JANÚARDAGAR 2011
23.1. SUNNUDAGUR
Veður nokkuð gott. Mestur hiti 7°. Dálítill vindur og svolítil rigning öðru hverju.
Furðu fátt í morgunsundinu. Kannski hafa sumir ekki verið búnir að ná sér eftir bóndadag og meðfylgjandi. Ágætt reyndar að hafa gott pláss á sundbrautum. Er komin upp í 700 metra og ekki lengur jafn erfitt um fótahreyfingar. Þetta er allt að koma.
Horfði á kvikmynd Magnúsar Magnússonar um lifnaðarhætti fálkans, samspil fálka og rjúpu í náttúrunni og rannsóknir Ólafs K. Nielsens á þessum fuglum. Feikilega falleg mynd.
Um kvöldið horfði ég á þátt í sjónvarpinu sem kallast 8 raddir. Þær raddir eiga 8 íslenskir framúrskarandi söngvarar og ekki boðið upp á nein lélegheit. Þessir þættir höfðu reyndar til þessa farið algjörlega fram hjá mér, en rak augun í það að gestur þáttarins yrði Bjarni Thor Kristinsson, sem mér finnst fantagóður bassi. Og ekki brást hann. Sagði margt skemmtilegt og söng frábærlega. Svo gerði hann mér þann stólpagreiða að syngja Nóttina hans Árna Thorsteinssonar, sem er með fallegustu lögum þessa lands. Lét þó vera að brynna músum. Fyrsta vers af þremur hljómar svo:
Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,
þótt duni foss í gljúfrasal,
í hreiðrum fuglar hvíla rótt,
þeir hafa boðið góða nótt.
24.1. MÁNUDAGUR
Þokkalega hlýtt veður, en reyndar súld mestan hluta dagsins. Lítill vindur, mestur hiti 7°.
Bridds hjá Sólrúnu og Þórði í Hellulandi um kvöldið. Fékk ýmist bráðskemmtileg spil eða ömurleg og allt þar á milli, eins og oft vill verða. Var nokkuð lánsöm að þessu sinni og þar með var að sjálfsögðu mjög gaman.
25.1. ÞRIÐJUDAGUR
Milt veður, mestur hiti 5°. Þokuloft og alskýjað, rigning öðru hverju.
Sáum að veðurstofan spáðu góðu í Hrunamannahreppnum og brugðum okkur upp á Kaldbak. Þar var öndvegis veður, milt og ljúft, hiti um eða yfir 4°. Aðalmálið var að athuga hvernig hestunum liði. Þeir höfðu nóg af heyi hjá sér á Sandhólnum og sumir höfðu m.a.s. lagt sig í góða veðrinu. Allir spruttu auðvitað upp þegar þeir sáu molapokann. Stönsuðum vel og lengi hjá hestunum, skoðuðum ástand þeirra og komumst að þeirri niðurstöðu að þeir væri í góðu formi. Sannarlega gaman að hitta blessaða hestana loks eftir þriggja mánaða hlé.
26.1. MIÐVIKUDAGUR
Ágætis veður í dag, stillt og lítil úrkoma, mestur hiti 6°. Mætti reyndar alveg vera svolítið léttara yfir, það hefur ekki sést almennilega til sólar síðustu daga.
Smáfuglarnir voru kátir í morgun, þeir kunna vel að meta blíða morgna. Hér í kring er orðið talsvert af stórum trjám sem veita fuglunum skjól og bjóða upp á upplagða söngpalla. Stararnir eru oft margir í konsertinum, en þeir eru ekki einir um hituna. Sé oft þresti og heyri til annarra, sem er ekki alltaf jafn auðvelt að þekkja.
27.1. FIMMTUDAGUR
Indælt veður, svolítil súld í morgun og stundum rigndi afar pent. Mestur hiti 5°.
