Selur lá á steini

FEBRÚARDAGAR 2011

1.2. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður fyrrihluta dagsins. Stundum rigning og stundum jafnvel hríðarhraglandi. Engin læti í vindinum, en spáð að hann fari að þenja sig næstu sólarhringa. Enn vel yfir frostmarki fram yfir hádegi, en kólnaði upp úr því. Frostið komið í -3° í kvöld.

Skilaði öllum hjálpartækjum í dag eftir þriggja mánaða notkun. Finnst það góður áfangi.

2.2. MIÐVIKUDAGUR

Hríð öðru hverju í allan dag. Mest -2° frost. Má búast við stormi í nótt.

Fór til Árna læknis, sem blés fast og myndarlega úr vinstra eyra svo að nú heyri ég vel. Þarf að heimsækja hann aftur til að hann geti meðhöndlað hægri eyrað. Sagði mér þær merku fréttir að ef hann blési úr báðum eyrum fólks í einu ætti það til að svima óþægilega.

Sindri og Breki komu til okkar í dag. Þeir skelltu sér í Plútóbrekku með sleða sína, sem við geymum hér, því það er engin aðstaða í Kópavogi til að renna sér á sleða. “Það er gott að búa í Kópavogi” er gömul klisja þar um slóðir, skrifuð á Gunnar Birgisson fyrrverandi bæjarstjóra. Gorgeirin dugir bara ekki, meðan íbúar þar geta ekki stært sig af sleðabrekkum.

Strákarnir sýndu mikinn dugnað við heimanámið og er það reyndar ekki nýtilkomið. En þeir hafa greinilega bætt miklu við sig og eru ánægðir í skólanum. Á morgun verður upplestrarkeppni í bekk Sindra, hann æfði sig í upplestri bókarkafla og ljóðs og gerði það prýðilega.

3.2. FIMMTUDAGUR

Varð minna úr vonda veðrinu sem spáð var. Það lét þó til sín heyra um nóttina og dálítið var hryssingslegt um morguninn. Um hádegisbil fór sólin að skína og veröldin birtist fallega hvít og hrein eftir snjókomuna í gær. Um kvöldið fór að snjóa. Frostið varð aldrei meira en um -3°.

Lítil aðsókn var í morgunsundið, ég var þar einfaldlega alein mestallan tímann. Eftir hádegið arkaði ég með sjávarbökkum í fallega veðrinu.

4.2. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í morgun og frábært í sundinu, enda þótt frostið væri -6°. Vindurinn var svo hógvær og stillti sig alveg fram yfir hádegi. Um kvöldið æstist hríð og vindur og á tímabili gat þetta kallast blindbylur eða stórhríð. Snjórinn hlóðst að útidyrunum á örskömmum tíma.

Jónas á afmæli á morgun. Í tilefni af því bauð ég honum í hádegismat í dag, því það hentir ekki jafn vel á morgun. Við fórum í Humarhúsið, sem okkur finnst alltaf notalegur og góður staður. Fengum frábæra humarsúpu, rauðsprettu og súrmjólkurís í eftirrétt með súkkulaði á bránís (hvernig svo sem á að skrifa það) og appelsínumauk. Allt saman æðislega gott.

5.2. LAUGARDAGUR

Skemmtilegur morgun. Talsverður snjór. Tók tímann sinn að skafa af bílnum og koma honum út úr skaflinum. Frostið var ekki nema rétt undir frostmarki í mestallan dag.

Synti hálfan annan kílómetra og fann ekki fyrir þreytu. Orkan er að eflast. Synti svona mikið aðallega vegna þess að ég beið eftir Svönu. Við Tóta vorum komnar á fremsta hlunn með að fara upp úr, þegar Svana birtist. Gaman að hittast loksins allar þrjár í laugardagssundinu, sem ekki hefur orðið síðan í október. Það var því um margt að spjalla.

Jónas kemst varla yfir allar hamingjuóskirnar á fésbókinni með afmælið í dag. Anna Halla systir hans hafði samband á skype og varð úr því klukkutíma spjall við okkur bæði. Pétur og Marcela buðust til að sjá um matinn fyrir afmælisbarnið og var það með þökkum þegið. Marcelu finnst við lítið gera úr afmælisdögum miðað við fjörið hjá hennar fólki í Perú. Sinn er siður í landi hverju.

Dóra var með fyrirlestur í vinnunni sinni og var himinlifandi þegar við spjölluðum saman í kvöld. Margt fólk hlustaði á hana og sýndi mikinn áhuga. Hún vonast til að hafa veitt nokkra kúnna í dag. Var í góðu stuði.

6.2. SUNNUDAGUR

Enn hefur bæst við snjóinn, sem gerir sitt til að fegra umhverfið. Veðrið var ágætt mestallan daginn, en kólnaði þegar vind herti um kvöldið. Hitastigið var ýmist undir eða yfir frostmarki.

7.2. MÁNUDAGUR

Frost mest -2°. Logn og glaðasólskin. Frábært veður allan daginn. Um kvöldið heilsaði máninn upp á okkur og lýsti upp ládauðan sjóinn.

Fórum í góðan göngutúr í hálfan annan tíma eftir hádegið. Gengum Kotagrandann og hringinn í kringum Suðurnesið. Fylgdumst með fuglunum, sem eru ótrúlega margir á þessum tíma. Selur lá á steini skammt frá og brölti einhver ósköp áður en hann skellti sér út í sjó.

Hef gaman af að fylgjast með þresti, sem virðist hafa tileinkað sér gljávíðirunnana hér við inngönguna. Þar hefur hann svolítið skjól og virðist einhvers staðar fá nóg að borða, því hann er spikfeitur.

Briddsinn var hjá okkur í kvöld. Sátum yfir kræsingum eftir spilamennskuna og spjölluðum lengi saman.