JANÚARDAGAR 2010
29.1. FÖSTUDAGUR
Tók tímann sinn að skafa hrímið af bílnum í morgun. Fallegt veður, frekar stillt, sólskin, hitastig frá -2° til +2°.
Var að ljúka bókinni miklu um Snorra Sturluson. Liggur við að maður þurfi að lesa hana aftur til að átta sig betur á því hver var hvað, hverjir voru vinir og hvenær þeir urðu óvinir og hver drap hvern og hvers vegna. Svolítið erfitt að skilja allt þetta vesen á körlunum á þessum tíma, sífellt verið að safna liði og efna til vopnaglamurs. Þeir rupluðu og rændu, hröktu minnimáttar af jörðum sínum, sölsuðu undir sig hvað sem þeir komust yfir, stálu og ráku til síns heima heilu hjarðirnar af nautgripum til að fæða vopnabræður, sem þeir höfðu smalað saman sér til aðstoðar. Meiddu, stungu augun úr mönnum, hjuggu af fætur, einn eða tvo, drápu. Siðleysi réði gjörðum manna. Græðgin, frekjan, yfirgangurinn, tillitsleysið.(Minnir á nútímann!!!) Og þegar of langt þótti gengið var hinum seku gert að fara utan og jafnvel suður til Rómar að fá syndakvittun hjá páfa. Athyglisverð bók. Hefði þó viljað fá örlítið meiri umfjöllun um aðra hluti en vopnaskak karlanna.
30.1. LAUGARDAGUR
Einkar fallegt veður í allan dag. Logn, og sólin skein svo lengi sem hún tolldi á himninum. Að kvöldi tók fullur máninn við og kastaði birtu á sjóinn.
Loksins hittumst við systur í morgunsundinu. Svana hefur verið að kljást við alls konar ákomur, sem hafa hindrað hana í sundiðkun. Við tókum góða kjaftatörn að loknum sundspretti.
Mér fannst aldeilis óhugsandi annað en að njóta góða veðursins og fór í langan göngutúr um Suðurnesið. Stansaði hvað eftir annað til að njóta útsýnisins, fylgjast með fuglamergðinni og hlusta á úið í æðarfuglinum við ströndina. Svanirnir og gæsirnar halda sig mest við Bakkatjörnina og þiggja brauð hjá vegfarendum, sem voru hins vegar fáir að þessu sinni. Áreiðanlega flestir að horfa á handboltann.
Leikur Íslendinga og Frakka var ríflega hálfnaður þegar ég kom heim og hafði ég að sjálfsögðu misst af besta kaflanum. Leikurinn endaði með sigri Frakka, sem eru með besta liðið að því mér er sagt.
31.1. SUNNUDAGUR
Aðgerðarlítið veður í dag. Hiti kringum frostmark. Gola, skýjað, engin úrkoma.
Pétur og Marsela flugu til Amsterdam í morgun, tóku þaðan lest til Gent þar sem Dóra og synir biðu spennt. Þau verða þar næstu daga og ferðast svo um nágrannalöndin næstu tvær vikur.
Hafði annað augað á Silfrinu. Fróðlegast fannst mér að hlusta á Þórð Magnússon, sem fór skilmerkilega yfir meint úrræði banka og ríkisstjórnar fyrir fólk sem glímir við skuldir heimilanna. Góð framsetning og athyglisverðar upplýsingar, sem sýna glöggt hvað það er nauðsynlegt að taka almennilega á þessum málum. Úrræðin henta aðeins þeim sem hafa tekið fáránlegustu lánin, þeir fá miklar afskriftir, hinir sitja eftir í súpunni. Meðan ekki tekst að finna réttlátar lausnir á þessu sviði heldur réttmæt reiði fólks áfram að grassera.
Leikur Íslendinga og Pólverja um bronsið var óbærilega spennandi. Einhverjir hljóta að hafa fengið hjartaáfall. Nokkrar myndir munu lifa í minni. Róbert eins og ormur í hringsnúningi á línunni og Alexander í fljúgandi magalendingu að slá boltann úr hendi pólverskrar skyttu eru þær eftirminnilegustu. Það var gaman að sjá okkar menn taka við bronsinu. Þeir voru ólíkt kátari núna en þegar þeir fengu silfrið á Ólympíuleikunum í Peking 2008!
Það gengur hægt að venjast fjarveru Víkings. Enginn kisi í rúminu sem hann hefur oftast bælt um nætur. Enginn kisi segir mjá við mig á morgnana og biður fallega um örlítinn kaffirjóma. Enginn kisi skríður upp í kjöltu mína til að fá svolítið klapp og klór. En hann minnir á sig oft á dag.