Auður fór eitthvað vitlaust niður tröppur heima hjá sér í kvöld og gat hreinlega ekki stigið í annan fótinn. Meðan hún fór með mömmu sinni í læknisskoðun á slysó var ég hjá Kristínu og Áslaugu. Það var skemmtileg heimsókn, enda líflegar stúlkur. Þær sýndu mér nýjan fjölskylduvin á heimilinu, svolítin páfagauk, sem er reyndar kvenkyns og heitir Vala. Skondin og skemmtileg.
Kristín var að reikna þegar ég kom og las svo upphátt heila bók svona líka ljómandi vel. Er einnig farin að læra á píanó og spilaði lag fyrir mig. Áslaug vildi ekki vera minni og sýndi ýmsar listir. Hún söng bráðskemmtilegt lag og las fyrir okkur heila bók áður en þær systur fóru að sofa. Áslaug fer létt með lesturinn, semur bara eigin texta með myndum í bókunum. Hennar textar eru hreint ekki síðri en bókarhöfundar. Niðurstaða heimsóknar á slysó var hughreystandi, Auður sleppur með tognun.
28.1. FÖSTUDAGUR
Lítið indælt við veðrið í dag. Hitastigið hefur hangið í kringum frostmarkið og öðru hverju höfum við fengið yfir okkur hagl eða hríðarél. Sossum ekkert óveður, bara svolítill þræsingur.
Það var friðsælt og fámennt í sundinu. Vatnið hlýtt og gott að dóla nema rétt á meðan haglið buldi yfir. Notaði daginn til að klára mikinn sænskan doðrant, sem heitir því aðlaðandi nafni “Maðurinn sem var ekki morðingi”. Sögð algjör sprengja eftir Hjorth og Rosenfeldt og ekki meira um það að segja nema að þetta er sannarlega spennandi bók og frekar vel skrifuð. Nú er rétt að hvíla glæpasögur og finna sér eitthvað menningarlegra til aflestrar.
29.1. LAUGARDAGUR
Leiðindaveður. Mikil rigning, fremur hvasst, en hitinn fór í 5°.
Og nú er það ævisaga Gunnars Thoroddsen. Rosalegur doðrant, þykkur og þungur. Hef aldrei verið fíkin í ævisögur. Þær eru reyndar mun skárri, ef aðalpersónan er ekki lengur á meðal vor. Þá er líklegra að sannleikurinn hafi yfirhöndina. Guðni Th. Jóhannesson skrifar þessa ævisögu af miklum ágætum, og textinn rennur vel. Þessi mikla bók hefur þann ókost að vera svona stór og þung. Hún er ekki góð í rúmi. Ég get yfirleitt alls ekki sofnað án þess að lesa eitthvað áður. Verð að hafa einhverja litla bók við rúmgaflinn til að leysa Gunnar af fyrir svefninn.
30.1. SUNNUDAGUR
Hvasst og rigning öðru hverju. Mestur hiti 4°. Lægði um kvöldið.
“Hábítur” með stórfjölskyldunni. Öll mætt nema Katla, Hera og Dóra, stelpurnar okkar í útilöndunum. Við sátum drjúgt og spjölluðum. Verst að ég er gjörsamlega heyrnarlaus á öðru eyranu og heyrði því ekki alla spekina. Þruma litla skemmti sér gróflega í ruslaskápnum, fundum hana þar þegar KKK fóru að tygja sig. Ungfrúin góða hafði komist í feitt og dreift helming ruslinnihaldsins um allt gólf og var blátt áfram himinsæl á svipinn.
31.1. MÁNUDAGUR
Rigningin var í aðalhlutverkinu í dag, en vindur ekki mikill. Hitastig varð mest 6°.
Merkilegast á þessum degi er sú staðreynd að nú eru liðnir 3 mánuðir síðan ég fór með mjaðmarskarnið í viðgerð. Batinn kostar talsverða þolinmæði. Nú kemur þetta í stökkum í sundiðkun á hverjum degi. Blessað sundið.