JANÚARDAGAR 2011
8.1. LAUGARDAGUR
Enn er kalt og sterkur vindur. Mest frost -6°. Sljákkað hefur í veðurguðunum og flest komið í sæmilegt lag eftir veðurhaminn síðustu daga.
Leyfðar voru brennur og flugeldar í dag til að bæta upp veðrið á þrettándanum, en allt var það heldur hóflegt. Pétur og Marcela tóku að sér að sprengja og skjóta upp flugeldum, sem ekki gafst færi á að senda til lofts á gamlárskvöld. Þá er það frá og jólasvipur einnig horfinn hér innan húss.
9.1. SUNNUDAGUR
Enn er frost á Fróni og frís í æðum blóð. Þetta er nú eiginlega orðið alveg nóg. Samkvæmt dagbók minni var þetta ólíkt betra á sama tíma fyrir ári. Þá var vissulega vetrarveður, frost og stundum snjókoma, en þá var ekki þessi herjans vindur. Sé það skráð að ég hef sprangað um í góða veðrinu 9.1. 2010, hrifist af dýrð himins og jarðar og eigi kvartað yfir dálitlu frosti. Nú er hins vegar eins gott að hafa skjól í góðu húsi.
10.1. MÁNUDAGUR
Sæmilegt veður í dag. Skýjað, úrkomulaust, lítill vindur, frost mest -5°.
Er enn að taka til eftir hátíðasukkið. Fór með flöskur og dósir í Sorpu og fannst ég klyfjuð, en það var aumur bunki miðað við ósköpin sem flestir aðrir drógu með sér.
Enn er ófriðlegt í þingflokki VG og grasrótarliðið andvarpar utangátta. Erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir þremenningunum, þeim Lilju, Atla og Ásmundi? Ég sé ekki annað en að þau þrjú hafi getað komið öllu sínu á framfæri, þótt tillögur þeirra falli ekki allar í kramið. Hélt reyndar að ýmsar breytingar til batnaðar á fjárlögunum hefði mátt rekja til þeirra, sem þau hefðu mátt fagna. En þau virðast ætlast til að farið sé að þeirra vilja í einu og öllu og eru móðguð ef það gengur ekki eftir. Og gagnrýna félaga sína af fullri hörku, saka þá um forræðishyggju og foringjaræði. Krefjast svo opinberrar afsökunar Árna Þórs, þegar hann svarar gangrýni þeirra.
Gagnrýni er sjálfsögð. Skoðanaskipti eru sjálfsögð. Jafnræði er sjálfsagt. Málamiðlun er nauðsynleg, ef ekki eru allir á sama máli. En fólk er misjafnlega fúst til sátta. Hvað er að í þessum þingflokki? Hverjir eru öðrum þverari? Halda þingmennirnir að þeir séu einir í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði?
11.1. ÞRIÐJUDAGUR
Nokkuð hvass vindur, sólskin með köflum, og mælirinn lúrði við frostmarkið um miðjan daginn.
Pétur og Marcela eiga tveggja ára brúðkaupsafmæli og fagna því á ýmsan máta.
Heyrði hljóðið í Dóru. Þær Hera áttu góða daga í París, enda ekki jafn fjári kalt þar eins og hér á Fróni. Þær urðu fyrir óláni á leið til Gent, Hera var rænd ferðatösku í lestinni frá Brussel. Þeim var skipað að geyma farangur sinn á vissum stað í lestinni, en á leiðarenda fannst ekki taska Heru. Sem betur fer er farangurinn tryggður svo að tjónið verður bætt.
12.1. MIÐVIKUDAGUR
Alskýjað og talsverður vindur. Þurrt og kalt. Hitastigið í kringum frostmark.
Ylja mér við lestur Ársrits Fuglaverndar. Ritið er stútfullt af skemmtilegu efni og frábærum myndum. Textahöfundar hrífast mjög af örnum. Um þá fjalla þrjár greinar og allar athyglisverðar. Ernir eru ekki smáfríðir né árennilegir. En þeir eru magnaðir og tignarlegir á fluginu með vænghaf sem nálgast tvo og hálfan metra. Aðra glæsilega fugla af ýmsum stærðum vantar heldur ekki. Fínlega, litskrúðuga, flugfima, fagurt galandi og skemmtilega. Helsingi, lundi, lómur, gulandarsteggur, krossnefur og allir hinir. Hver einasta fuglamynd gleður augað. Læt mig dreyma um sumar og sól og ljúfan fuglasöng.
13.1. FIMMTUDAGUR
Grenjandi hvasst. Varað við stormi í nótt. Frostlaust við suðurströndina, en kaldara til landsins.
Spiluðum bridds við Þórð og Sólrúnu og nutum góðra veitinga við svo búið. Jónas er kokkurinn að vanda og bauð m.a. upp á frábæran humar.
14.1. FÖSTUDAGUR
Gat ekki sofið fyrir vindgnauðinu og las reifara í heila klukkustund um miðja nótt áður en ég náði að sofna. Sljákkaði ögn í vindinum að deginum og hitastigið lúskraðist yfir frostmarkið.
Fékk þær fréttir hjá Eddu að hestarnir okkar á Kaldbak virtust vel haldnir þrátt fyrir kuldatíðina. Erum vissulega betur sett en hestar og hestamenn í kafsnjónum fyrir norðan. Útigangshestar þar eiga erfitt með að krafsa ofan í snjóinn til að snapa grastoppa, og innistandandi hestar eru ekki ánægðir með sinn hlut, enda fá þeir litla hreyfingu í ófærðinni.