Heklu notið á allar hliðar

Hestaferð sumarsins er nú að baki og skilur eftir góðar minningar. Að þessu sinni var tekinn stór og mikill hringur um Heklu og hennar notið á allar hliðar. Lagt var upp frá Kaldbak, gist í Helgaskála, því næst Hólaskógi, svo Landmannahelli, Fossi og endað í Bolholti. Reyndar fengu aðeins hrossin gistingu á Fossi, við hin gistum 2 nætur í Bolholti hjá Fanneyju og Finni.

Ferðin hófst með talsverðum gassagangi. Hrossin voru ekki öll alveg tilbúin að fara á virðulegum gangi yfir ásana niður að Stóru-Laxá og lentum við Fanney í miklum loftköstum niður síðustu brekkurnar. Sem betur fór héldumst við á baki og höfðum bara gaman af. Fljótlega róaðist stóðið og tók upp betri siði, lestaðist fallega og hagaði sér yfirleitt með sóma. Stöku sinnum tók þó hópurinn upp á því að vilja fara í aðra átt en mannfólkið, en það tilheyrir bara í slíkum ferðum og veitir mikla útrás þeim sem hafa gaman af smölun.

Hestar Jónasar, Logi, Garpur, Djarfur og Léttir, og mínir, Gaukur, Prins og Stormur, stóðu sig með prýði. Hins vegar lentum við nú í fyrsta skipti í slíkri ferð í því að einn þeirra, Prinsinn, fékk hrossasótt. Sem betur fór gerðist það ekki fyrr en síðasta daginn. Sprauta fannst í meðfylgjandi sjúkrakassa og hljóp Prins með heim í Bolholt. Þar kom í ljós að hann var enn illa haldinn, en fljótt gekk að fá dýralækni að Bolholti. Charlotta Oddsdóttir dýralæknir á Hellu kom og gerði nauðsynlegar ráðstafanir og virtist Prins jafna sig alveg næstu daga.

Veðrið var yfirleitt með ágætum, en með ýmsu móti eins og gengur. Stundum var breyskjuhiti, einu sinni hellirigning, oft sterkur vindur með tilheyrandi moldroki sem setti mark sitt á andlit knapanna. Þannig er nú bara Ísland.

Við vorum 12 talsins, 11 knapar og kokkurinn/trússarinn ómissandi, sjálfur Sigfús Almarsson. Auk okkar Jónasar voru Finnur Guðsteinsson, sem hafði veg og vanda af undirbúningi og stjórnun, Fanney Sigurðardóttir, Þóra Jónsdóttir, Sigrún frænka hennar (úbs, veit ekki föðurnafnið) Guðrún Geirsdóttir, María Ellingsen, Einar Árnason, Guðjón Aðalsteinsson og Jónas R. Jónsson. Öll frábærir félagar sem sannarlega lögðu sitt af mörkum til að tryggja bæði mannfólki og hrossum góða og skemmtilega ferð.