Elfur tímans áfram rennur

Elfur tímans áfram rennur, segir Jón frá Ljárskógum í kvæði sínu um vornóttina. Svona hugsaði ég angurvær þegar sjötugsaldurinn nálgaðist án þess að ég fengi rönd við reist. Ég kveið hálfpartinn fyrir því að þurfa að viðurkenna þennan háa aldur. En viti menn, svo er þetta bara ekkert mál og ég finn engan mun!

Í mínum uppvexti var lítið gert með afmæli. Ég man ekki einu sinni til þess að slegið hafi verið upp veislu fyrr en í mesta lagi þegar einhver átti fimmtugsafmæli eða þaðan af meira. Barnaafmæli tíðkuðust ekki svo að ég muni. Einhverju var gaukað að manni, bókarkorni eða flík sem bráðvantaði. Nú er öldin önnur, efnt til fjöldasamkomu í tilefni barnaafmælis, og gjafirnar flæða um húsið.

Ég fann fyrir miklum þrýstingi þegar sextugsafmælið mitt nálgaðist á sínum tíma, og eftir mikil heilabrot efndi ég til hóflegrar veislu í veitingahúsinu Við tjörnina og bauð nánustu ættingjum og vinum. Það þótti mér nett og skemmtileg veisla og mátulega stórbrotin. Sjötugsafmæli fannst mér ekki jafn spennandi kostur og ákvað að gera sem minnst úr því. Hef líklega innst inni vonast til þess að engum dytti í hug að ég væri orðin svona rígfullorðin.

Börnunum mínum fannst þetta þunnur þrettándi og ákváðu að koma saman og gera mér glaðan dag að kvöldi afmælisins. Það fannst mér að sjálfsögðu hið besta mál og hlakkaði mikið til. En það er með flensuna eins og tímann, við hana verður ekki ráðið. Kristín, Auður, Pálmi og Kristján urðu að játa sig sigruð af þeim vágesti þótt ekki sé vitað hvort þar er um að ræða títtnefnda svínaflensu eða bara árvissa tiltölulega saklausa inflúensu. Er þess vegna veisluhöldum frestað til betri tíma.

Afmælið varð því hálfgert símaafmæli, þar sem barnabörnin sungu mér afmælissönginn í síma af hjartans list milli hóstahviðanna, ýmist frá Belgíu eða Skerjafirðinum. Eini gesturinn sem bankaði upp á hér heima var systir mín góð, sem mætti með dýrindis konfektkassa og fangið fullt af rauðbleikum rósum.

Bóndi minn bauð mér í hádegisverð í Fiskmarkaðinum, þar sem er gott að borða og gaman að vera. Svo brugðum við okkur upp á Kaldbak og heimsóttum hestana okkar. Gaman var að sjá hvað þeir eru sællegir og fínir þrátt fyrir rysjótt veðurfar undanfarnar vikur.

Veðrið hefur verið yndislegt þennan merka dag í lífi mínu, bjart og fallegt. Á túnunum ofan við Brautarholt á Skeiðum var ótrúleg fuglamergð, mestmegnis álftir og blesgæs. Á heimleið yfir Hellisheiði ókum við mót rauðlogandi himni. Ég tók það sem sýningu mér til heiðurs. Þetta var ágætis afmæli.