JANÚARDAGAR 2010
8.1. FÖSTUDAGUR
Frostið virðist vera að láta undan, hiti ca. 2° í dag. Ekki kom hvassviðrið sem spáð var. Öðru hverju svolítil rigning, götur sums staðar mjög hálar. Fegin að við drifum okkur upp á Kaldbak í gær.
Allt jólaskraut er nú komið ofan í kassa og jólatréð niðurbútað til eldiviðar. Aldrei beinlínis skemmtilegt verk. Við látum alltaf jólatréð standa áfram uppi þann 7. af því að þá er afmæli Dóru.
Heimsóttum feðgana á Lundi. Þar var þá svolítill hópur úr bekknum hans Breka í Snælandsskóla í boði þeirra feðga og Ómar var að undirbúa pítsuveislu. Sindri og Breki fljúga til Belgíu í fyrramálið og halda jól með mömmu sinni. Við sendum með þeim hangikjöt og laufabrauð.
9.1. LAUGARDAGUR
Þokkalegt veður, 2-4° hiti, vindur og talsverð rigning öðru hverju. Ferðalag dóttursonanna gekk vel þrátt fyrir svolitla seinkun í flugi og síðan tafir í lestasamgöngum. Veturinn er öllu grimdarlegri á meginlandinu en hér um slóðir. M.a. miklar viðvaranir í Þýskalandi, fólk hvatt til að tryggja sér matvörur til a.m.k. fjögurra daga.
10.1. SUNNUDAGUR
Hiti 5°. Hálkan alveg horfin. Hægur vindur. Furðu fátt í morgunsundinu, sem viðstöddum þótti reyndar ekki verra. Nóg pláss á brautunum, lítt trufluð hvíld eftir sundtökin, þægilegt spjall í lokin.
Sunnudagsmatur. Öll mætt nema “Belgíufólk”. Skipst á upplýsingum um viðbrögð vegna aðgerða forsetans í Icesave-málinu. Þau eru með ýmsum hætti, og nú virðast margir í stjórnarandstöðunni hafa snúið við blaði. Óttast e.t.v. að þurfa að taka við stjórnartaumunum, ef samningurinn verður felldur.
11.1. MÁNUDAGUR
3° hiti í morgunsundi, nánast logn.
Notaði daginn til að semja tillögur fyrir 20/20 hópinn, fyrst og fremst tillögu um umhverfismál, sem ég tel skipta mestu máli til framtíðar. Í víðáttu, fegurð og sérkennum náttúru lands okkar felast ótrúlega mikil tækifæri sem flest önnur lönd og ríki hafa þegar glatað.
12.1. ÞRIÐJUDAGUR
4° hiti í morgunsundinu. Glaðasólskin og veður afar fallegt. Ekki þó verulega notalegt úti, enda talsverð gola.
Kláraði tillögugerðina og horfði svo vel og lengi á diskana með þáttum Attenborough´s sem Jónas gaf mér í jólagjöf. Ótrúlega vel gerðir og skemmtilegir þættir.
13.1. MIÐVIKUDAGUR
Hitinn fór yfir 6° í dag. Vindur ágerðist þegar líða tók á daginn.
Fór með nöfnu minni í fimleikatíma, foreldrarnir önnum kafnir í vinnu og skóla. Kristín vill gjarna að ég horfi á hana allan tímann og ekki sé ég eftir mér til þess, en leyfi mér þó að ráða sudoku inn á milli.
Hef miklar áhyggjur af heimiliskettinum, Víkingi hans Péturs. Hann hefur líklega sett eitthvað andstyggilegt oní sig á sunnudaginn var, átti erfitt með að losa sig við það og hefur varla nokkuð étið síðan. Katrín kom á sunnudaginn og ráðlagði olíu, sem hún var með í pússi sínu. Aumingja kötturinn er horaður og ræfilslegur, kúrir mestallan daginn, ýmist í rúminu mínu eða rúmi Sindra og Breka.
14.1. FIMMTUDAGUR
Hitinn var nær 6° í morgunsundinu, sem var reyndar nær hádeginu að þessu sinni. Hópar af skörfum flugu yfir sundlaugina og sólin gyllti skýin. Maður eiginlega skammast sín fyrir að njóta lífsins hér á Fróni þegar hugsað er til fórnarlamba jarðskjálftanna hræðilegu á Haiti í fyrradag.
Fjárhagsmálin tóku tímann í dag. Aldrei skemmtileg iðja, enda hættir mér til að taka allt slíkt óþarflega nærri mér. Þá er nú ánægjulegra að horfa á snilldartaktana hans Attenborough´s. Horfði á sérlega skemmtilegan þátt í dag um lífið í trjánum.
Inn á milli les ég bókina miklu um Snorra Sturluson. Hún gerir mig stundum syfjaða.