Landnámshænur, þjóðgarður og forystufé

DESEMBERDAGAR 2010

1.12. MIÐVIKUDAGUR

Fullveldisdagurinn rann upp í allri sinni hógværð, enda yfirleitt frekar lítið með hann gert. Veður milt og gott.

Í dag var athöfn í Þjóðmenningarhúsi þar sem úthlutað var styrkjum úr Þjóðhátíðarsjóði. Alls höfðu 273 umsóknir um styrki borist stjórn sjóðsins samtals að fjárhæð um 418 millj. kr. Urðu því margir útundan þar eð stjórnin hafði aðeins 35 millj. til skiptanna. Mikill fjöldi styrkhafa var viðstaddur athöfnina og virtust allir hinir ánægðustu með sinn hlut. Hæstu styrkina fengu eftirtaldir:

1. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands; v. gagnasöfnunar og skráningar á íslensku táknmáli.

2. Ríkisútvarpið, Rás 1; v. þátta um sögu Ríkisútvarpsins í tilefni 80 ára afmælis.

3. Íslensk tónverkamiðstöð; v. flutnings og varðveislu handrita í Þjóðarbókhlöðu.

4. Íslenska landnámshænan; til kynningarstarfs og ræktunar á Vatnsnesi.

5. Fræðslufélag um forystufé; til uppbyggingar fræðaseturs í Þistilfirði.

6. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; til að skrásetja í gagnagrunn allar fornleifar þjóðgarðsins.

7. Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna; til endurgerðar á Hrunaréttum og varðveislu á eyktanöfnum og notkun sólarklukku.

8. Þjóðminjasafn Íslands; til að skrá og nýta heimildir um jörð og byggingar að Þverá í Laxárdal og setja upp sýningu.

Gaman væri að segja frá öllum hinum verkefnunum, sem við sáum ástæðu til að styrkja, en það er of mikið upp að telja.

Um kvöldið var svo annar merkisviðburður á Fornuströnd. Pétur bauð upp á heimagerða pítsu í tilefni af 10 ára afmæli Breka (14.11.). Þetta var þriðja afmælisveislan hans Breka og stefnir í þá fjórðu, þegar hann býður til sín bekkjarfélögunum! Finnst alltaf jafn athyglisvert hvað krakkar nú til dags gera mikið úr afmælisboðum. Þekki það ekki frá mínum æskudögum.

2.12. FIMMTUDAGUR

Frábært veður. Ekki skýhnoðri á himni. Sólin fær ekki mikinn tíma til að skína, en hún nýtir þennan skamma tíma vel. Nú væri gaman að ganga um Kotagranda, en það verður að bíða betri heilsu og betri tíma.

Áhugamenn um kosninguna til stjórnlagaþings eru enn að velta fyrir sér fyrirkomulaginu og niðurstöðunum. Ekki allir ánægðir eins og sjá má á blogginu. Því verður hins vegar ekki breytt úr þessu, en spurning hvort það kerfi verður oftar notað. Hefðbundna kerfið hefði skilað talsvert annarri niðurstöðu. Sjálf hefði ég verið ánægðari með hana. Hefði viljað hafa Jónas í hópnum, og einnig sakna ég Áslaugar Thorlacius, Stefáns Gíslasonar, Evu Sigurbjörnsdóttur, Gunnars Hersveins, Kristínar Jónsdóttur, Gísla Más Gíslasonar, og fleiri mætti nefna. Þetta fólk var margt á næstu grösum við þá sem inn fóru. En þetta verður ekki endurtekið, og sem betur fer valdist inn þarna margt fólk traustsins vert.

3.12. FÖSTUDAGUR

Enn er dýrðar veður. Sól og heiðríkja. Mest frost um -6° síðdegis.

Er ekki enn búin að finna mér bók við hæfi. Mér þykir svo vænt um söguna um Litla tré, að ég er ekki tilbúin fyrir nýja bók í bili. Þarf að jafna mig eftir lesturinn.

