Met í bláskeljaáti

FEBRÚARDAGAR 2010

1.2. MÁNUDAGUR

Fremur ljúft veður fram eftir degi með 2° hita. Herti vindinn seinnipartinn.

Steingrímur Hermannsson dó í morgun. Hann var merkilegur karl, oft svolítið spaugilegur, einlægur, jafnvel barnalegur á köflum. Ég kynntist honum talsvert á mínu fyrra tímabili á Alþingi og líkaði vel við hann eins og líklega flestum. Hann var aldrei með neinn yfirgang né hroka og leysti ágreining manna á milli í rólegheitum. Ef hann þurfti að taka af skarið strauk hann hendi yfir hár sitt og sagði “Ég verð að segja það”.

Fréttablaðið þykist hafa heyrt að senn verði Páll Magnússon látinn fjúka og í hans stað verði Ögmundur gerður að útvarpsstjóra. Ekki efast ég um að hann yrði góður í því embætti. Reyndar ekki bara góður, heldur frábær. Myndi þó sakna hans mjög af þingi. En líklega er óþarfi að velta þessari hugmynd fyrir sér. Molar dagblaðanna eru ekki ýkja áreiðanlegar heimildir.

2.2. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt gluggaveður í dag. Veðurmælir Íslandsbanka, sem trónir yfir Neslauginni, átti erfitt með að ákveða sig í morgun. Sýndi ýmist -1°, 0°, +1° eða + 2°. Í kvöld er við frostmark og vindurinn ýlfrar. Því miður er máninn í felum.

Lauk lestri bókar Ármanns í gærkvöldi. Varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum. Viðbrigðin voru vissulega mikil eftir allt vopnaskakið í bók Óskars Guðmundssonar um Snorra. Vonarstrætið virtist kannski þess vegna ansi dauflegt. Hafði reyndar mun meiri áhuga á lífshlaupi Theodóru en Skúla og hefði gjarna viljað ýtarlegri umfjöllun um hana og heimilislífið hjá þeim hjónum. En nú hef ég snúið mér að nýrri bók, “Yfir hafið og í steininn” eftir finnska rithöfundinn Tapio Koivukari.

Og nú er Jóhanna forsætisráð lögst í ferðalög og hyggst hitta mann og annan, en um það má ekki tala, því það er leyndarmál sem átti ekki að vitnast. Hvað varð um yfirlýsingarnar um gagnsæið og allt upp á borðið?

3.2. MIÐVIKUDAGUR

Hitastig dagsins fór ekki yfir frostmarkið og þar sem vindur blés af kappi var ansi napurt utan dyra.

Fór á bráðskemmtilegan fund hjá EVG (eldri vinstri grænum) í kvöld. Þar var í tali, tónum og myndum rifjuð upp brot úr lífshlaupi og verkum þeirra bræðra Jóns Múla og Jónasar Árnasonar. Dætur þeirra og aðrir aðstandendur sögðu frá ýmsum minnisstæðum atvikum frá æviskeiði bræðranna, sungu hressilega söngva úr þeirra fórum sem allir tóku undir. Ellen Kristjánsdóttir söng lög Jóns Múla og Edda Þórarinsdóttir söng lög Jónasar með undirleik Eyþórs Gunnarssonar. Fullt hús. Frábær skemmtun.

4.2. FIMMTUDAGUR

Fallegt veður, sólskin, þurrt, svolítill strekkingur, hiti kringum frostmark.

Enn berast fréttir af viðbjóðslegu athæfi manna, sem táldraga ungar stúlkur, jafnvel börn, nauðga þeim og svívirða. Þetta eru andstyggilegustu glæpir sem um getur, glæpir sem eyðileggja líf þeirra sem fyrir þeim verða. Hvað er að þessum mönnum? Og hvað er að réttvísinni?

5.2. FÖSTUDAGUR

Svipað veður og verið hefur undanfarna daga.

Jónas er sjötugur í dag og ég fegin að vera ekki lengur ein á áttræðisaldri í stórfjölskyldunni. Hann er ekki aldeilis að koðna niður karlanginn, tekur heldur betur á í ræktinni 6 morgna vikunnar og sinnir hinum og þessum verkefnum af mikilli elju, enda afkastamaður. Brugðum okkur á Þrjá Frakka í kvöld í fylgd með elstu sonunum og fjölskyldum þeirra og áttum skemmtilega stund með þeim. Úlfar bar okkur fulla diska af bláskeljum og sagði okkur að njóta vel svona rétt á meðan við veldum næsta rétt. Held ég hafi sett met í bláskeljaáti.

Því miður vantaði nokkra í hópinn okkar. Pétur og Marsela hringdu með hamingjuóskir frá Luxemborg. Einnig vantaði Dóru og syni í Belgíu. Þau spjölluðu lengi við Jónas á skype og sungu að sjálfsögðu afmælissönginn af hjartans lyst.

6.2. LAUGARDAGUR

Lítil breyting á veðri. Hitastigið hefur aðeins hækkað, en meiri vindur kælir heldur meira.

Það er ekkert lát á ömurlegum fréttum um svik og siðblindu í samfélaginu. Þetta gráðuga, eigingjarna, tilitslausa fólk, sem hefur rústað orðstír þjóðarinnar, er ekkert skárra en snargeggjaðir víkingarnir á Sturlungaöld. Víkingar nútímans leggja að vísu ekki stund á manndráp, þeir traðka bara á venjulegu fólki, ef þeir þá yfirleitt veita því eftirtekt.

DV hefur staðið sig vel í hlutverki alvöru rannsóknarblaðs allar götur frá hruninu mikla. Blaðamenn rótast eins og naut í flagi af fullkomnu vægðarleysi. Stundum sýpur maður hveljur við lesturinn. Oftast hefur DV reynst hafa á réttu að standa. Því miður er blaðið hins vegar ekki tekið jafn alvarlega og það ætti skilið. Margir afgreiða það sem óvandað æsingablað og blaðamönnum þess ekki treystandi. Karlrembusvipur blaðsins skemmir fyrir því, klámfengnar auglýsingar, niðurlægjandi umfjöllun um konur sem eru að reyna að láta á sér bera og uppskera frægð. DV er ekki eitt um slíkt, en er ófyrirleitnara á þessu sviði en önnur blöð. Það dregur úr trausti lesenda. Skúrkunum hentar að þeirri ímynd sé haldið á lofti.

7.2. SUNNUDAGUR

Hitastigið var frá 4 – 6° í dag. Dálítill vindur, þurrt og bjart.

Fórum upp á Kaldbak í þessu ágæta veðri og glimrandi færi. Sá varla snjó nema á fjallatoppum. Hvergi hálka á vegum. Eins gott þar eð við vorum með hestakerruna eins og fleiri á ferðinni.

Hestarnir hafa átt góða vist hingað til þennan vetur, enda mestan part ágætis veðurlag. Allir í góðum holdum og hvergi hnjóska að finna. Við tókum þrjá með okkur í bæinn, Álm, Gauk og Storm. Álmur er á 23. vetri og er ekki lengur riðið, en fær að njóta góðs atlætis í Kaldbakshögum meðan hann er hraustur. Við tókum hann í bæinn til að láta líta á hóf sem þarf að dytta að. Seinna í vikunni flytjum við hann aftur austur og sækjum þá 2 hesta í staðinn.