Afdrifaríkt bíó árið 1974

JANÚARDAGAR 2011

1.1.2011 LAUGARDAGUR

Sæmilegt veður á þessum fyrsta degi ársins. Ekki þó jafn fallegt og á síðasta degi gamla ársins. Hitastigið var mest um 3°. Talsverður vindur jók kulið. Sólin skein glatt, en ekki lengi.

Í gær lauk ég dagbók ársins 2010. Hef ekki áður skráð dagbók af slíkri staðfestu, enda ekki sérlega skipulögð manneskja. Hóf þessa tilraun 1.1. 2010 og hafði reyndar helst í huga að skrá upplýsingar um veður og áhrif þess á umhverfið. Ýmislegt slæddist með, sem varðar daglegt líf mitt, fjölskylduna og annað mér nákomið, ekki síst hestana, sem eru mér kærir.

Einhverntíma hefði ég örugglega skráð ýmsar meiningar um það sem á hefur gengið í stjórnmálunum á þessum sama tíma. Fyrir kom að ég gerði það, oftast af hreinni tilviljun og fann sjaldan löngun til þess. Sennilega vegna þess að mér finnst alveg nóg um alla þá umfjöllun sem yfir okkur hellist. Hef litlu við þau ósköp að bæta.

Er bara nokkuð ánægð með að hafa tekist að halda strikið við dagbókarskrifin í heilt ár, og kannski er komið nóg. Ég velti því fyrir mér, en ætli sé ekki best að sjá bara til.

2.1. SUNNUDAGUR

Milt og gott veður. Mestur hiti 5°. Suddi mestallan daginn. Þoka.

Matreiðslan byrjaði snemma í eldhúsinu. Leitaði uppi gamla góða uppskrift, sem ég hafði ekki notað alllengi. Helguð jólum. Reyndist vel og þótti góð. Linsubaunir, laukur, hnetur, sveppir og sitthvað fleira. Útslagið gerði rosa góð sósa með sólberjasaft, rifsberjasultu, rjóma o.s.frv. Tókst reyndar að rugla ögn saman í önnunum, en yfirleitt gerir það nú ekkert til.

Í þetta sinn gat allur hópurinn okkar verið með. Ánægjulegt upphaf góðs árs 2011.

3.1. MÁNUDAGUR

Gott veður að morgni. Mætti sárafáum á göngustígnum, en hrafnarnir, máfarnir og gæsirnar létu til sín heyra. Um miðjan dag versnaði veðrið. Orðið allhvasst og kalt um kvöldið.

4.1. ÞRIÐJUDAGUR

Hvassviðri raskaði næturró. Heiðríkt mestallan daginn og frostið mældist mest um -5°. Kuldinn er napur í hvassviðrinu.

Ég vorkenndi Sindra og Breka að byrja í skólanum eftir lúxus frídaganna. Dóra ók þeim í Snælandsskóla, en var bara nýkomin aftur þegar hringt var og beðið um að sækja Breka, sem hafði kastað upp í miðjum leikfimitíma. Líklega búinn að fá einum of mikið af hátíðamat, sælgæti og gosi. Jólin og áramótin taka á.

5.1. MIÐVIKUDAGUR

Fjarska fallegt og ósköp kalt. Vindinn lægði nokkuð þegar leið á daginn, sem gerði útivistina bærilegri. Gæsahópur kroppaði grasið hér skammt frá. Ég færði gæsunum mulið brauð. Þær virtust tortryggnar, en vonandi hafa þær gleypt við þessu eftir að ég lét mig hverfa.

6.1. FIMMTUDAGUR – ÞRETTÁNDINN

Hvass vindur og úfinn sjór. Frostið mældist a.m.k. -11° og kuldinn var metinn um -30°. Öðru hverju lítils háttar hríð, einkum þó skafrenningur. Mjög vont víða um landið. Víðast hvar þurfti að fresta þrettándabrennum og tilheyrandi.

