Í hrímkaldri himnafegurð

JANÚARDAGAR 2010

1.1.2010, FÖSTUDAGUR

Fallegt veður. Heiðskírt. Svolítil gola. -5°.

Hefðbundin veisla í tilefni nýársins á Fornuströnd, 16 mætt, vantaði bara Dóru. Öll viðstödd kát og hress.

2.1. LAUGARDAGUR

Sama dýrð og svipað frost.

Tíndi saman rusl af okkar völdum eftir áramótaskotelda. Stór terta sprengd, einnig sitt af hverju tagi úr svokölluðum fjölskyldupakka, allt til að gleðja dóttursynina sem voru hjá okkur um áramótin. Pétur stjórnaði skoteldafjörinu. Áramótaskotin urðu fljótt að þéttri mengun sem byrgði sýn á allt utan nokkurra metra radíus.

Eftir hreinsun fór ég í göngutúr út í Gróttu í góða veðrinu.

3.1. SUNNUDAGUR

Veður allt hið sama, reyndar logn, sólskin, frost 6°.

Gekk góðan hring um Suðurnesið í hrímkaldri himnafegurð dagsins. Ótrúlega fallegt veður og margt fólk að njóta þess. Merkilegast fannst mér að sjá mann í golfi á snæviþöktum vellinum! Gaman að sjá eitt stykki mann svo heltekinn golfástríðu.

4.1. MÁNUDAGUR

Ágætis veður, dálítil gola, -2 til 3°. Drjúg leti eftir allt annríkið.

5.1. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt veður, sól og meinlaus gola. -8° (jafnvel meira) fram eftir degi.

Breki og Sindri voru hjá okkur, lokadagurinn hjá okkur áður en þeir fara til Belgíu 9. jan. Þeir fengu langþráðan draum sinn uppfylltan í dag. Dúðaðir í allra handa spjarir af ömmu sinni örkuðu þeir með sleða í Plútóbrekku og renndu sér þar í loftköstum lengi dags. Þar er færi gott þótt snjórinn sé lítill.

Forseti lands vors gerði þjóðinni heyrum kunnugt að hann myndi ekki skrifa undir nýsett lög Alþingis um samninga við Breta og Hollendinga um Icesave.

6.1. MIÐVIKUDAGUR

Svolítil snjókoma að morgni, svolítil slydda um miðjan dag. 1-2° frost.

Tveggja tíma fundur í 20/20 hópnum, sem ásamt fleiri hópum hefur það hlutverk að koma með hugmyndir og aðgerðir til þess að auka samkeppnishæfni Íslands á sviði lífsgæða, heilbrigðis og jöfnuðar, bæta framleiðslugetu Íslands og/eða fjalla um sérstöðu landsins; kosti og galla.

Í okkar hópi er sem sagt áherslan á lífsgæði, heilbrigði og jöfnuð. Í þeim málefnahópi eru eftirtalin: Bernharður Guðmundsson,Vigdís Finnbogadóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Gunnar Hersveinn og ég.

Þrettándinn kvaddur á hefðbundinn hátt með brennum og flugeldum, sem sást nú öllu betur en í menguninni á gamlárskvöld.

7.1. FIMMTUDAGUR

Mun hlýrra veður en verið hefur, hitinn um frostmark og jafnvel nokkru hlýrra þegar leið á daginn.

Við brugðum okkar upp á Kaldbak að kanna aðbúnað og ástand hestanna. Mun kaldara var austan fjalls. Logn var á Kaldbak og ágætis veður. Þar er allt gaddfreðið, en hefur nánast ekkert snjóað. Höfðum áhyggjur af að hrossin næðu ekki í vatn, en Ævar var búinn að berja eitthvað á frosnum skurðum í Torfumýri. Svolítið hefur snjóað og virðist ætla að halda því eitthvað áfram og ættu þá hestar að geta svalað þorsta í snjófölinu. Þeir eru með hey að éta og líta mjög vel út, engir hnjóskar og enginn æsingur að snapa mola sem ég var með í vösum.

Dóra á afmæli í dag, orðin 36 ára. Ennþá ein úti í Gent, hefur haft nóg að gera að taka á móti hamingjuóskum á fésbók. Er annars í óða önn að búa sig undir starf sem hún fær á líkamsræktarstofu í Brussel.