Sulta kom og Sulta fór

Fyrir 16 árum stökk falleg lítil kisa inn um gluggann á bílskúrnum okkar og ákvað að eiga þar heima. Bílskúrinn sá hefur aldrei hýst bíl þau 30 ár sem hann hefur staðið undir húsinu okkar á Fornuströnd 2. Hann breyttist smám saman í geymslurými, en þó fyrst og fremst í íverustað af ýmsu tagi. Þar var t.d. eitt sinn samkomustaður skáta og fyrr en varði tóku við hávaðasamar hljómsveitaræfingar, jafnvel eitt kærustuparið bjó þar um hríð. Þannig nýtti yngri kynslóðin skúrinn og bætti smám saman umhverfi og aðstæður.

Pétur var húsráðandi í bílskúrnum þegar kisa litla stökk inn um gluggann og hann tók henni vel. Hann skýrði hana Rabbarbarasultu í höfuðið á afar vinsælum sultukrukkum sem geymdar voru í hillum þar niðri, en stytti nafnið fljótlega í Sultu. Við vissum aldrei hvaðan hún Sulta litla kom eða hvort einhver átti þetta djásn. En hún fékk mat og allt það atlæti sem hún kærði sig um.

Áður en langt um leið kom í ljós að Sulta var ekki bara að hugsa um sjálfa sig því hún þurfti gott pláss fyrir stóra fjölskyldu. Nokkrum vikum eftir fyrstu heimsókn hennar kom hún sér vel fyrir í kassanum sínum og gaut þar heilum 6 kettlingum. Þetta var glæsilegur hópur sem gaman var að fylgjast með. Í fyllingu tímans tókst að koma þeim flestum fyrir hjá góðu fólki. Tveir urðu þó eftir hjá okkur. Annar þeirra varð fyrir bíl, en hinn er enn hjá okkur og fékk það virðulega nafn Víkingur sem ég gruna að tengist frekar bjór en ribbaldahætti fornmanna. Hann hefur reynst afar notalegur og góður heimilisköttur.

Þegar á leið var ljóst að Sulta kaus að vera út af fyrir sig, hafði takmarkaðan áhuga á afkvæmum sínum og kærði sig ekkert um aðra ketti svona yfirleitt. Hún hélt þó tryggð við götuna og betlaði mat víðar en hjá okkur. Fljótlega valdi hún að eiga heima hjá góðu fólki hér ofar í götunni, sem ætlaði reyndar alls ekki að taka hana inn til sín. En Sulta þráaðist við, svaf oftast úti í garðinum og betlaði á dyraþrepinu þar til þetta ágæta fólk stóðst hana ekki lengur. Þar var vel um hana hugsað, en okkur til ánægju kom hún alltaf öðru hverju í heimsókn til okkar og þáði mjólkursopa og fleira gott. En hún vildi ekki fyrir nokkurn mun leika við son sinn.

Sulta var falleg kisa, brún- og svartbröndótt, afskaplega nett og fyrirferðarlítil, varkár og tortryggin, jafnvel feimin. Hún var með minnstu loppur sem ég hef séð á ketti og lét aldrei til sín heyra, heldur straukst allt í einu við fætur manns og horfði biðjandi eftir góðgæti í skál. Fallegi feldurinn hennar lét á sjá síðastliðinn vetur, varð þvældur og úfinn og glansinn fór af. Hún var augljóslega að nálgast ævilokin enda líklega orðin 17 ára. Það er nú ókosturinn við blessuð heimilisdýrin, þau lifa yfirleitt svo miklu skemur en mannfólkið.

Nú hefur Sulta ekki látið sjá sig í marga daga og finnst hvorki á Fornuströnd 2 né 14. Eins og svo margir kettir gera þegar stundin nálgast hefur hún vafalaust fundið sér stað til að kveðja þennan heim og óvíst að við finnum þann góða stað nokkurn tíma. Við verðum bara að treysta því að nú líði henni vel.