Á þrettándanum árið 1974 fór ég í bíó með Jónasi og drengjunum okkar þremur að sjá Chaplin í Nútímanum. Það mun vera einsdæmi í þessari fjölskyldu, þar sem bíóferðir hafa ekki verið almennt skemmtiatriði á dagskránni. Kannski hefði það gerst oftar, ef betur hefði staðið á, því við skemmtum okkur feikilega vel þetta kvöld. Strákunum fannst merkilegt hvað ég hló mikið og ekki síður hvað ég innbyrti mikið popp. Líklega hafði hvort tveggja sín áhrif, því að morguninn eftir fæddist lítil stúlka, sem mörgum þótti ótrúlegur atburður, enda bjuggum við fastlega við fjórða syninum!

Haraldur F. Gíslason leikskólakennari, gjarna kallaður Halli í Botnleðju, skrifaði góðan pistil á Smuguna í dag. Hann segir m.a:

“Ég er 36 ára menntaður leikskólakennari í 100% starfi með þriggja ára háskólanám að baki og 12 ára starfsreynslu á leikskóla. Ég er deildarstjóri og ber ábyrgð á 23 börnum. Ég er yfirmaður annarra kennara á deildinni, ber ábyrgð á því að allir kennarar vinni gott starf og fari eftir Aðalnámskrá leikskóla og Skólanámskrá Hörðuvalla. Ég er líka hópstjóri 8 barna á deildinni og sé um að skipuleggja starfið fyrir þann hóp. Ég ber ábyrgð á lyfseðilskyldum lyfjum eins og rítalíni sem sum börn þurfa að taka. Ég þarf að búa til sérstaka matseðla, vigta allan mat og reikna út með flókinni reiknisformúlu svokallað phenamagn fyrir barn með sjaldgjæfan efnaskiptagalla sem heitir PKU. Ég þarf að skrá það niður allan daginn og senda svo rétta tölu til foreldra. Ef ég geri mistök get ég átt þátt í því að barnið hljóti varanlegan heilaskaða. Ég sé að mestu leyti um tónlistarstarf deildarinnar. Ég fer vikulega á yngstu deildina og sé um tónlistarstarfið þar. Ég sé nær undantekningarlaust um sameiginlegan söngfund leikskólans. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Ég fæ 5 klukkutíma á viku til að undirbúa allt starfið, eiga samtöl við foreldra, reyna að uppfæra heimasíðuna, kynna mér nýjar stefnur og strauma og margt fleira sem fellur undir starfssvið mitt. Fyrir þetta fæ ég útborgað rétt rúmlega 200 þúsund á mánuði.”

Seinna segir hann:

“Það geta allir sungið rokk, það geta allir spilað pönk, það geta allir verið gordjöss, það geta allir farið í sjónvarpsviðtöl, það geta allir verið í bæjarstjórn. En það geta ekki allir verið kennarar. Það geta ekki allir haldið jákvæðum og góðum aga á 23 barna deild eða bekk. Það geta ekki allir skapað með gleði vinnufrið til náms á 23 barna deild eða bekk. Kennsla er list. Góðir kennarar eiga skilið mannsæmandi laun og starfsumhverfi.”

Hárrétt hjá Haraldi.

7.1. FÖSTUDAGUR

Mjög hvasst og kalt. Varla nokkur úrkoma á suðvesturhorninu. Annars staðar ennþá hvassara, einkum norðaustan lands. Hríðarbyljir, oft afar lítið skyggni, ófærð, rafmagnstruflanir, plötur fuku af þökum o.s.frv.

Og árla morguns flaug afmælisbarnið frá okkur. Heldur fannst mér ónotalegt að kveðja Dóru um miðja nótt í beljandi vindinum. Pabbi hennar ók með hana og Heru suður á Keflavíkurflugvöll og þaðan flugu þær til Parísar. Var ekki í rónni fyrr en ég heyrði frá þeim, þá komnar á hótel í París. Sögðust hafa sofið af sér allan óróann í loftinu og ekki rumskað fyrr en tilkynnt var um lendingu á Charles de Gaulle airport.

Dóra á sem sagt 37 ára afmæli í dag. Þvílíkt hvað tíminn flýgur.