Fúsi kokkur bregst ekki

JANÚARDAGAR 2010

15.1. FÖSTUDAGUR

Íslandsbankamælirinn í sundlauginni staðfesti 3° hita, sem var kominn í 6° um hádegið.

Átti að sækja fund í 20/20 nefndinni í dag, en honum var því miður frestað. Ég var búin að ákveða að vegna þessa nefndarfundar kæmist ég ekki á flokksráðsfund VG, sem haldinn er á Akureyri í dag og á morgun. Sit uppi með það.

Pétur fór með Víking sinn á Dýraspítalann í morgun og kom hróðugur með hann síðdegis. Aumingja kisi reyndist vera með brisbólgu og er nú kominn á meðalakúr. Hann er svolítið farinn að borða og veitir ekki af, var orðinn skelfilega horaður.

16.1. LAUGARDAGUR

Hitinn 4° að morgni. Fremur milt veður, en hellirigning fram yfir hádegi. Stytti upp eftir hádegi og hélst þokkalega þurrt eftir það.

Fréttir af fundi VG á Akureyri bera með sér að mikil skoðanaskipti fari þar fram. Alltaf fjör á flokksráðsfundi og æ meiri atgangur eftir því sem fjölgar í flokknum. Situr enn í mörgum að samþykkt hafi verið að hefja viðræður um þátttöku í ESB, og er nú komin fram tillaga um að draga þá samþykkt til baka. Hátt í 50 tillögur komu fram á fundinum, þær voru ræddar og tillögunefndir unnu þær eins og venjan er, sumum tillögum steypt saman, sumum vísað til stjórnar eða þingflokks, en flestar eru samþykktar. Tillagan um ESB-málið hefur greinilega fengið hægt andlát, enda óskynsamleg. Hins vegar sjálfsagt að hvetja bæði þingflokk og grasrót til að vinna gegn ESB-þátttöku.

Um kvöldið kom hestamannagengi síðustu ára saman hjá Fanneyju og Finni. Við höfum farið víða saman og m.a. þeyst um bæði Norður- og Suður-Þingeyjarsýslur sem tókust alveg frábærlega. Síðasta sumar fórum við svo skemmtilegan hring í kringum Heklu. Vel var mætt í teitið, vantaði aðeins Jónas R. og Guðrúnu. Fúsi eðalkokkur stjórnaði í eldhúsinu og brást ekki fremur en endranær. Hann fékk góða aðstoð Einars og Guðjóns, og Þóra lagði til gómsætan eftirrétt. Gaman var að sjá allar myndirnar sem teknar voru í sumarferðinni. Þar mátti sjá mörg andlit kámug vegna moldroks sem oft þyrlaðist yfir okkur.

17.1. SUNNUDAGUR

Fallegt veður í allan dag, en ekki beinlínis notalegt. Hitinn lúskraðist varla upp fyrir 2°.

Ég tók mér algjört frí frá öllum ofurleiðindum í fjölmiðlum um helgina. Með ofurleiðindum á ég að sjálfsögðu fyrst og fremst við fyrirbærið Icesave, sem er farið að valda mér taugatitringi. Þetta árans fyrirbæri er orðið eins og sívaxandi kolkrabbi sem skríður um allt okkar samfélag og harðneitar að vera til friðs. Ég er orðin hundleið á endalausri umræðu um þetta skrímsli. Hlustaði hvorki á Vikulokin á laugardag né Silfur Egils í dag. Það hafði mjög góð áhrif á sálartetrið.

18.1. MÁNUDAGUR

Hrímuð veröld í morgunsárið, 2° hiti og komst aldrei yfir 3°. Glerhált á götum. Fréttir herma að fjöldi fólks hafi misst fótanna á hálum gangstéttum og brotið ýmsa líkamsparta.

Aumingja “leiðtogarnir” settust á fund í kvöld og telja sumir mögulegt að ná einhverju samkomulagi. Að minni hyggju er þetta fyrst og fremst tímasóun. Þingmenn unnu sleitulaust að því að ná sæmilegri sátt um málið sl. sumar og héldu að það hefði tekist. Svo vildi minnihlutinn ekki standa við það, þegar kom að atkvæðagreiðslu. En líklega finnst formönnum flokkanna þeir þurfa að sýna lit og láta sem þeir séu að reyna.

19.1.ÞRIÐJUDAGUR

Íslenskt veðurfar kemur manni sífellt á óvart. Hlýr vindur mætti mér við útidyrnar í morgun og hitastigið fór ekki niður fyrir 7° í allan dag. Þó rigndi og blés mikinn mestallan daginn.

Sat lengi dags með Snorra í fanginu. Þetta er mikil bók sem maður les ekki í einum grænum og fer illa í rúmi. Og af því að mér finnst algjörlega ómögulegt annað en að lesa áður en ég sofna, þá hef ég aðra nettari á náttborðinu. Sú heitir “Óljós mörk” eftir Milan Kundera. Verð að viðurkenna að ég hef ekki áður lesið neitt eftir þetta merka skáld. Það jaðrar náttúrlega við menningarlega lágkúru.

20.1. MIÐVIKUDAGUR

Milt veður í morgunsárið, rigning og 3° hiti. Vindurinn æstist þegar leið á daginn og mikil rigning með köflum. Hitinn hélst við 3°.

Pældi heilmikið í icesave, las greinar og hlustaði á þætti á netinu. Rakst t.d. á greinina “Hin raunverulega ógn” eftir Vilhjálm Þorsteinsson. Finnst Vilhjálmur yfirleitt málefnalegur og skýr í framsetningu. Hlustaði einnig á skemmtilegt og upplýsandi viðtal á Rás 2 við Guðmund Ólafsson, sem stundum er kallaður Lobbi! Hann fór vel yfir þetta icesavemál á mannamáli.

21.1. FIMMTUDAGUR

Bærilega hófst dagurinn með 7° hita og hlýjum vindi, en reyndar ansi hvössum. Hvessti æ meir þegar leið á daginn. Foráttuhvasst víða sunnanlands. Fréttir af 53 m/s í vindhviðum undir Eyjafjöllum. Mikil rigning öðru hverju.

Við létum ekki veðrið hindra briddsinn þótt spilafélagarnir þyrftu að berjast nánast lárétt gegn rokinu upp að húsi. Við höfum um margra ára skeið hitt Þórð Harðarson lækni og Sólrúnu Jensdóttur verkefnastjóra í Menntamálaráðuneytinu og spilað við þau bridds á vetrarkvöldum. Markmiðið er reyndar fyrst og fremst að hittast og viðhalda góðu sambandi frá fornu fari.Við spilum 1 – 2 klukkutíma og borðum síðan og spjöllum saman. Þórð og Sólrúnu er alltaf gaman að hitta.