Fertuga jólabarnið

DESEMBERDAGAR

24.12. FÖSTUDAGUR – AÐFANGADAGUR

Hvít jól. Ágætt veður. Snjór yfir öllu og sæmilega stillt.

Pétur 40 ára. Trúi því reyndar varla. Finnst ekki langt síðan ég fór á Fæðingarheimilið að morgni aðfangadagsins 1970. Fæðingin gekk ljómandi vel, enda móðurmyndin orðin nokkuð vön og þurfti ekki frekar en endranær á lækni að halda. “Þriðji drengurinn fæddur og móðirin ljómandi af ánægju”, sagði fæðingarlæknirinn þegar hann birtist. “Þetta er heilbrigður myndarstrákur. Er það ekki aðalatriðið”, svaraði ég. Svo hvíldist ég eftir átökin og sofnaði öðru hverju allan daginn. Fannst ég stundum heyra messutóna: “Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn”, söng útvarpskórinn.

Anna og Óli afi komu í heimsókn og færðu okkur Pétri gjafir. Ég fékk svaka flott leðurstígvél, en í pakka Péturs kom heil brennivínsflaska! Mikið var að því hlegið, en þar höfðu orðið víxl á jólamerkjum. Brandarinn sá er oft rifjaður upp.

Þennan sama dag vildi svo til að birt var teiknimynd af ungum pilti, sem lá í sófa hjá sálfræðingi. Og hvað amar nú að þér, piltur minn?, spurði sálfræðingurinn. Ég á afmæli á aðfangadag, stundi pilturinn.

Pétur hefur aldrei kvartað yfir þessum örlögum. Allmörg fyrstu ár hans komu frændsystkini hans til okkar fyrir hádegi á aðfangadag, fengu kakó og kökur og skemmtu sér hið besta. Enn þann dag í dag er boðið upp á kakó og kökur um hádegisbilið á aðfangadag í tilefni afmælisins.

Samkvæmt venju áttum við öll fjölskyldan saman skemmtilega samverustund í kvöld. Hver hópur borðar heima hjá sér um kvöldið. Hittumst síðan öll og gefum hvert öðru gjafir, en þó aðallega börnunum. Mikið fjör og bráðskemmtilegt fram undir miðnætti. Börnin öll svo glöð og skemmtileg eins og alltaf.

25.12. LAUGARDAGUR – JÓLADAGUR

Engin leti á boðstólum þennan morgun. Framundan jólakaffið með Svönu og hennar fólki. Við fáum góða aðstoð frá okkar börnum og þeirra mökum. Kristján og Katrín komu með brauðlengjur fylltar góðmeti. Pálmi og Sigrún komu hlaðin kræsingum, brauði og kökum. Marcela og Pétur bjuggu til fisk að perúskum sið, og Dóra sá um karamellukökurnar. Við systur höfum haldið þeirri venju árum saman að hittast á jóladag til skiptis hjá hver annarri. Alltaf jafn gaman og sérstaklega núna að fá yngstu barnabörn Svönu, Mími, Arnald og Svanhildi, sem ekki hafa fyrr komið á Fornuströnd.

Veðrið ekki upp á sitt besta og á víst eftir að láta verr á morgun. Hiti var um 4° mest í dag. Hvessti æ meira nær kvöldi. Talsverð úrkoma, ýmist hríð eða slydda.

26.12. SUNNUDAGUR

Leiðindaveður um allt land, verst á austur- og suðausturlandi. Víða rigndi mikið og sums staðar þurfti að fyrirbyggja skaða vegna vatnavaxta. Fór raunar betur en á horfðist, og veðrinu slotaði þegar leið á daginn.

Höfðum fondue um kvöldið að vanda. Okkur finnst það albest eftir allt hangikjötið og kökuátið. Við vorum 11 talsins við borðið, Pálmi og fjölskylda komu til liðs við heimafólkið.

