Veisla í Skerjafirðinum

Það er ekki ónýtt að eiga fullt af snillingum í afkomendahópnum. Þar snarar fólk upp veisluborði eins og ekkert sé. Ekki hafa börnin fengið þessa snilld frá mér sem hef alla tíð verið meira fyrir að njóta matar en að rembast við að búa hann til.

Blessuð börnin mín, sem eru náttúrulega ekki lengur nein börn, tóku ekki annað í mál en að halda veislu til heiðurs aldursforseta stórfjölskyldunnar. Flensan tafði reyndar svolítið fyrir okkur, en manneskja sem náð hefur sjötugsaldri hefur léttilega biðlund í örfáa daga. Sunnudaginn 25. október var svo blásið til samanburðarveislu í Skerjafirðinum.

Þetta var frábær veisla eins og vænta mátti, þegar þrjár fjölskyldur leggja saman. Þar var boðið upp á fjölda rétta, dýrindis súpu, perúska smárétti, pastarétt, grafna smálúðu, fasana, lauksultu, kjúklingabita, sítrónutertu og jarðarber í súkkulaðifondu. Glæsilegt og gott. Ég er svona rétt að jafna mig eftir dýrðlegheitin.

Þetta var notaleg stund með þessu góða fólki mínu. Öll mætt hvert með sinn hóp nema Dóra og strákarnir hennar, sem um þessar mundir eru búsett í Gent í Belgíu.

Þegar horft er til baka, eins og eðlilegt er á slíkum tímamótum, þá finn ég til þakklætis og er stolt af ýmsu. Í rauninni væri gaman að taka saman það sem situr helst í huganum þegar upp er rifjað, en meinið er að ég er svo fjári löt, að lífshlaupið verður örugglega aldrei skipulega skráð. Hins vegar þarf engan doðrant til að upplýsa, að ekki er ég stoltari af neinu öðru en þessum ágætu fjölskyldum, börnunum mínum og þeirra fólki. Á toppnum sitja barnabörnin sem er svo ótrúlega gaman að fylgjast með, sjá vaxa upp og verða stór. Þetta er fólkið sem vekur mér stolt og gleði og skiptir mig mestu.