér. Hann var þó alls ekki hrekkjóttur, heldur einkar kraftmikill, snöggur upp á lagið og lítið fyrir hangs. Þegar komið var á bak honum vildi hann drífa sig af stað og þá var eins gott að vera reiðubúin. Hann rumdi af ákafa og það gekk stundum mikið á fyrsta sprettinn.
Vorið 2005 fann ég að Víkingur var ekki eins og hann átti að sér. Hann vantaði kraft og úthald, hélt ekki gamalkunnum hraða og bað um fet. Myndataka sýndi að hann væri illa spattaður, yrði að fá algjöra hvíld í a.m.k. ár og e.t.v. yrði hann ekki til reiðar framar. Það var mér mikið áfall og ég grét ofan í faxið á mínum góða vini. Eftir árs hvíld var hann aftur myndaður og skoðaður í bak og fyrir og ljóst varð að bata fengi hann ekki.
Víkingur naut frelsis í Kaldbakslandi með hinum hestunum næstu fjögur árin og virtist líða ágætlega. Hann var alla sína tíð fremur feitlaginn og fitnaði úr hófi fram þegar hann var ekki lengur notaður til reiðar. Það var honum til baga. Í sumar var orðið ljóst að tími hans væri liðinn. Hann var orðinn alltof feitur og þungur fyrir sína veiku fætur, hann hafði gránað mikið og feldurinn tapað glansinum.
Ég hef kvatt sérstakan kafla í minni hestamennsku og sakna míns góða vinar.