Kisinn ljúfi sofnaður svefninum langa

JANÚARDAGAR 2010

22.1. FÖSTUDAGUR

Veðrið var mjög skaplegt í morgun og hiti 4°. Það varð síðan harla rysjótt, kólnaði nokkuð, rigndi stundum og snjóaði meira að segja.

Atburðir dagsins voru í takt við veðurlagið. Hér á Fornuströnd hafa verið erfiðir dagar vegna veikinda heimiliskattarins. Undanfarnar vikur hefur Pétur verið óþreytandi að koma meðulum í Víking og hlynna að honum á alla vegu, og ég var iðulega með hann í kjöltunni. Katrín reyndi það sem hægt var til að lækna Víking, en í dag var orðið ljóst að hann yrði að fá hvíldina. Hún kom til okkar í kvöld og svæfði þennan ljúfa og fallega kött. Víkingur fæddist hér niðri í bílskúr og hefur átt hér heimili í 16 ár og 2 mánuðum betur. Við söknum hans mjög, enda sannfærð um að þetta var ljúfasti heimilisköttur sem hægt er að hugsa sér. En svona er lífið.

Pétur skráði í fésbók: “Ég kjökraði eins og smábarn þegar flottasti, klárasti og ljúfasti kisi veraldar sofnaði svefninum langa í gærkvöldi. Hvíl í friði Víkingur”

23.1.LAUGARDAGUR

Vindurinn gnauðaði í allan dag og rigningin dundi. Hitinn fór hins vegar aldrei niður fyrir 7°. Ótrúlegt veðurfar á þessum árstíma. Ýmis jarðargróður veit ekki sitt rjúkandi ráð. Blómlaukar eru farnir að gægjast upp úr moldinni sunnan undir.

Hlustaði á Vikulokin á Rás 1, sem ég nenni sjaldan nú orðið, en gat ekki stillt mig þegar ég heyrði að gestir þáttarins voru þrjár konur, Lilja Mósesdóttir, Steinunn Valdís og Þorgerður Katrín. Lilja hafði ýmislegt fram að færa, var málefnaleg og tók ekki þátt í þrasi og hnútukasti, sem hinar tvær gátu ekki stillt sig um.

Svana plataði mig með sér suður í Hafnafjörð að hlusta á þingeyska karlakórinn Hreim syngja í Víðistaðakirkju. Það reyndist frábær skemmtun, góður söngur, skemmtileg lög og gaman að hitta nokkra gamla kunningja úr sýslunni.

Ætlaði varla að þora að horfa á handboltastrákana tapa fyrir Dönum í kvöld. Gat þó ekki stillt mig um að sitja nálægt sjónvarpinu og ráða sudoku milli þess sem ég gaut augunum á skjáinn. Endaði svo með því að límast við hann og naut þess í botn að sjá okkar menn vinna Danina með 5 marka mun.

24.1. SUNNUDAGUR

Á þriðja degi Þorra er hitinn enn 7–8 stig frá morgni til kvölds og talsverð rigning annað slagið. Ég horfi með vaxandi áhyggjum á laukana í beðinu.

Katrín á afmæli í dag. Við brugðum okkur á Birkigrund í tilefni dagsins og fengum kaffi og þessar líka snilldar vöfflur með sírópi og rjóma. Þruma litla þrífætta fagnaði gestum og þáði með þökkum bæði klapp og klór. Þrír kettir spásseruðu um stofuna, en ekki alveg jafn hrifnir af innrás gesta. Kettir eru þóttafyllri en hundar.

Kláraði “Óljósu mörkin” hans Milan Kundera. Athyglisverð og mjög vel skrifuð bók. Og nú er komin ný bók á náttborðið, “Vonarstræti” eftir Ármann Jakobsson, sem ég hef lengi ætlað að lesa.

25.1. MÁNUDAGUR

Hitamælirinn sýndi 9° í morgun. Minnkaði aðeins þegar á leið.

Það er alltof æsandi að horfa á þessa handboltastráka. Skil vel að svona leikir geti valdið hjartaslagi. Nú áttu Íslendingarnir við Króata, sem hingað til hafa ekki tapað leik. Okkar strákar voru yfir mestallan leikinn, sem endaði svo með jafntefli. Mér fannst leikurinn reyndar ekkert sérlega góður, oft hálfgert hnoð og troðningur, en dýringis augnablik á köflum. Látalæti Króatanna voru frekar þreytandi, þóttust ítrekað hafa meiðst, sem augljóslega var sýndarmennska. Og svo eru það Rússarnir á morgun.

Næstum jafn slæmt fyrir hjartað, þegar tilkynnt var að rannsóknarnefndin um hrunið treysti sér ekki til að klára skýrslu sína á tilsettum tíma, sem skila átti um næstu mánaðamót. Nú logar allt samfélagið af hneykslun og gremju.

26.1. ÞRIÐJUDAGUR

Ljúfur morgun, hiti 4°. Herti vind þegar leið á daginn. Rigndi smávegis.

Rússarnir reyndust ekki erfiðir viðfangs, svolítið hægfara og þunglamalegir. Margir þeirra stórir og þéttvaxnir og ekki fýsilegir að glíma við á línunni. Okkar menn unnu á léttleika og snerpu. Þegar ljóst var orðið með úrslitin fengu nýliðarnir tækifæri og var gaman að sjá þá spreyta sig.

Kastljósið bauð upp á merkilegt viðtal Helga Seljan við Ásbjörn Óttarsson sjálfstæðismann. Sá hafði skammtað sjálfum sér og eiginkonunni 20 milljóna arð úr eigin fyrirtæki, Nesver, sem þó var með neikvætt eigið fé. Ásbjörn var furðu drjúgur með sig, sagðist bara ekki hafa vitað að þetta væri lögbrot, en nú væri hann búinn að endurgreiða arðinn góða. Vantaði bara að hann segði “nú var ég aldeilis góður strákur!”

27.1.MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður, gola, sólskin, lengst af um 5° hiti.

Það kom heldur betur á húsfreyjuna á Sævarlandi í Þistilfirði þegar hún kom auga á hvítabjörn um miðjan dag ekki fjarri bænum. Hún kallaði eftir aðstoð, sem fljótt barst og leið ekki á löngu áður en dýrið var fellt. Þetta reyndist vera fremur lítil birna, en sjálfsagt hefði ekki verið ráðlegt að bjóða hana velkomna.Hún var skotin til bana nálægt bænum Óslandi.

28.1.FIMMTUDAGUR

Aðeins hefur kólnað. Hiti um 3° og frekar stillt veður.

Íslenska liðið vann það norska 35 – 34 og er því komið í undanúrslit. Liðið hefur ekki enn tapað leik og verður spennandi að sjá hvernig gengur þegar það mætir Frökkum á laugardaginn kemur.

Í dag bárust þær fréttir að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefði staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki þurfi að meta sameiginlega umhverfisáhrif Suðvesturlína og virkjana sem eiga að tryggja orku til álbræðslu í Helguvík á Suðurnesjum. Það eru mikil vonbrigði. Svandís ber því við að gildandi lög geri henni ókleyft að breyta þessu áliti Skipulagsstofnunar.

Nýlega birtist grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings á Smugunni, sem fjallaði ýtarlega um þessi mál og þá sérstaklega um þá hættu sem stafar af fyrirhuguðum framkvæmdum, sem byggja á afar veikum forsendum. Alvarlegast er að Suðvesturlínur munu liggja að hluta yfir viðkvæmustu hluta vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins. Ég batt vonir við að greinargóð umfjöllun Sigmundar hefði áhrif á niðurstöðu málsins, en sú von brást því miður.