DESEMBERDAGAR
8.12. MIÐVIKUDAGUR
Alskýjað, -2° frost fram eftir degi. Undir kvöld var kominn 3° hiti!
9.12. FIMMTUDAGUR
Aldeilis umbreyting í veðrinu. Hiti 5° og lítilsháttar rigning.
Mannaði mig upp í að hreyfa bílinn. Það gekk ljómandi vel. Þurfti ekki einu sinni sessu undir rassinn. Er fegin að geta bjargað mér sjálf.
Dóra kom fljúgandi frá París kl. 5. Fór eldsnemma morguns frá Gent með tram og lest og metro og þurfti svo að hanga í 3 tíma í faðmi de Gaulle. Var orðin ansi þreytt og slæpt og fegin að skríða upp í gamla góða rúmið sitt.
Enn einu sinni er búið að semja við Breta og Hollendinga um Icesave, þ.e.a.s. til bráðabirgða, því Alþingi þarf að fjalla um málið og vonandi samþykkja að lokum. Og svo er auðvitað stóra spurningin hvort Ó.Grímsson stillir sig um að sprengja samkomulagið.
10.12. FÖSTUDAGUR
Dimmt yfir, talsverð úrkoma, mestur hiti 7°.
Stöðugar umræður um Icesave-samninginn. Fróðlegt að heyra og lesa um starf Lee C. Bucheit formanns nefndarinnar, sem vann að samningnum. Þar fer maður með mikla reynslu og athyglisverð eftirfarandi orð hans: “Ég gerði skuldamál þjóða að ævistarfi og ég ann því heitt, enda eru engin verkefni sambærileg.” Ég segi nú bara að mikið er gott að hann hefur gaman af þessu! Hann var til í tuskið hér fyrir tveimur árum og má ætla að viturlegt hefði verið að fá hann þá strax í þetta “skemmtilega” verkefni. Það var óráð að setja lítt reynda menn í þetta mál. Líklegt er þó að það hafi hreinlega þurft þennan tíma til að ná svo góðum árangri sem nú blasir við.
11.12. LAUGARDAGUR
Þungbúið loft og rigning öðru hverju. Hiti mestur 5°.
12.12. SUNNUDAGUR
Milt veður, hiti 5°.
Tvívegis gisti ég í Lauftúni í Skagafirði á ferðalagi um landið, síðast sumarið 2005. Gott var þar að gista. Nokkru fyrr höfðu Frakkar dvalist þar og kunnað vel við sig. Bóndanum þótti merkilegt að Frakkarnir tóku látlaust myndir af skýjum himins og voru yfir sig hrifnir. Við hlógum að þessu. Ég minnist þessa oft þegar ég get varla slitið mig frá glugganum í ljósaskiptum að morgni eða kvöldi.
13.12. MÁNUDAGUR
Dagarnir stuttir og dimmir. Ekki sást til sólar í dag. Lítilsháttar rigning. Mestur hiti 5°.
Fórum með Fordinn minn í viðgerðina snemma í morgun. Yfirmaður Péturs rak bílinn sinn utan í minn fyrir nokkru og dældaði hann pent. Fékk bílaleigubíl til afnota meðan minn er í viðgerð.
Pétur og Marcela komu heim eftir viku dvöl á Kaldbak. Sögðust hafa sofið heil ósköp og notið leti og hvíldar eftir annasama mánuði undanfarið.
14.12. ÞRIÐJUDAGUR
Ekki fékk sólin að skína í dag, en hitinn fór upp í 7°. Öðru hverju svolítil rigning.
Mér sýnist ekki hafa dregið úr auglýsingum blaðanna í tilefni jóla frá því sem var fyrir hrunið margumrædda. Dýrustu gjafahugmyndirnar þekja dagblöð og ótal sérblöð. Flugfélögin auglýsa ferðalög sem aldrei fyrr og gefa til kynna að það séu tilvaldar jólagjafir. Tölvubúðirnar auglýsa 100 – 200 þúsund kr. tölvur til jólagjafa. Flatskjár bíða í hillum. Rándýr fatnaður, kjólar, skór og útivistarflíkur eru áberandi. Hvað hugsar fólkið sem á naumast fyrir jólamat?