4.12. LAUGARDAGUR

Þvílík dýrð sem þetta land býður upp á. Gat ekki haft augun af fegurð himins og jarðar lengi morguns. Jörðin hrímhvít. Skýjafarið eins og ullarhnoðrar á túni. Elddökkrauð skýin upp af fjöllunum, og ljósin blika í Bláfjöllum. Skarfar fljúga hjá.

Ég er orðin svo löt að fylgjast með sjónvarpi, að ég steingleymdi að kíkja á útsendinguna á Stöð 2 á degi rauða nefsins. Alltaf ánægjulegt hvað fólk er duglegt að bregðast við söfnun til bágstaddra. Í þetta sinn söfnuðust ríflega 170 milljónir, sem er vel að verki staðið.

Fékk smá samviskubit yfir þátttökuleysi mínu, en læt að þessu sinni duga þau félög og stuðningssamtök sem ég styð. Þau eru: Náttúruverndarsamtök Íslands, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, SOS – barnaþorpin, Kattavinafélag Íslands, Happdrætti Krabbameinsfélagsins, Blindrafélagið, Fuglaverndarfélag Íslands, Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, Barnaheill, Rauði kross Íslands, Gigtarfélag Íslands, Félag heyrnarlausra, Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, Hestamannafélagið Fákur, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra. Safnast þegar saman kemur!

5.12. SUNNUDAGUR

Fagurt veður, logn og kalt.

Myndaröð um Planet Earth, eða Móður Jörð, styttir mér stundir þessa dagana. Stórkostlegar myndir af dýrum og umhverfi þeirra, blíðu sem óblíðu. Lífsbaráttan er mikil og stundum svo grimm og hatrömm, að það er erfitt á að horfa. Merkilegast er að fylgjast með uppeldi hinna nýfæddu. Þá skortir ekki umhyggju og fórnarlund foreldranna.

6.12. MÁNUDAGUR

Loksins, loksins kl.11:29 sást sólin gægjast upp fyrir Heiðina há. Heiðríkt og -5° frost. Ennþá kaldara á Kaldbak samkvæmt veðurfréttum, þar er frostið -11°.

Í dag eru liðnar 5 vikur frá aðgerðinni á mjaðmarskarninu mínu. Batinn silast áfram, og eftir rúma viku skoðar Gunnar læknir hvernig til hefur tekist.

7.12. ÞRIÐJUDAGUR

Skýin huldu himininn og sólin fékk frí í dag. Frostið náði a.m.k. -7°. Meira er frostið inn til landsins. Pétur og Marcela fóru á Kaldbak. Þar var allt að -11° frost og nokkur vindur.

Búin að finna bók handa mér, eða öllu heldur Jónas fann bókina. Ég er í slíku baksi að finna bókarkorn í hillunum, að ætla mætti að ég sé kolrangeygð. En sem sagt nú ætla ég að lesa Our Man in Havana eftir Graham Greene. Las hana endur fyrir löngu og nú dúkkaði hún upp í kolli mínum, þegar ég var að kynna mér Wikileaks-skjölin sem bárust héðan frá bandaríska sendiráðinu. Fátt er þar merkilegt, margt án efa satt, sumt hlægilegt og sjálfsagt óþægilegt þeim sem koma við sögu. Oft er greinilega um að ræða getgátur. Skýrsluhöfundum er vafalaust ætlað að senda öðru hverju eitthvað bitastætt til Washington, og þeir reyna að gera sitt besta úr litlu. Og þá datt mér bókin í hug. Bókin um manninn sem var settur í einhverjar njósnir, iðnaðarnjósnir ef ég man rétt. Hann lenti í mestu vandræðum með verkefnið og tók það til bragðs að ljúga upp útliti og gagnsemi hlutar sem ég man ekki hvaða hlutverki átti að þjóna. Kemst að því þegar ég les bókin aftur.