Í gær fór ég í bíó. Algjör viðburður því ég fer nánast aldrei í bíó. Síðast sá ég Draumalandið, myndina hans Andra Snæs og Þorfinns Guðnasonar einhvern tíma fyrr á þessu ári. Í gær sá ég hins vegar myndina um Kraft frá Bringu, skemmtilega, fallega og hjartnæma mynd, sem kallaði fram tár.
Hestar eru stórkostlegar skepnur. Ég nýt þess að horfa á hesta, sjá þá hreyfa sig, feta, hlaupa, brokka, tölta, skeiða, stökkva. Góður knapi á fallegum gæðingi er algjört listaverk. Þannig voru Þórarinn Eymundsson og Kraftur frá Bringu.
Myndin sýnir Þórarinn þjálfa Kraft, byggja upp þol hans og færni. Margar skemmtilegar svipmyndir sýna hvernig Þórarinn byggði upp traust þessa kraftmikla gæðings og hvernig þeir umgengust hvor annan. Þeir riðu saman í flæðarmálinu í vornóttinni þar sem sólin við sjóndeildarhringinn roðaði himininn. Það var fögur mynd. Þeir félagarnir voru eins og hluti af gullfallegri náttúrunni.
Svona hest vildu menn sýna á heimsmeistaramótinu í Hollandi árið 2007. Hest sem ber nafn með rentu. Kraftur var settur í búr og fluttur flugleiðis á mótssvæðið. Og auðvitað báru menn þá von í brjósti að þessi frábæri hestur mundi sýna allt sitt besta og ná góðum árangri. Sem hann og sannarlega gerði. Varð sigurvegari mótsins.
Heimsmeistaramótið 2007 færði Þórarni og Krafti bæði gleði og sorg. Íslenskur hestur fluttur af landi brott fær aldrei að koma aftur heim. Það var átakanlegt að sjá þá félagana kveðjast. Tárin hrundu.
Í lok myndarinnar spurði Þórarinn sig: “Var það þess virði?”.
Það er huggun að vita að Þórarinn og Kraftur hittust aftur og kepptu saman á heimsmeistaramótinu í ár, sem haldið var í Sviss. Þeir fengu hins vegar ekki nógan tíma til undirbúnings og brást bogalistin í fimmgangi. Í töltinu voru þeir þó búnir að ná saman og náðu 2. sæti með glæsibrag.