Sumarið er búið

Í darraðardansi haustlægðanna er ekki hjá því komist að viðurkenna að sumarið er búið. Vetur gamli gæti jafnvel bankað upp á innan fárra vikna. Svona er lífið.

Sumarið 2009 var með miklum ágætum, enda nýt ég bæði vors og sumars ævinlega frá upphafi til enda. Birtan og hlýindin hrekja burt ergelsi og áhyggjur. Skrokknum líður mun betur í sumarsólinni en vetrarmyrkrinu og mörg skemmtileg verkefni kalla eitt af öðru. Og best af öllu er að þeysa á hesti um landið á björtum sumardögum.

Við vorum mikið á Kaldbak og fórum marga góða reiðtúra um landareignina. Riðum einnig um lendur Þverspyrnu og skemmtum okkur vel. Vorum því vel búin undir hestaferðina kringum Heklu sem sagt er lítillega frá hér fyrr í minnisbókinni.

Við fórum ýmsa lystitúra út frá Kaldbak á góðviðrisdögum í sumar enda stutt að fara á jeppanum á marga fallega staði í nágrenninu. Mesta ævintýrið var að komast í Veiðivötnin sem við höfum lengi ætlað okkur að sjá. Og þvílík dýrð. Við fórum vítt og breitt um svæðið í yndislegu veðri, sólskini og logni svo að fjöll og hólar stóðu á höfði í vötnunum. Þessu svæði er erfitt að lýsa. Eina leiðin er að sjá með eigin augum.

Ágústmánuði eyddi ég svo til öllum í Varmahlíð. Nýt þess alltaf mjög að dveljast þar á æskuheimilinu og vitja gamalla róta. Kári, Sindri og Breki nutu lífsins með mér fyrri hluta mánaðarins. Þeim þykir vænt um staðinn og hlakka alltaf mikið til sumardvalar þar. Við heimsóttum Fuglasafn Sigurgeirs á Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit sem opnað var fyrir ári. Merkilegt safn í afar fallegu umhverfi. Við skoðuðum einnig Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli og dóluðum lengi í sundlaug bæjarins sem er einhver besta sundlaug landsins. Annars vorum við mest heima í Reykjadalnum og fórum þar í sund á hverjum einasta degi. Ekki í kot vísað.

Jónas dvaldist nokkra daga í Varmahlíð. Fengum þá hellirigningu annan hvern dag og sól og heiðríkju hina dagana sem við nýttum vel. Við gerðum góða ferð alla leið í Herðubreiðarlindir og þaðan í Öskju. Óskaplega falleg leið, en stundum seinfarin eins og gengur víða í óbyggðum. Máttum reyna hið sama þegar við fórum hringinn í Mývatnssveit, Hólasand til hálfs, þaðan á Þeystareyki, yfir Reykjaheiði til Húsavíkur og heim í Reykjadal. Mjög skemmtileg leið í björtu veðri.

Svana og Þorsteinn komu síðustu vikuna í ágúst og þá voru nú berin aldeilis farin að spretta. Við tíndum heilmikið af berjum bæði í Reykjadal og í Fellsskógi næst Fremstafelli. Í Fellsskógi er heilt ævintýri að sitja í brekkunum upp af Skjálfandafljóti og horfa yfir Þingey og Fossselsskóginn handan fljótsins. Bæði bláber og aðalbláber finnast þarna á hverri þúfu. Alltaf er gaman að geta flutt svolítið af berjum úr þessum gnægtabrunni suður yfir fjöllin og gefa öðrum að smakka nýtínd gæðaber og sultu.