Laufabrauð og tunglmyrkvi

DESEMBERDAGAR

15.12. MIÐVIKUDAGUR

Snemma morguns var 7° hiti á mæli. Um hádegisbilið var hitinn kominn niður í 2° og kl. 13:30 -1° frost. Og undir kvöld var frostið orðið -4°.

Fór til Gunnars læknis í morgun til eftirlits. Hef verið hálf ergileg yfir mislöngum löppum og ólánlegum frágangi skurðsársins. Það þótti Gunnari algjör óþarfi. Var bara ánægður með framvindu mála og sá ekki ástæðu til annars en að ég yrði hraust og hress eftir 2-3 mánuði. Ólánlegi frágangurinn ætti eftir að lagast. Ég trúi yfirleitt öllu sem hann segir.

16.12. FIMMTUDAGUR

Fallegt út að líta, en afar kalt. Kaldara verður víst á morgun og næstu daga. Hugnanlegt fyrir konukind eins og mig, sem á eftir að kaupa allar jólagjafirnar.

17.12. FÖSTUDAGUR

Óveðrið skall á í gærkvöldi og er enn að djöflast á Norður- Austur- og Suðausturlandi. Línur slitnuðu víða og rafmagnslaust var allengi á nokkrum bæjum. Upp úr hádeginu var óveðrið komið hingað. Ýmislegt hefur gengið á, en við erum altént laus við fannfergið, sem er mikið fyrir norðan og austan.

Helgi Seljan tók Lilju Mósesdóttur á beinið í Kastljósinu í kvöld. Lilja stóð sig þokkalega, en virtist þó óörugg og ekki mjög sannfærandi. Hún, Atli Gíslason og Ásmundur Daði Einarsson studdu ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem var til lokaafgreiðslu í dag. Athyglisvert að Atli og Ásmundur höfðu áður stutt fjárlagafrumvarpið við lok 2. umræðu, en ekki að lokinni þeirri þriðju, sem hafði þó tekið nokkrum breytingum til hins betra, sérstaklega í velferðarmálum. Svolítið ruglaðir. Auðvitað á hver og einn þingmaður að breyta samkvæmt bestu samvisku. Á hinn bóginn verða þingmenn líka að geta starfað með öðrum. Þeir verða að geta tekið því að ná ekki öllu fram sem þeir vilja og sætta sig við málamiðlun innan eigin hóps.

18.12. LAUGARDAGUR

Grenjandi hvasst í nótt. Átti allt eins von á rúðunum inn í rúm til mín! Um frostmark fyrripart dagsins, því sem næst heiður himinn. Sólin reis við enda Heiðinnar há kl. 11:50.

Upp úr hádeginu safnaðist fjölskyldan saman til laufabrauðsgerðar. Allt okkar önnum kafna fólk mætti til leiks og var aldeilis líf og fjör í kotinu. Var nú skorið út af misjafnlega mikilli list, og afraksturinn hátt á 200 laufabrauðskökur. Pétur og Marcela reiddu fram vorrúllur og pítsur, og ekki nokkur sála fór svöng heim. Það má bóka.

Horfði á skemmtilega og sérstaka mynd í sjónvarpinu. Frönsk mynd sem kallast Refurinn og barnið. Það kemur sem sagt fyrir, að boðið er upp á góðar myndir í sjónvarpi allra landsmanna, eins og sagt er.

19.12. SUNNUDAGUR

Enn er kalt og hvasst, og mætti nú alveg hlýna ögn.

Tvö barnabarnanna voru í sviðsljósinu í dag. Auður spilaði á píaníó, m.a. Til Elísu, og Sindri keppti í fótbolta og gekk vel. Var dálítið lúin og dösuð eftir atið í gær og gat því miður ekki séð þau brillera. Léleg amma þennan daginn. Eins og það er gaman að sjá þessa krakka sýna listir sínar og ná sífellt meiri færni. Verð vonandi orðin hress og fjörug í næstu hrinu.

20.12. MÁNUDAGUR

Frostið bítur og vindur næðir. Og enn mun kólna samkvæmt spá Veðurfræðinga.

Jónas brá sér upp á Kaldbak og ekki var nú hlýrra þar. Því miður sá hann hvergi hestana. Þeir geta víða leitað sér skjóls og vilja frekar vera úti en inni. Gæti þó örugglega þegið svolítið hlýrra loftslag.

Fór loks í leit að góðum gjöfum handa barnabörnunum. Gekk allvel, en á helminginn eftir.

21.12. ÞRIÐJUDAGUR

Vetrarsólstöður. Hlakka til að sjá dagana lengjast og birtuna þokast nær. Mjög kalt, mest -9° í Reykjavík, -15°á Kaldbak.

Í morgun gafst Íslendingum tækifæri til að fylgjast með tunglmyrkva, sem er sannarlega ekki hversdagslegur viðburður. Afar sjaldgæft er að tunglmyrkvi verði sama dag og vetrarsólstöður. Það gerðist síðast 21. desember árið 1638.Við höfðum ágæta aðstöðu hér á Fornuströnd til að sjá þetta út um glugga. Stórmerkilegt. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stillti upp sjónaukum við Útvarpshúsið og bauð hverjum sem vildi að njóta þeirrar aðstöðu. Nokkur hundruð þáðu boðið og þótti ekki verra, að auk tunglmyrkvans var hægt að sjá Satúrnus og Venus vel í sjónaukunum.

22.12. MIÐVIKUDAGUR

Kalt, kalt, kalt. Mér er alltaf kalt um þessar mundir. Jónas segir að ég sé ekki nógu feit. Það er líklega alveg satt.

Í morgun var mikið frost, en dró verulega úr frosti þegar leið á daginn. Seinnipartinn var frostið um -4°, þá herti vind og snjóaði lítilsháttar.

23.12. FIMMTUDAGUR

Þorláksmessa. Snjóhula yfir öllu. Lítið frost, en nokkuð hvasst. Hrafnarnir fljúga stöðugt fram og aftur, og gæsirnar kúra sig niður á bakkanum. Blessaðir fuglarnir vonast eftir einhverju í gogginn.