27.12. MÁNUDAGUR

Ágætt veður í dag, úrkomulaust, frostlaust og stillt.

Loks gafst tími til að líta á mynddiskana, sem Jónas gaf mér. Þetta eru fjórir diskar sem kallast Náttúra Íslands. Fallegar og skemmtilegar myndir og fróðleikur um fugla. Heiðurinn af þessum diskum á Magnús Magnússon kvikmyndagerðarmaður.

28.12. ÞRIÐJUDAGUR

Gott veður í dag. Úrkomulaust og stillt. Mestur hiti 3°.

Fór í góðan göngutúr og fylgdist með fuglum. Hrafnar eru margir hér í kring á þessum árstíma, þeir sátu á ljósastaurum í langri röð. Fjöldi máfa er á stöðugri ferð og ertir stundum hrafnana, sem ekkert hafa á móti svolitlum hasar. Ég sker niður afganginn af jurtafeitinni eftir steikingu laufabrauðsins og dreifi því á lóðinni. Þeir þiggja það fegnir. Og stararnir eru snöggir að ná sér í bita, ef stóru fuglarnir bregða sér frá.

29.12. MIÐVIKUDAGUR

Sama góða veðrið. Himininn skipti litum við sjóndeildarhring.

Brá í brún þegar ég arkaði af stað í göngutúr, það var svo hált á götu og stígum. Gekk á grasi þar sem hægt var. Hafði félagsskap gæsa í tugatali. Þær labba líka um grasið og finna alltaf eitthvað að kroppa þegar snjórinn er fjarri.

Er strax orðin leið á flugeldum og sprengjum, enda klárt að þeim mun ekki linna fyrr en einhvern tíma í janúar.

30.12. FIMMTUDAGUR

Enn er hægt að segja: Sama góða veðrið. Og m.a.s. er hlýrra í dag, mestur hiti 6°. Spáð kólnandi á morgun.

Dreif mig loksins til Svönu í nýju íbúðina í Álfatúni 19, Kópavogi. Þangað flutti hún í byrjun nóvember. Hafði aðeins séð íbúðina á netinu, en var strax nokkuð viss um að þetta væri rétti staðurinn. Sannfærðist í dag um að svo er. Íbúðin mátulega stór, falleg og vel gerð. Allt mjög haganlegt og vel fyrir komið. Umhverfið notalegt og allgott útsýni, sem ég gat að vísu ekki sannreynt í dag vegna dumbungs. Svana er sannarlega lukkunnar pamfíll og líður augljóslega vel á nýja heimilinu.

31.12. FÖSTUDAGUR – GAMLÁRSDAGUR

Þegar suddinn vék að áliðnum morgni birtist dýrð himinsins. Fjöllin voru sem borðalögð dökkrauðum dúk sem smám saman varð ljósfagurrauður. Ég skellti mér í gallann og arkaði út. Gat ekki litið af skýjunum fallegu og má þakka fyrir að hafa ekki rekist á hlauparana eða steypst á hausinn á stígnum. Vindur var allnokkur og herti þegar leið á daginn.

Sindri, Breki, Dóra, Pétur, Marcela og við Jónas borðuðum saman um kvöldið. Pétur og Marcela voru á næturvakt í Gistihúsinu þar sem Marcela vinnur. Þótti vissara að Pétur væri þar með henni á slíkri gleðskaparnóttu. Dóra og strákarnir kveiktu í alls kyns flugeldum og fýrverkeríi hér úti á lóðinni. Ég fylgdist með út um gluggannn og skemmti mér hvað best yfir útganginum á þeim. Sindri var í galla af Pétri og Breki í galla af mér, býsna spaugilegir í múnderingunni.

Skemmtum okkur vel yfir áramótaskaupinu, sem var harla gott. Flugeldarnir voru hreint ekki af minni sortinni og flugu um loftið lengi nætur. Var farin að halda að svefnfriður fengist alls ekki. Las fram eftir nóttu, en svefnin sigraði að lokum.