JANÚARDAGAR 2011
15.1. LAUGARDAGUR
Skikkanlegt veður. Viðráðanlegur vindur, sólskin, mestur hiti 4°.
Fór í drjúga gönguferð. Þvoði bílinn minn sem leit út eins og hann hefði lent á bólakaf í drulluþró. Fórum svo í könnunarleiðangur upp í Víðidal. Aðeins 6 hestar komnir inn í okkar hesthús. Þeim virtist leiðast. Svavar Gestsson er búinn að kaupa stíurnar sem Ævar var með. Hann fær vonandi félagsskap áður en langt um líður.
16.1. SUNNUDAGUR
Nú er það súldin. Hæglætis veður, en ansi blautt. Mestur hiti um 4°. Fór í hálftíma morgungöngu og blotnaði rækilega.
Pétur og Marcela buðu fjölskylduhópnum í mat í tilefni af fertugsafmæli Péturs. Afmælið er jafn merkilegt í dag og það var á aðfangadaginn. Hjónakornin sáu um matinn af miklum dugnaði. Buðu upp á fjölbreytta rétti, þrenns konar vorrúllur, ýsubita í sítrónulegi, ofnbakaða grænmetisrétti, kjúklinga í grænmeti og blöndu af ávöxtum og súkkulagi í eftirrétt. Aldeilis veisla. Það var kátt í koti og vantaði aðeins Dóru, Heru og Kötlu í fjölskylduhópinn. Við sungum afmælissönginn mörgum sinnum, enda gafst ekki tóm til þess á aðfangadaginn.
17.1. MÁNUDAGUR
Nú er fallegt úti. Allt snjóhvítt, hæglátt veður, hitastig við frostmark. Sólin gægðist milli skýja. Heldur hvessti þegar leið á daginn og stöku sinnum komu snjódrífur.
Talsverð ólga í sjónum, sem þeytir öldum upp að bökkum. Gaman að fylgjast með tugum hvítmáfa og æðarblika einum og sér, þar sem þeir léku sér í öldunum eins og krakkar á brimbrettum. Það var flott.
18.1. ÞRIÐJUDAGUR
Þokkalegt veður fram yfir hádegi, en þá gerðist þungbúið og vindinn herti. Bætti ögn í snjóinn. Nær kvöldi kom hellirigning. Við slíkar aðstæður verður mér alltaf hugsað til hestanna í útigöngu. Þeir eru sjálfsagt eitthvað klakaðir og ekki er gott að fá rigningu í klakann. Þá er alltaf hætt við hnjóskum. Veðurfréttir gefa til kynna rigningu næstu daga, en reyndar umtalsvert hlýrra en verið hefur.
19.1. MIÐVIKUDAGUR
Hitastig allt að 6° í dag. Dálítill vindur og rigning öðru hverju.
Merkisviðburður dagsins: Fór loksins í sund, en það hefur ekki gerst síðan 31. október 2010. Ég synti 300 metra og gekk bara vel þrátt fyrir stirðleika. Og best var að ylja sér í heitu pottunum.
Sótti fund VG í Kópavogi um kvöldið, sá var vel sóttur og ágætur. Steingrímur fór yfir þróun fjármála allt frá hruni, fyrst og fremst þó eftir að VG og Samfylkingin tóku við taumum í ríkisstjórn. Margt fleira var rætt, m.a. um fiskveiðistjórnun, velferðarmál og stefnubreytingar í húsnæðismálum. Þetta var málefnaleg og fróðleg umræða og ekki minnst á meintan ófrið í þingflokknum. Veit reyndar að þingmenn okkar hafa almennt ekki þungar áhyggjur af ófriði og óánægju, telja raunar eðlilegt að stundum hvessi í þingflokknum við þessar sérstöku aðstæður sem nú ríkja.
20.1. FIMMTUDAGUR
Ekkert óskaveður. Hitastigið hefur þó verið yfir frostmarki, mest um 2°. Dálítill vindur, stundum rigning, stundum svolítil snjókoma.
Ekki var beint notalegt í sundlauginni í morgun, og ég var ekki ánægð með getu mína við fótaspyrnu. Orka og dugnaður enn all fjarri. Óþarft reyndar að láta svona, mér hefur vissulega farið fram síðan 1. nóvember 2010, þótt mikið vanti enn upp á lipurð og fimi!
21.1. FÖSTUDAGUR
Sunnan- og suðvestanátt. Hlýindi um allt land! Hitastigið komið upp í 7° að kvöldinu. Öðru hverju örlítil rigning.
22.1. LAUGARDAGUR
Merkilegt er þetta veðurfar. Þungbúið og sólarlaust, en hitastig yfir 8°. Talsverð þoka víða um landið.
Linda og Halli eru á Kaldbak um helgina. Þau létu vel af hestunum, sögðu þá í ágætum holdum og vel á sig komnir. Þeir höfðu stillt sér upp á hólnum og biðu eftir tuggunni, sem þeir fengu vel úti látna.